Stjórn Landverndar styður margar af þeim breytingum sem gera á á lögum um vernd og veiðar á villtum dýrum en telur að aukna áherslu eigi að leggja á vernd búsvæða dýra í hættu. Þá telur stjórnin að selir og hvalir eigi að falla undir lögin.
Umsögn Landverndar um drög að frumvarpi til laga um til laga um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og villtra spendýra.
Til hefur staðið að endurskoða ofangreind lög um langt árabil. Síðasti starfshópur um endurskoðun lauk störfum 2013 og skilaði af sér viðamikilli skýrslu sem hefur verið núverandi starfshóp um endurskoðun laganna dýrmæt. Stjórn Landverndar fagnar mjög frumvarpsdrögunum og styður í meginatriðum þær breytingar sem þau lýsa.
Mikilvægt er að vill dýr njóti verndar
Almennt
Sérstakar stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir alla helstu stofna villtra dýra sem stýritæki ákvarðanatöku telur Landvernd að geti reynst sérstaklega gott tæki fyrir alla aðila. Þær eru líklegar til þess að tryggja faglega ákvarðanatöku á vísindalegum grunni og vítt samráð. Stjórn Landverndar styður heilshugar að áætlanirnar verði samvinnuverkefni tveggja stofnanna, Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Báðar stofnanir hafa dýrmæta fagþekkingu sem nýtist við gerð áætlananna og aukin samvinna milli þeirra er mjög ákjósanleg. Hins vegar verður að tryggja skýra verkaskiptingu og ábyrgð. Í frumvarpsdrögunum er lagt til að Náttúrufræðistofnun sjái um verndarhluta og Umhverfisstofnun stjórnarhluta áætlananna en að Umhverfisstofnun hafi umsjón með því að setja saman heildstæða áætlun. Þetta fyrirkomulag er líklegt til þess að heppnast ef vilji er til hjá báðum stofnunum en ef til vill ætti að leggja meiri áherslu á að stofnanir vinni saman að því að setja saman heildstæða áætlun.
Greinar frumvarpsins um lögfesting válista (15. gr) og fyrirmæli um að veiðar skuli vera sjálfbærar (20. gr.) eru tímabærar og mikilvægar og stjórn Landverndar styður þær heilshugar.
Því miður hefur veiðieftirlit og -stjórnun ekki verið nægilega virkt og eftirlitsaðilar hafa ekki getað brugðist við skaða sem veiðar geta valdið á náttúru landsins eins og dæmi um utanvegaakstur sexhjóla sýna (sjá viðhengi 1). Því er brýnt að efla þessa þætti, bæði í lögum en einnig í framkvæmd.
Selir og hvalir eru villt dýr sem þarfnast verndar
Ábendingar við einstaka greinar
2. gr.
Stjórn Landverndar sér ekki ástæðu til þess að undanskilja seli og hvali frá þessum lögum þar sem þau ná til einnig til nytjaveiða og leggur til að 2. gr Gildissvið orðist svo:
„Ákvæði laga þessara taka til allra villtra fugla og villtra spendýra á íslensku yfirráðasvæði, hvort sem er á landi eða sjó, innan efnahagslögsögu Íslands.
Trúverðugleik verndarþáttar laga um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og villtra spendýra er í húfi ef selir og hvalir eru undanskildir. Ef selir og hvalir falla undir lögin, verða gerðar stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir þá þar sem þol stofnanna fyrir veiði er greind sem er afar jákvætt. Í frumvarpinu mætti ef ástæða þykir til ræða um villt landspendýr og villt sjávarspendýr.
8. gr.
Landvernd telur að taka eigi fram í 8. gr. að hafa eigi samráð við umhverfisverndarsamtök. Eins og margoft hefur komið fram láta þau sig varða afkomu villtra dýra og ástand búsvæða þeirra og eiga því jafn mikið erindi í samráð, ekki síður en þeir aðilar sem tilgreindir eru.
10. gr.
Frumvarpsdrögin mættu taka betur á vernd búsvæða villtra dýra en gert er í 10 gr. Vísað er í Náttúruverndarlög sem er vel en rétt væri að vísa í ákveðna kafla og greinar þeirra [IX kafli náttúruverndarlaga fjallar um friðun vistkerfa, vistgerða og tegund]. Þá er jafn nauðsynlegt að vernda búsvæði dýra með hátt verndargildi sem og að vernda stofninn.
Skv. 10 gr. er óheimilt að veiða ófleyga unga. Í þessu sambandi þarf að huga að hefðbunum nytjaveiðum á hálffleygum fílsungum. Þessar veiðar eru stundaðar í ákveðnum landshlutum, sögulega sem lífbjörg og hin seinni ár sem hluti af matarmenningu. Skýra þarf vel hvernig þessu verður háttað í framtíðinni.
18. gr.
Landvernd telur nauðsynlegt að við afléttingu á friðun gildi mjög ströng skilyrði og þau verið að ná til Umhverfisstofnunar sem og ráðherra. Landvernd leggur því til að 1. mgr. 18gr. verði svohljóðandi (breytingar feitletraðar):
Ráðherra er heimilt að aflétta friðun villtra fugla og villtra spendýra, sem ekki njóta aukinnar eða sértækrar friðunar, sé talið í stjórnunar- og verndaráætlun að hætta sé á að tegundin geti valdið verulegu, raunverulegu og skilgreindu tjóni á heilsu fólks eða búfénaðar eða hún geti valdið alvarlegri ógnun við öryggi, umtalsverðu fjárhagslegu tjóni, eða tjóni á náttúru landsins og líffræðilegri fjölbreytni þess, sbr. XI kafla laga þessara.
22. gr.
Lagt er til að veiðar á friðlýstum svæðum verði bannaðar nema annað sé tekið fram í friðlýsingarskilmálum. 3ja. málsgrein hljóði svo:
Á friðlýstum svæðum eru veiðar bannaðar nema sérlög, friðlýsingarskilmálar eða stjórnunar- og verndaráætlanir sem gilda um svæðið mæli fyrir um annað.
24. gr.
Hvað varðar veiðiaðferðir almennt telur stjórn Landverndar að í gildi skuli vera sú megin reglan að aflífa beri býr þannig að það valdi sem minnstum sárauka og taki fljótt af, eins og fram kemur í 25. gr. um skyldur veiðimanna.
Orðalagi í 3. mgr. 24. gr. er misvísandi. Enginn er bundinn við hjólastól heldur situr fólk í hjólastól.
29. gr.
Landvernd telur að 29. gr. eigi að fella úr frumvarpinu. Um þessar tegundir skal gera stjórnar- og verndaráætlanir og meta sérstaklega hvort og hversu miklar veiðar þær þola. Í samræmi við áherslur frumvarpsdraganna um sjálfbærar veiðar og stjórnunar- og verndaráætlanir er ekki eðlilegt að binda veiðitímabil í lög. Lögbinding þýðir að stjórnun veiða tilgreindra tegunda yrði bundin ákvörðun Alþingis og reynslan sýnir að lagabreytingar geta verið tímafrekar. Þær aðferðir sem frumvarpsdrögin leggja til um veiðistjórnun, mat á þoli stofnsins og sjálfbærni veiða, ættu að hafa almennt gildi. Hugsanlega mætti 29. gr. vera til bráðabirgðar og miðast við þann tíma sem það tekur að ganga frá stjórnunar- og verndaráætlun fyrir viðkomandi stofna. Sama á við grein 33 um eggjatöku landeigenda.
36. gr.
Stjórn Landverndar telur að endurskoða verði samsetningu Hreindýraráðs (grein 36) Eðlilegt er að Náttúrufræðistofnun og Náttúrufræðistofa Austurlands eigi fulltrúa í ráðinu.
41. gr.
Notkun sexhjóla við hreindýraveiðar hefur í einhverjum tilvikum valdið miklum spjöllum á íslenskri náttúru (sjá viðhengi 1). Stjórn Landverndar telur varhugavert að um sexhjól gildi aðrar reglur en um önnur vélknúin farartæki. Reynslan sýnir að sexhjól skilja eftir sig för og valda gróðurskemmdum. Leiðbeinandi reglur umhverfisstofnunar um utanvegaakstur geta ekki veitt rýmri heimildir en eru í lögum. Því þarf í 3. mgr 41. gr. að kveða skýrt á um að ekki má aka utanvega á sexhjólum eða öðrum farartækjum.
44. og 45. gr.
Stjórn Landverndar telur greinar 44 og 45 ónauðsynlegar þar sem stjórnunar- og verndaráætlanir og undanþáguheimildir í 18. og 19. grein koma á móts við þau atriði sem þar eru tekin fyrir. Landvernd bendir á að refur er hluti af villtri náttúru Íslands og hann á að njóta verndar sem slíkur og lúta ákvæðum um stjórnunar- og verndunaráætlun.
47. gr.
Það gæti verið ástæða til að tilgreina kanínur á sama hátt og gert er með mink, sem framandi tegund sem veldur tjóni á lífríki.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Landverndar
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri