Hveravellir er jarðhitasvæði á milli Hofsjökuls og Langjökuls og algengur áningarstaður á leið yfir Kjöl. Fyrir utan náttúrufegurð hafa þeir mikið sögulegt gildi, en þar höfðust við um hríð hinir þekktu útlagar Eyvindur Jónsson (Fjalla-Eyvindur) og Halla Jónsdóttir. Eyvindarhver á svæðinu er nefndur í höfuðið á Fjalla-Eyvindi, en á svæðinu er einnig að finna Öskurhól og Bláhver. Virkjunarhugmyndir á Hveravöllum snúast um 70 MW jarðvarmavirkjun sem fellur í biðflokk þar sem hugmyndin var ekki metin af öllum faghópum rammaáætlunar.