Hvítá er ein lengsta á landsins en hún á upptök sín í Hvítárvatni við austanverðan Langjökul. Áin rennur nánast óhindrað til sjávar og hefur ekki verið virkjuð til orkunýtingar. Tilhögun virkjunar er talsvert breytt frá því hún var fyrst sett fram. Hvítá yrði stífluð um 2 km ofan við Brúarhlöð og lón myndað í farvegi árinnar ofan stíflu. Virkjunin yrði rennslisvirkjun með stöðvarhús við stíflu og uppsett afl 17 MW. Umhverfisáhrif yrðu einkum á ásýnd lands, landslagsheild, vatnasvið Hvítár og á gróður í lónstæði.