Ungu fólki bauðst í vetur að taka þátt í samkeppni á vegum Landverndar um bestu umhverfisfréttirnar. Verkefni bárust frá 10 framhaldsskólum í samkeppnina og verða þau bestu verðlaunuð þann sjötta maí.
Sýnd verða brot úr verkefnum sigurvegara og rætt við höfunda um hugmyndina þann 6. maí næstkomandi klukkan 13:00. Verðlaunaafhendingin er unnin í samstarfi við Norræna húsið. Viðburðinum verður streymt og má fylgjast með hér, á facebook viðburði Landverndar og á vefsíðu Norræna hússins.
HORFA STREYMI
Sýningin er hluti af verkefninu Ungt umhverfisfréttafólk sem er unnið í samstarfi við framhaldsskóla á landinu. Það er rekið í 45 löndum víðsvegar um heiminn og er vettvangur fyrir ungt fólk til að kynna sér umhverfismál með gagnrýnum hætti og miðla upplýsingum til almennings eftir fjölbreyttum leiðum. Vel hefur verið tekið í verkefnið og verður samkeppnin ansi spennandi að sögn verkefnastjóra. Landvernd hefur ásett sér að reka verkefnið í bæði framhaldsskólum, efri stigum grunnskóla og á háskólastigi þegar fram líða stundir.
Verkefnið veitir skólum tækifæri til þess að gefa umhverfismálunum aukið vægi í kennslu. Þeir fá faglega aðstoð kennara við að kynna sér umhverfismálin og mikil áhersla er lögð á að heimildir séu áreiðanlegar. Slíkt er nauðsynlegt á tímum falsfrétta.
Mikil áhersla er lögð á aðkomu ungmenna í verkefninu. Í stýrihóp verkefnisins sitja t.d. aðilar frá Ungum umhverfissinnum, Landssamtökum íslenskra stúdenta og Sambandi íslenskra framhaldsskólanema. Ungmennasamtökin veita auk þess sérstök verðlaun ári hverju, fyrir það verkefni sem höfðar best til ungmenna hverju sinni og eiga einnig fulltrúa í ungliðadómnefndinni, þeir eru Jóhanna Steina; forseti SÍF, Hjördís Sveinsdóttir; ritari LÍS og Tinna Hallgrímsdóttir; varaformaður UU.
Hin dómnefnd verkefnisins samanstendur af reynsluríku fólki í miðlun upplýsinga á vettvangi fjölmiðla og kvikmyndagerðar. Dómnefndina skipa Snærós Sindradóttir, fjölmiðlakona, Benedikt Erlingsson, leikari og leikstjóri og Ragnhildur Þrastardóttir, blaðamaður.
Við hvetjum alla áhugasama til þess að horfa á streymið og kynnast því sem ungt fólk er að gera í umhverfismálum í dag.
Tengt efni
Okkar helstu viðfangsefni
No products were found matching your selection.