Hylur við upptök Geitdalsár á Austurlandi. Svæðið er í hættu vegna virkjunaráforma sem regluverk rammaáætlunar nær ekki utan um. Ljósmynd: Andrés Skúlason

Náttúruverndarsamtök Austurlands á vaktinni í hálfa öld

Share on facebook
Share on twitter
Share on email
Náttúruverndarsamtök Austurlands fagna 50 ára afmæli. Í hálfa öld hefur NAUST staðið vaktina og opnað augu fólks fyrir fegurð náttúrunnar og víðerna.

Náttúruverndarsamtök Austurlands fagna stórafmæli. Samtökin voru stofnuð árið 1970 og fagna hálfrar aldar afmæli um þessar mundir. 

Náttúruverndarsamtök Austurlands NAUST fögnuðu nýverið 50 ára afmælinu sínu með útgáfu á sérstöku afmælisriti í Glettingnum og með sýningunni Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, samstarfsverkefni Landverndar, Ólafs Sveinssonar og NAUST sem var sýnt í samstarfi við Sláturhúsið menningarsetur á Egilsstöðum núna í október. Veglegri dagskrá sem stóð til að halda í tilefni afmælisins með áhugaverðum erindum þurfti að fresta vegna Covid-ástandsins.

Hlutur NAUST á sýningunni sneri sérstaklega að svæðum sem nú þegar er búið að skemma á Austurlandi vegna Kárahnjúkavirkjunar og svæðum sem eru í hættu vegna hugsanlegra virkjanaframkvæmda. Fyrir marga náttúruverndarsinna gat það verið þungbært að horfa á þessar náttúruperlur sem hafa horfið ofan í lónið og að rifja upp tapaðar baráttur sem m.a. NAUST stóð í á þeim tíma.

Árnaðaróskir

Landvernd óskar NAUST innilega til hamingju með afmælið og það mikilvæga starf sem samtökin hafa innt af hendi síðustu fimm áratugina. 

Með þori, þekkingu, framsýni og væntumþykju um íslenska náttúru hafa samtökin m.a. átt þátt í vernd og friðlýsingu á mörgum náttúruperlum og reynt að opna augu almennings ekki bara fyrir fegurð náttúrunnar og víðernis heldur sérstaklega fyrir mikilvægi óskemmdra vistkerfa fyrir líf okkar allra. 

Þessi skilaboð til íbúa landsins skinu meðal annars mjög sterklega í gegn á sýningunni Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Sú sýning lætur engan ósnortinn með sínum ljósmyndum af fegurð íslenskrar náttúru og lífríkis og myndum af svæðum sem þegar er búið að skemma eða eru í hættu. 

Svipmyndir frá sýningu Landverndar og NAUST Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur
Svipmyndir frá Austurlandi, náttúruperlur, svæði í hættu og horfin.

Og nú stendur NAUST og fleira náttúruverndarfólk aftur í baráttu um náttúruperlur og viðerni á Austurlandi eins og um Hraunasvæðið og fleiri staði þar sem búið er að teikna upp virkjanakosti og jafnvel gefið út rannsóknarleyfi. Sjá grein eftir Andrés Skúlason, formann NAUST Um stórar „smávirkjanir“. Ekki er allt sem sýnist á fréttavef Landverndar. Það er því mjög mikilvægt að upplýsandi og vönduð umræða eigi sér stað um þessar virkjanahugmyndir sem eiga að vera á síðustu óbyggðum víðernum á hálendi Austurlands og það á tímum sem framleiðsla á rafmagni er nú þegar næg. Sýningin sem var í Sláturhúsinu er mikilvægur þáttur af upplýsinga- og upplifunarmiðlun og getur stuðlað að alvöruumræðu og skoðanamyndun almennings um áhrif virkjanaframkvæmda. 

Fossaröð í Geitdalsá í hættu vegna "smá" virkjana. Ljósmynd: Andrés Skúlason

Landvernd færir NAUST bestu þakkir fyrir samstarfið á sýningunni á Egilsstöðum sem og Sláturhúsinu og Ólafi Sveinssyni.

Share on facebook
Share on twitter
Share on email
Scroll to Top