Mikið hefur borið á blautþurrkum í veitukerfinu að undanförnu. Blautþurrkuskrímslið ógurlega stækkar í pípunum okkar og stíflar allt. Fyrir vikið fer skólpið óhreinsað út í sjó. Við megum ekki hætta að huga að heilbrigði hafsins þó að við séum meira heima við eða komin með þrifaæði. Allt tengist þetta. Um helmingur þess súrefnis sem við öndum að okkur kemur frá plöntusvifi í hafinu. Það er því mikilvægt að minnka mengun sem rennur til sjávar.
Hér eru nokkrar leiðir til að tækla blautþurrkuskrímslið!
1. Minnkum notkun á blautþurrkum eða sleppum þeim alfarið
Það er ágætis regla að nota aðeins blautþurrkur á ferðinni en nota aðrar leiðir innanhúss.
Til eru margskonar blautþurrkur; Þurrkur fyrir andlitið, brúnkuklútar, bossaklútar og hreinsiklútar. Sumir eru hreint út sagt eitraðir á meðan aðrir eru taldir „umhverfisvænni”. Í ‘BLAUT’ þurrkum má oft finna allskyns aukaefni og ofnæmisvalda, líkt og ilmefni, rotvarnarefni (t.d. phenoxyethanol og methylisothiazolinone) auk annarra efna sem geta ruglað hormónakerfi líkamans. Til að forðast slík efni má leita að svansmerkinu á vörunni, en það er umhverfismerki sem notað er á Norðurlöndum. Blautþurrkur og grisjur eru oftast úr plastefnum líkt og viscose, polyester og polypropylene en þó má finna blautþurrkur úr náttúrulegum efnum, eins og sellulósapappír, bómull og bambus.
2. Hendum öllum blautþurrkum í ruslið
Umhverfisvænasta blautþurrkan er líka fæða fyrir blautþurrkuskrímslið!
Hvort sem að það er „umhverfisvænni“ blautþurrka úr “niðurbrjótanlegu”, náttúrulegu efni eða plastþurrka, þá á hún ekki heima í klósettskálinni. Blautþurrkur sem merktar eru „flushable“ eða „niðursturtanlegar“ stífla líka kerfið og eiga að fara í ruslið.
Þó að blautþurrkan hafi þá eiginleika að geta brotnað niður á t.d. 28 dögum í kjöraðstæðum, þá eru aðstæðurnar í veitukerfinu okkar langt frá því að vera „kjöraðstæður” fyrir niðurbrot blautþurrka. Allar gerðir blautþurrka eiga að fara í ruslið að notkun lokinni.
3. Notum fjölnota klúta
Notum fjölnota klúta úr náttúrulegum efnum sem má sjóða. Kaupa má tilbúin stykki, eða gefa gömlum þreyttum handklæðum eða bolum endurnýjun lífdaga með því að klippa niður og falda í þvottastykki.
Til dæmis mætti nota mismunandi liti á stykkjum eftir því hvaða dörtí bissness á að leysa.
Á bossann
Nota má klósettpappír, bleyjuna sem barnið er í fyrir það mesta en bleyta fjölnota klút til að þvo bossann. Vinnustofan Ás selur t.d. svona stykki, fjölmargir nota svokallaða Saga Class klúta – sem er annars hent eftir eina notkun og eru dæmi um leikskóla sem nota þessa klúta við öll bleyjuskipti. Hér eru leiðbeiningar fyrir þau sem vilja færa sig yfir í taubleyjur.
Á andlitið
Fjölnota andlitspúðar eins og heklaðar margnota bómullarskífur eru tilvalin á andlitið. Hér er uppskrift! Slíkar skífur má fá í verslunum sem leggja áherslu á plastlausar vörur. Þvottastykki eru líka tilvalin.
Einnota bómullarskífur eiga líkt og blautþurrkurnar ekki að fara í klósettið heldur í ruslið.
Í sótthreinsunina
Fjölnotaklúta má sjóða í þvottavél eftir notkun.
Að þrífa klósettið
Ef að ekki er notast við tusku, má nota klósettpappír.
Að lokinni notkun má henda klútunum á suðu í þvottavélinni. Ef fólk vill forðast t.d. lykt eða óhreinindi frá notuðum klútum áður en þeir eru þvegnir, má setja notaða klúta t.d. í vatnsheldan renndan pul poka (sjá hér) sem má þvo með innihaldinu, þvottakörfu með loki, eða bleyjutunnu.
4. Pössum pípurnar
Fita, olía, steikingarfeiti, sósur og smjör og annað álíka á ekki að fara í vaskinn.
Af hverju?
Slíkur úrgangur storknar í frárennslislögnum og hleður á sig enn óæskilegri úrgangi eins og BLAUTÞURRKUM sem myndar svo stíflur. Í stað þess að hella slíkum vökva í vaskinn má safna honum saman í krukkur eða ílát, henda í almennt rusl eða koma í endurvinnslu. Í fyrirmyndar sveitarfélögum eins og Akureyrarbær er steikingarolía frá almenningi og veitingarstöðum notuð í framleiðslu lífdíselolíu sem má nota á farartæki! Sjá nánar hér.
Skilaboð frá Veitum
Klósettið er bara fyrir kúk, piss og klósettpappír!
5. Endurhugsum neysluna
Lífsstíll okkar og neysla hefur skapað stórt vandamálið. Til að leysa þetta vandamál þurfum við að endurhugsa það sem við notum, kaupum og borðum. Hverju getum við sleppt? Þurfum við þetta allt í raun og veru?
Mynd með grein: Veitur og Landvernd. Tekin 20. mars 2020. Athugið. Myndin er SAMSETT.