Skólar á grænni grein vinna ötullega að menntun til sjálfbærni og umhverfismálum með nemendum sínum og eru verkefnin valdeflandi og aðgerðamiðuð og vinna að sjálfbærni í víðum skilningi.
Unnið er eftir hugmyndafræði menntunar til sjálfbærni en hún undirbýr nemendur fyrir áskoranir samtímans og framtíðarinnar á valdeflandi og skapandi hátt.
Við þurfum að skoða hvað í fortíðinni og nútíð hefur skapað ójafnvægi á milli náttúru, samfélags og efnahags.
Markmið Skóla á grænni grein eru að;
- bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku.
- efla samfélagskennd innan skólans.
- auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan.
- styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við stjórnun skólans þegar teknar eru ákvarðanir sem varða nemendur.
- veita nemendum menntun og færni til að takast á við áskoranir samtímans og framtíðarinnar.
Heimsmarkmið 4.7 kveður á um að
Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.
Skólar á grænni grein (Eco-schools) er alþjóðlegt menntaverkefni sem byggir á menntun til sjálfbærni.
Grænfáninn er veittur þeim skólum sem innleiða menntun til sjálfbærni með skrefunum sjö.
Landvernd, frjáls og óháð náttúruverndar og landgræðslusamtök hafa haft umsjón með verkefninu á Íslandi frá upphafi. Hjá samtökunum vinna sérfræðingar í menntun til sjálfbærni sem veita skólum stuðning, fræðslu og ráðgjöf.