Loftslagshamfarir í Ástralíu, -hvað getum við gert?

Prjónaðu pokadýrapoka fyrir móðurlausa pokadýraunga, landvernd.is
Ástralía brennur af völdum loftslagshamfara! Hvernig getum við brugðist við? Hvað getur þú gert? Styrkjum og styðjum fólk og dýr.

Rannveig Magnúsdóttir, PhD í spendýravistfræði og sérfræðingur hjá Landvernd skrifar

Ástralía brennur. Þegar þessi orð eru skrifuð hefur svæði á stærð við Ísland (án Vestfjarða) brunnið og er allt útlit fyrir að eldarnir munu halda áfram á næstu mánuðum. Yfir milljarður dýra hefur dáið. Náttúrulegir eldar eru hluti af vistkerfum Ástralíu sem hafa þróast með eldum. Fræ sumra plöntutegunda spíra ekki án elds, hita og reyks og innlendu dýrin eru einnig lunkin við að bregðast við eldum og finna sér skjól neðanjarðar eða færa sig aðeins á milli staða. Nýbrunnin svæði grænka mjög fjótt eftir þessa náttúrulegu elda og þá eru gómsætir nýgræðlingar í boði.

Yfir milljarður dýra hefur dáið

En eldhafið sem nú ræður ríkjum í Ástralíu er langt frá því að vera náttúrulegt. Vistfræðingar og loftslagssérfræðingar hafa varað við ástandinu í langan tíma og langvarandi þurrkar og hitabylgja sem kom allt of snemma á árinu varð til þess að landið fór að brenna í september. 

Ein birtingarmynd loftslagshamfara

Eldarnir í Ástralíu sem nú geisa eru ein birtingarmynd loftslagshamfara í heiminum. Heitustu mánuðirnir eru fram undan og miklar líkur á útdauða viðkvæmra og staðbundinna dýra- og plöntutegunda í hamförunum. Vistkerfi hrynja, tegundir deyja út, fólk deyr og missir húsin sín, akrana sína og lífsviðurværi sitt og á meðan halda áströlsk stjórnvöld áfram að vera málpípa olíu- og kolaiðnaðarins. Sama sagan á við um mörg önnur lönd því miður. Loftslagið er það sem allar lífverur jarðarinnar eiga sameiginlegt og við sitjum öll saman í súpunni.   

Hvað getum við gert?

En hvað er til ráða? Hvað getur hin venjulega manneskja á Íslandi gert í þessum ósköpum? Hér eru nokkur góð ráð sem allir geta tileinkað sér. Flest af þessu er hægt að gera strax í dag eða hafa í huga fyrir næstu kosningar. 

1. Styrkja dýraathvörf, dýraspítala, dýragarða og náttúruverndarsamtök sem sérhæfa sig í verndun villtra dýra. Hugmyndir að samtökum sem sárlega vantar fjárhagsaðstoð: 

Wildlife Rescue (WIRES) 

Wildlife & Environmental Conservation Organization (WWF)  

Wildlife Victoria  

Port Macquarie Koala Hospital

Zoos Victoria 

2. Styrkja slökkvistöðvar sem margar hverjar eru reknar af sjálfboðaliðum eins og björgunarsveitirnar okkar.

3. Minnka kolefnissporið og hefja vistvænni lífsstíl. Hvetja aðra til að gera slíkt hið sama. Hvernig? Lestu hér. 

4. Kjósa leiðtoga og stjórnmálaflokka sem beita sér sannarlega fyrir loftslagið. Umhverfis- og loftslagsmál þurfa að vera þverpólitísk. 

5. Taka mark á vísindum, þ.e. ritrýndum vísindagreinum. Loftslagshamfarirnar í Ástralíu eru ekki bara martröð sem varð að veruleika heldur hefur vísindafólk lengi varað við þessum hamförum. 

6. Prjóna/hekla/sauma pokadýrapoka (wildlife pouches). (söfnun lokið í bili).

 Hvað er nú það? Jú þetta eru pokar fyrir ungviði pokadýra sem hafa misst mömmu sína. Oft lifir nefnilega unginn í pokanum þó mamman deyi og þessir ungar þurfa nýjan poka/mömmu sem veitir þeim skjól og vellíðan. Nú er ákall eftir slíkum pokum til að bjarga dýrum í Ástralíu. Þeir sem ekki eru handlagnir geta gefið prjónavinum ull eða boðist til að borga sendingarkostnaðinn. Það verður hægt að skila pokum frá kl. 10:00-20:00 á Kex Hostel (Gym og tónik salur) þann 3. febrúar næstkomandi. (Uppfært: Söfnun lokið). 

Hér má sjá pokana sem fórnfúsir prjónarar komu með á skrifstofu Landverndar! 

Pokadýrapokar sem fórnfúsir prjónarar prjónuðu fyrir pokadýr sem eru í bráðri hættu vegna gróðureldanna þar. Pokarnir fara til Ástralíu í vikunni og munu án efa koma að góðum notum. VIð þökkum öllum prjónurum sem lögðu hönd á plóg fyrir framlag þeirra!
Pokadýrapokar sem fórnfúsir prjónarar prjónuðu fyrir pokadýr sem eru í bráðri hættu vegna gróðureldanna þar. Pokarnir fara til Ástralíu í vikunni og munu án efa koma að góðum notum. VIð þökkum öllum prjónurum sem lögðu hönd á plóg fyrir framlag þeirra!

4. febrúar 2020. Grein uppfærð. Söfnun lokið.