Byggjum upp loftslagsvænni ferðaþjónustu

Landmannalaugar, byggjum upp loftslagsvænni ferðaþjónustu í kjölfar COVID-19, landvernd.is
Grípum tækifærið og byggjum upp loftslagsvænni ferðaþjónustu í kjölfar COVID-19. Þórhildur Fjóla varaformaður Landverndar og Loftslagshópur Landverndar leggur fram tillögur.

Í janúar sl. bárust fréttir af alvarlegum veirufaraldi. Þremur mánuðum síðar hafa því næst öll ríki heims brugðist við með umtalsverðum og oft fordæmalausum aðgerðum, bæði til að hefta útbreiðslu Covid-19 og hjálpa þeim sem veikast standa, en einnig til að taka á þeim efnahagsvanda sem fylgir.

Sorry, we couldn't find any posts. Please try a different search.

Þetta ástand sem nú ríkir með afboðunum, lokunum, frestunum og flugsamgöngum í algjöru lágmarki hefur gríðarlega mikil neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á Íslandi. Þetta er afar erfiður tími fyrir marga.

Allir eru sammála um að þetta sé tímabundið ástand og að Ísland verði aftur að áhugaverðum áfangastað fyrir ferðamenn. Ísland er vinsæll ferðamannastaður mikið til vegna fjölbreyttrar og óspilltrar náttúru sem varla á sér hliðstæðu annarstaðar og það mun standast tímans tönn ef okkur lukkast að standa vörð um hana.

Byggjum upp loftslagsvænni ferðaþjónustu

Hvernig ætlum við að byggja ferðaþjónustu upp aftur og búa í haginn fyrir framtíðina? Getum við nýtt þennan „biðtíma“ vegna Covid-19 í að undirbúa uppbyggingu á loftslagsvænni þjónustu? Losun gróðurhúsategunda vegna ferðamanna ræðst fyrst og fremst af því hvernig þeir ferðast á milli staða. Bæði til landsins og um landið. Ísland er með afar gott aðgengi að vistvænum orkugjöfum og því kjöraðstæður til að bjóða upp á loftslagsvænar lausnir í samgöngum.

Styrkjum almenningssamgöngur

Loftslagshópur Landverndar hefur mikið velt þessum málum fyrir sér. Hann leggur áherslu á að það sé unnið að lausnum sem auka valmöguleika ferðamanna sem vilja koma til Íslands. Það þarf að leggja meiri áherslu á þróun og rannsóknir á möguleikum til ferjuflutninga á milli Íslands og Evrópu, með Skotland sem næstu höfn sem tengist meginlandinu. Hópurinn sér fyrir sér framtíð þar sem ferjur á þessari leið ganga fyrir rafmagni, metani eða öðrum vistvænum orkugjöfum. Hér þarf að byrja að hugsa um lausnir til lengri tíma. Einnig þarf að leggja ríkari áherslu á að veita fjármagni í rannsóknir og þróun á vistvænni orkugjöfum fyrir flugsamgöngur.

Loftslagshópur Landverndar hefur lagt fram tillögu sem miðar að því að eftirfarandi framtíðarsýn verði að veruleika:

2020 Aukið fjármagn í nýsköpun og þróun fyrir notkun hreinna orkugjafa í flugsamgöngum í samstarfi við nágrannaþjóðir

2020 Aukið fjármagn í nýsköpun og þróun farþegaflutninga með ferjum til Skotlands sem nota vistvæna orkugjafa í samstarfi við Breta

2030 Jarðefnaeldsneytislausar sjósamgöngur

2035 Markmið um rafvæðingu millilandaflugs. Að lendingargjald og stæðisgjald fyrir einkaflugvélar sem lenda á flugvöllum í rekstri ISAVIA verði hækkað um 300%

Eins og staðan var fyrir Covid-19 ferðuðust langflestir ferðamenn um landið á eigin bílaleigubíl, sem gekk fyrir jarðefnaeldsneyti. Ísland ætti markvisst að bjóða ferðamönnum upp á samgönguþjónustur sem eru loftslagsvænni. Bílaleigubílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti auka losun, loftmengun og álag á alla vegainnviði með tilheyrandi samfélagskostnaði. Bílaleigur gætu nýtt “biðtímann” til að móta sér stefnu og aðgerðaráætlun um hvernig væri hægt að byggja starfsemina upp aftur með loftslagsvænum lausnum.

Loftslagshópur Landverndar vill:

2022 Að allar bílaleigur verði skuldbundnar til þess að kaupa eingöngu inn vistvæna bíla frá 2022

2023 Að sala á nýjum dísil- og bensínbílum verði bönnuð frá 2023 og að bíleigendur verði hvattir til þess að breyta bílum sínum í metanbíla með nauðsynlegum hvötum.

Borgarlínuframkvæmdir og almenningssamgöngur verði í forgangi við flýtingu á opinberum framkvæmdum vegna Covid-19

2025 Jarðefnaeldsneytislausar almenningssamgöngur á landi

2030 Jarðefnaeldsneytislausar landssamgöngur

Til að fleiri ferðamenn nýti almenningssamgöngur gætu sveitarfélög undirbúið upplýsingaherferð um þann fjölbreytta ferðamáta sem er í boði á hverjum stað og lagt aukna áherslu t.d. á rafhjólaferðamennsku, hjólaferðir, gönguferðir og að bæta almenningssamgöngur til og frá vinsælum ferðamannastöðum. Hótel og gististaðir gætu verið með góða og hvetjandi aðstöðu fyrir fjölbreyttan ferðamáta t.d. hleðslustæði, hjólastæði/rafhjólastæði, leigt út rafhjól og verið með ítarlegar upplýsingar um gönguleiðir í nágrenninu. Upplýsingar um Strætóappið væri hægt að auglýsa betur bæði á BSÍ og á Keflavíkurflugvelli.

Gætum að umhverfisáhrifum af komu ferðamanna

Þekking almennings um allan heim og áhyggjur af loftslagsmálum eru vaxandi. Í því felast líka tækifæri, Ísland ætti að verða það land sem fólk sem er umhugað um umhverfið sækir í að heimsækja. En þá þurfum við að passa vel upp á að umhverfisáhrifin af komu ferðamanna verði í algjöru lágmarki.

Ferðumst innanlands

Einn liður í átaki stjórnvalda til að koma hjólunum aftur í gang er gjafakort sem hvetur til ferðalaga innanlands. Hér væri hægt að vanda valið og styðja við þau fyrirtæki sem eru með metnaðarfulla umhverfisstefnu og eru að huga að loftslagsvænum lausnum

Tengt efni

Loftslagshópur Landverndar vinnur að aukinni vitund um loftslagsmál, vertu með, landvernd.is

Loftslagshópur Landverndar

Loftslagshópurinn er hluti af grasrót Landverndar. Þar koma saman félagar í Landvernd sem vilja hafa áhrif og grípa til aðgerða í loftslagsmálum. Allir félagar og ...

Okkar helstu viðfangsefni

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd