Heimildamynd – Mengun með miðlum – Sigurvegarar 2020

sigurvegarar-ungt-umhverfisfrettafolk-landvernd.is
Heimildarmynd um mengun samfélagsmiðla sem unnin var af nemendum í Tækniskólanum. Hún sigraði árið 2020 keppni Ungs umhverfisfréttafólks hjá Landvernd.

Verkefnið Ungt umhverfisfréttafólk hjá Landvernd er ætlað ungu fólki og snýst um að kynna sér umhverfismál og miðla upplýsingum til almennings með fjölbreyttum leiðum. Tíu verkefni komust í undanúrslit árið 2020. Verkefnin voru af ólíkum toga og komu frá framhaldsskólum víðsvegar af landinu. Eitt verkefnanna var heimildarmynd um mengun samfélagsmiðla.

Mengun með miðlum er heimildarmynd sem að rannsakar áhrif samfélagsmiðla og streymiveita á umhverfið. Stárkarnir Axel Bjarkar, Hálfdán Helgi og Sölvi Bjartur voru 16 ára þegar þeir gerðu heimildarmyndina sína og hugmyndina að myndinni má rekja til þess að einn þeirra fór að spá í því hversu mikil mengun væri á bakvið eitt „like“ á Facebook. 

Heimildarmyndin tengist 13. markmiði Heimsmarkmiðanna, aðgerðir í loftslagsmálum og með myndinni vonast strákarnir til þess að vekja fólk til meðvitundar um mengun samfélagsmiðla. 

Hvernig minnkum við kolefnisspor okkar á netinu?

Í heimildarmyndinni, sem sjá má hér að neðan, gefa strákarnir ýmis ráð varðandi það hvernig einstaklingar geta minnkað kolefnisspor sitt á netinu á raunhæfan hátt, þú getur til dæmis:

  • slökkt á „autoplay“ á samfélagmiðlum
  • horft á efni með minni skjá (í síma í stað tölvu t.d.)
  • slökkt á Wi-fi þegar þú ert ekki að nota það
  • horft minna á streymisveitur
  • hreinsað gamla tölvupósta úr pósthólfinu þínu og hætt að taka við ruslpósti

Heimildarmyndin Mengun með miðlum var í fyrsta sæti í keppninni árið 2020. 

Hér má sjá dómnefnd verkefnisins árið 2020. Hana skipuðu Snærós Sindradóttir, fjölmiðlakona, Benedikt Erlingsson, leikari og leikstjóri og Ragnhildur Þrastardóttir, blaðamaður. Á myndinni er einnig Vigdís Fríða, verkefnastjóri hjá Landvernd.

Dómnefndin hafði þetta að segja um heimildarmyndina: 

Verkefnið fellur algjörlega að titli keppninnar, Ungt umhverfisfréttafólk, þar sem aðstandendur verkefnisins fjölluðu á fræðandi hátt, að heiðarleika og sanngirni um afkima umhverfisvandans og þessa knýjandi kröfu á að samfélagsmiðlar verði knúnir áfram af grænni orku. Það er augljóst að aðstandendur verkefnisins lögðu mikið í að búa til heildstæðan fréttaskýringarþátt á þessa hlið umhverfismála sem fáir þekkja.

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd