Bláskógaskóli í Reykholti byrjar í Vistheimtarverkefni Landverndar

Miðstig Bláskógaskóla í Reykholti hóf í haust vinnu við verkefnið "Vistheimt" í samvinnu við Landgræðslu ríkisins, Landvernd og Landgræðslufélag Tungnamanna og er þema í Grænfánaverkefni Landverndar.

Miðstig Bláskógaskóla í Reykholti hóf í haust vinnu við verkefnið “Vistheimt” í samvinnu við Landgræðslu ríkisins, Landvernd og Landgræðslufélag Tungnamanna og er þema í Grænfánaverkefni Landverndar. Vistheimt er ferli sem stuðlar að bata vitkerfis sem hefur hnignað af einhverjum ástæðum og snýr að uppgræðslu og endurheimt gróðurs á örfoka landi. Það hjálpar nemendum betur að skilja hvernig hægt er að aðstoða náttúruna á svæðum sem hafa skemmst eða raskast til dæmis vegna eldgosa, beitar eða veðurfars. Þeir fá jafnframt skilning á því að með því að auka grósku, frjósemi og líffjölbreytileika svæðisins vinna þeir líka gegn loftslagsbreytingum.

Nemendur fóru með kennurum sínum upp í Rótarmannatorfur við Bláfell mánudaginn 11. september og hófu starf sitt með því að gróðursetja birki og baunagras. Í vor er svo fyrirhugað að gera ýmiss konar rannsóknir og tilraunir bæði á hálendinu, í skólastofunni og í nágrenni skólans. Verkefni þetta er þverfaglegt og kemur inn á alla þætti kennslunnar.