Loftslagsbreytingar og valdefling á vel sóttri ráðstefnu Skóla á grænni grein

Ráðstefna Skóla á grænni grein, Við getum öll haft áhrif val vel sótt, landvernd.is
Viðfangsefni ráðstefnunnar var loftslagsbreytingar í skólastarfi. Var ráðstefnan vel sótt og samanstóð dagskráin af erindum, vinnustofum og menntabúðum.

Ráðstefna Skóla á grænni grein fór fram í Verzlunarskóla Íslands þann 7. febrúar s.l. Hún var afar vel sótt en á hana mættu um 180 manns úr þátttökuskólum verkefnisins. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Við getum öll haft áhrif“ og var sérstök áhersla lögð á loftslagsbreytingar og valdeflingu nemenda í því samhengi.

Boðið var upp á fjölbreyttar vinnustofur á ráðstefnu Skóla á grænni grein, Við getum öll haft áhrif, landvernd.is
Boðið var upp á fjölbreyttar vinnustofur á ráðstefnu Skóla á grænni grein, Við getum öll haft áhrif.

Valdefling og loftslagsbreytingar

Á ráðstefnunni voru upplýsandi og valdeflandi erindi um loftslagsmál í bland við gagnvirkar vinnustofur og menntabúðir frá starfsfólki Landverndar, þátttökuskólum og fleiri aðilum. Erindi héldu Andri Snær Magnason, rithöfundur, Sóley Dröfn Davíðsdóttir, sálfræðingur, Hildur Knútsdóttir, rithöfundur og formaður loftslagssjóðs og Eydís Blöndal, ljóðskáld. Auk þess flutti Svavar Knútur létt tónlistaratriði.  

Verkefnið styður einmitt afar vel við menntastefnu íslenskra stjórnvalda sem og uppfyllir alþjóðlega samninga sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja á borð við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagið. 

Páll Magnússon, ráðuneytisstjóri Mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Páll Magnússon, ráðuneytisstjóri Mennta- og menningarmálaráðuneytisins setti ráðstefnuna í fjarveru Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra. Í setningarræðunni talaði hann um mikilvægi verkefnisins Skólar á grænni grein og lýsti yfir ánægju sinni með verkefnið sem styður einmitt afar vel við menntastefnu íslenskra stjórnvalda sem og uppfyllir alþjóðlega samninga sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja á borð við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagið. 

Menntabúðir á ráðstefnu Skóla á grænni grein voru vel sóttar, hér má sjá ánamoltu frá leikskólanum Akraseli sem vakti áhuga viðstaddra.

Nýr vefur opnaður

Við setningu ráðstefnunnar var nýr vefur verkefnisins www.graenfaninn.is opnaður og er það ósk okkar að hann styðji vel við þátttakendur og veiti greinagóðar upplýsingar um grænfánaferlið. 

Starfsfólk skóla einn af mikilvægari hlekkjum í keðjunni

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Umhverfis- og auðlindaráðherra steig á stokk og fagnaði árangri verkefnisins undanfarin ár. Hann þakkaði ekki síst starfsfólki í skólum fyrir þeirra mikilvæga hlut í framgöngu verkefnisins hér á landi. Guðmundur Ingi veitti þremur leikskólum viðurkenningu sem hafa verið í verkefninu lengst allra leikskóla hér á landi. Þetta voru leikskólarnir Norðurberg í Hafnarfirði, Álfheimar á Selfossi og Andabær á Hvanneyri. Allir skólarnir hafa fengið grænfánann afhentan átta sinnum og eiga þeir tveir fyrst nefndu von á sínum 9. fána nú í vor. Leikskólarnir hafa stuðlað að valdeflingu nemenda í gegnum umhverfismál á einstakan hátt og verið brautryðjendur á sínu sviði.  Allir skólarnir hafa lagt mikla áherslu á takmörkun úrgangs og hefur hver og einn skapað sér sérstöðu. Til að mynda eru öll bleyjubörn á Norðurbergi með taubleyjur, Álfheimar molta allan lífrænan úrgang m.a. í ánamoltu og Andabær nýtir verkefni sem kallast leiðtoginn í mér til að valdefla nemendur í umhverfismálum. Á meðfylgjandi mynd má sjá fulltrúa leikskólanna taka við viðurkenningum.  

Umhverfis- og auðlindaráðherra heiðraði leikskólana Norðurberg, Álfheima og Andabæ á ráðstefnu Skóla á grænni grein þann 7. febrúar 2020, landvernd.is
Umhverfis- og auðlindaráðherra heiðraði leikskólana Norðurberg, Álfheima og Andabæ á ráðstefnu Skóla á grænni grein

Lesa nánar um leikskólana sem voru heiðraðir.

Skoða dagskránna í heild sinni.

 

Skoða fleiri myndir frá ráðstefnunni

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd