Senn líður að komu jólasveinanna til byggða. Loftslagshópur Landverndar segir hér frá sniðugum skógjöfum sem loftslagsvænir jólasveinar hafa gefið í skóinn. Jólasveinarnir hafa lifað tímana tvenna. Í gegnum tíðina hafa þeir stundum liðið skort og geta verið mjög sparsamir. Þeir eiga því ráð undir rifi hverju og kunna vel að vera vistvænir í gjafavali!
Hvað gefa loftslagsvænir jólasveinar?
Hér eru 20 skógjafir sem loftslagsvænir jólar hafa gefið í gegnum tíðina:
- Piparkökuform
- Mandarínur eða maísbaunir fyrir popp
- Gamalt jólaskraut (t.d. af háaloftinu eða nytjamörkuðum) til að hengja á tréð
- Kíki úr eldhúsrúllu
- Pappírsörk og skriffæri sem vantar í pennaveskið
- Allt til þess að föndra fallegt jólakort
- Persónulegt bókamerki frá uppáhalds jólasveininum
- Mynd af eftirminnilegu atviki barnsins, jafnvel mynd með jólasveininum? eða mynd með hrósi um góða hegðun
- Uppáhaldsleikfang foreldris/forsjáraðila (Það er alveg magnað að jólasveinarnir viti svona hluti – en eins og áður sagði – þeir hafa lifað tímana tvenna).
- Brandara eða gátu (Sumir jólasveinar eru komnir með netið og finna stundum allskonar þar!)
- Fræ eða rúsínur til að gefa fuglunum
- Uppskrift að kakó ásamt súkkulaðiplötu
- Krukku af „krókódílavatni” (grænn matarlitur til að setja í baðið) eða innilhaldsefni í leikskólaleir eða trölladeig – ásamt uppskrift.
- Prentuð mynd af uppáhalds teiknimyndapersónu barnsins til að lita
- Notaðar bækur (frá nytjamörkuðum, öðrum jólasveinum eða í láni á bókasafni)
- Band til að gera fuglafit og leiðbeiningar með því
- Púsluspil (nokkur púsl af sama spilinu í einu)
- Bók af bókasafninu (jólasveinninn tekur bókina, en lætur barnið vita t.d. með bréfi að það þurfi að skila henni aftur!)
- Litríkan pappír og leiðbeiningar um hvernig megi leika með hann og föndra.
- Hundraðkall í sparibaukinn.
Hvar finna loftslagsvænir jólasveinar skógjafirnar sínar?
Jólasveinarnir eru víðförlir. Þeir ferðast víða og fara út um allt á aðventunni! Á ferðum sínum sanka þeir að sér gjöfum til að gefa í skóinn. Þeir hjálpast að og vísa til dæmis hver öðrum á staði þar sem hægt er að finna gjafir og skiptast á.
Hér eru staði þar sem jólasveinar hafa fundið eitthvað sniðugt í skóinn:
- Jólasveinaskiptimarkaður. Stundum taka jólasveinar frá borðpláss á vinnustöðum og skilja eftir skógjafir og skiptast á.
- Á facebook er hópurinn Umhverfisvænir jólasveinar. Jólasveinarnir sjálfir skiptast á skógjöfum og hjálpa öðrum jólasveinum.
- Vinahópar og nágrannar hjálpa oft jólasveinum og eru gjafmildir og eða skiptast á hlutum sem falla til á heimilinu og jólasveinar geta fengið til að gefa í skóinn.
Grýla og jólakötturinn
Hvernig er annars með þennan jólakött? Hann þroskaðist og dafnaði í samfélagi fátæktar og skorts. Hins vegar lifir nú fólk almennt við ofgnótt og allsnægtir. Kisi greyið hlýtur að vera orðinn hungurmorða.
Margrét Þorgeirsdóttir
Heyrst hefur að Grýla gamla sé orðin grænkeri og jólakötturinn svo umhverfisvænn að hann sé alfarið hættur að borða börn sem fá ekki nýja flík fyrir jólin! Þau fylgjast með úr fjarlægð og vilja hvetja jólasveina og foreldra til að gefa loftslagsvænar gjafir í ár, endurnýta það sem til er og kynna sér loftslagsþríhyrning Landverndar.
Gefðu náttúruvernd í jólagjöf
No products were found matching your selection.
Gefðu náttúruvernd í jólagjöf
Loftslagshópur Landverndar
Loftslagshópurinn er grasrótarhópur Landverndar í loftslagsmálum. Þar koma saman öflugir félagar í Landvernd til þess að hafa áhrif á loftslagsmálin með ýmsum hætti, t.d. með greinaskrifum. Með starfinu skapast öðruvísi umræða og nýjar aðferðir við það að vekja athygli á loftslagsvandanum. Almenningur fræðir almenning og almenningur hvetur almenning.