Orkusalan hyggur á vindorkuver við Lagarfoss á Fljótsdalshéraði. Svæðið er á náttúruminjaskrá, á alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði auk þess sem víðsýni og fjölbreytni gróðurs er mikil.
Í matsáætlun Orkusölunnar kemur fram að verið sé að „öðlast reynslu og byggja upp þekkingu á rekstri vindmylla”.
Það getur engan veginn talist trúverðugt að hér sé nánast um tilraunaverkefni að ræða. Að reisa 160 m háar vindtúrbínur með þeim gífurlega kostnaði og umhverfisáhrifum sem munu fylgja þessari framkvæmd hlýtur að teljast til varanlegra virkjunarframkvæmda, með endurnýjun í huga að líftíma loknum.
Orkusalan segist hafa að leiðarljósi að koma í veg fyrir mengun – og að fyrirtækið muni „vernda umhverfi og lífríki”. Getur Orkusalan rökstutt hverskonar vernd er fólgin í að reisa 160 m vindorkuver sem gengur á viðkvæman gróður og ógnar fuglalífi inni á alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði?
Landvernd bendir á grænþveginn texta í matsáætlunni sem smættar þessa fyrirhuguðu iðnaðaruppbyggingu: Iðnaðarvindorkuver við Lagarfoss getur engan veginn borið nafnið „VINDLUNDUR” þar sem fátt er í raun fjarstæðukenndara en að reyna að skapa hugrenningatengsl þessara risamannvirkja við vinalega skógarlundi. Að búa til samlíkingar iðnaðaráforma við það sem móðir jörð gefur af sér er grænþvottur af versta tagi.
Landvernd leggst alfarið gegn þessum áformum og sendi Skipulagsstofnun umsögn um málið.