Virkjum kærleikann í þágu náttúrunnar

Landmannalaugar,vinsæll ferðamannastaður á Fjallabaksleið nyrðri austur af Heklu; í Friðlandi að fjallabaki, hálendi Íslands
Pistill Tryggva Felixsonar formanns Landverndar í Ársriti Landverndar 2021.

Tryggvi Felixson formaður Landverndar skrifar

Þegar leitarorðin „björgum jörðinni“ eru slegin inn á leitarvél Google birtast á sekúndubroti nær 200 þúsund ábendingar. Er það vísbending um að nægt framboð sé á ráðum til að bjarga lífríki jarðar, heimili okkar manna, frá eyðileggingu? Ef svo er ætti viðfangsefnið að vera tæknilega viðráðanlegt. En tæknigetan ein leysir ekki vandann. Sökum okkar eigin andvaraleysis er heilsufar lífríkis jarðar á hverfanda hveli og þar með lífgrundvöllur mannlegs samfélags, eins og við þekkjum það.

Stríð við náttúruna er heimskulegt og má líkja við sjálfsvíg

Í febrúar sl. birti umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna enn eina skýrsluna um ástand jarðar undir fyrirsögninni „Semjum frið við náttúruna,“ leiðbeiningar um hvernig vísindin gætu tekið á því neyðarástandi sem ríkir vegna loftslagsbreytinga, rýrnandi lífbreytileika og mengunar.

Í upphafsorðum skýrslunnar ritar aðalritari Sameinuðu þjóðanna 

„Mannkynið er í stríði við náttúruna. Það er heimskulegt og má líkja við sjálfsvíg. Afleiðingar kæruleysis okkar eru þegar augljósar; í þjáningum manna, gífurlegu efnahagslegu tjóni og sívaxandi eyðileggingu á grundvelli lífs á jörðinni.“

Sú mynd sem dregin er upp af heilsufari lífríkis jarðar í framangreindri skýrslu er dökk og boðskapurinn er, að hvorki þekking né skortur á lausnum sé ástæðan. Meginskaðvaldurinn er hins vegar afstaðan til náttúrunnar. Lausnin gæti falist í því að breyta sambandi okkar við náttúruna – að semja við hana frið. Kærleikurinn er er aflið sem þarf að virkja.

Þar sem kærleikurinn ræður ríkjum

Lykillinn að því að lækna sjúkdóma er væntumþykja, þekking og vilji. Með því að rækta kærleikann til náttúrunnar breytist viðhorfið til hennar. Samfélagið hættir þá að líta á hana sem þjón mannsins og hún fær sitt eigið tilvistargildi sem heild – sem vistkerfi, þar sem maðurinn er bæði hluti af náttúrunni og lifir af henni. Með breyttu gildismati fá aðrir þættir en efnahagslegur ávinningur og skammtímagróði meira vægi. Ákvarðanir sem varða heilsufar lífríkis jarðar verða teknar á öðrum forsendum. Fjármunum úr sameiginlegum sjóðum verður ráðstafað með hliðsjón af umhverfisáhrifum. Atferli sem veldur tjóni á náttúrunni er skattlagt í samræmi við mengunarbótaregluna eða bannað. Sérhagsmunir og kæruleysi víkja.

Dásemdirnar allt um kring

Starf Landverndar snýst m.a. um að opna augu fólks fyrir dásemdum jarðar – og að rækta hið nauðsynlega samband á milli manns og náttúru. Verkefni eins og Grænfáninn, Vistheimt með skólum, Ungt umhverfisfréttafólk, Loftslagsvernd í verki, hópferðir til að skoða land í hættu og nú síðast enduropnun Náttúruskólans að Alviðru eru framlag Landverndar til þeirrar nauðsynlegu viðleitni að bæta samskiptin á milli manna og náttúru; draga úr kæruleysi og auka vilja til úrbóta.

Garður þjóðarinnar

Hálendi Íslands er ein verðmætasta auðlind Íslands, ef ekki sú verðmætasta. Þeim verðmætum er ógnað af margvíslegum áformum um m.a. orkumannvirki, uppbyggða vegi, háspennulínur, of miklu beitarálagi á viðkvæmum svæðum o.fl.

Þjóðgarðar hafa þann tilgang að stuðla að mannbætandi upplifun í náttúrunni en jafnframt að stýra umgengni og nýtingu með þeim hætti að náttúrgæðum verði ekki spillt. Að mati stjórnar Landverndar hefur „þjóðgarðsleiðin“ sannað sig bæði á Íslandi og víða erlendis sem skilvirk og góð náttúruvernd . Til að vernda hálendið er því affarasælast að fara þá leið. Um þetta er nú deilt. Ánægjulega segja flestir, sem taka til máls í þeirri umræðu, að vernda beri hálendið. Það er gott veganesti að farsælli lausn. Þó kann að vera að samræður þar um taki lengri tíma en vonir Landverndar stóðu til.

Mannlíf og náttúra dafni í sátt

Ef vel er að verki staðið getur ávinningur aðgerða til að vernda loftslagið verið umtalsverður og m.a. stuðlað að auknum jöfnuði í samfélaginu. Slíkar aðgerðir munu þó óhjákvæmilega draga úr arði þeirra sem byggja efnahag sinn á „rányrkju“. Það þarf, eins og Andri Snær sagði í bókinni Um tímann og vatnið, „nánast að endurhanna 20. öldina eins og hún leggur sig“. Lausnirnar eru margar hverjar fyrir hendi og þær vinna ekki bara á loftslagsvandanum, heldur munu þær einnig stuðla að sjálfbærri hagsæld og gera heiminn að stað þar sem mannlífið fær að dafna í betri sátt við náttúruna. Það sem vantar nú er öflugri pólitískur vilji, víðtækari stuðningur almennings og skilvirkara alþjóðlegt samstarf. Skilningur á þessu fer vaxandi þó enn sé talsvert um svokallaðan grænþvott. Landvernd lagði fyrst fram heildstæðar tillögur um loftslagsaðgerðir árið 2005 og er enn að. Loftslagshópur Landverndar er mikilvægur vettvangur til að vekja vitund og móta hugmyndir um lausnir og Vefskóli Landverndar býður nú almenningi námskeiðið Loftslagsvernd í verki til að draga úr eigin kolefnisspori.

Grænar lausnir þvert á allar línur

Landvernd er ekki flokkspólitísk samtök, heldur sístarfandi við að koma grænum lausnum á framfæri. Þar skiptir engu hvaða stjórnmálaflokkur á í hlut. Árlega sendir Landvernd frá sér marga tugi umsagna þar sem málstað græna hagkerfisins er haldið á lofti.

Þakkir

Sem formaður Landverndar hef ég verið lánsamur að starfa í félagsskap sem leggur sig fram í verkefnum sem hafa þann tilgang að gera landið okkar og jörðina að betri stað. Saman reynum við að fylgja eftir vilja 6.000 félaga í Landvernd, sem telja náttúruvernd vera eitt mikilvægasta verkefni samtímans. Það er heiður að vera formaður stærstu og öflugustu náttúruverndarsamtaka landsins. Því fylgir mikil ábyrgð. Andspyrna sérhagsmuna og einstaklinga, samtaka og fyrirtækja sem hafa aðrar hugmyndir getur verið óvægin og orðljót. Látum það ekki slá okkur út af laginu og spilla vinnugleðinni, til þess er verkefnið of mikilvægt. Ég þakka framkvæmdastjóra Landverndar, Auði Önnu Magnúsdóttur og starfsfólki Landverndar fyrir mikilvægt framlag. Félögum í stjórn þakka ég góðan stuðning og óeigingjarna vinnu í þágu náttúrunnar.

Tryggvi Felixson, formaður Landverndar 2019-2021

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd