Hápennulínur flytja rafmagn til stóriðju, jarðstrengir eru vænlegri kostur þegar tryggja á flutning raforku til almennings, landvernd.is

Of hratt farið í breytingar á skipulagslögum og markmið óskýr

Stjórn Landverndar telur að stofnun sérstakra stjórnsýslunefnda til þess að fjalla um lagningu raflína sem ná yfir sveitafélagamörk þarfnist betri undirbúnings. Gæta verður að því að náttúra Íslands líði ekki fyrir þessar breytingar og að þær auki ekki þann mikla herkostnað sem þegar hefur hlotist af stóriðjuvæðingu Íslands.

Umsögn Landverndar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010, Mál nr. 190/2020

Stjórn Landverndar sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar fárviðrisins í desember 2019 sem fylgt var eftir með  bréfi til forsætisráðherra 27. janúar sl. þar sem fjallaði um þær breytingar sem áform þessi ná til. Þá sendi stjórn Landverndar umsögn um áform um þessar breytingar sem kynntar voru í samráðgátt stjórnavalda (bréf Landverndar dagsett 23.3.2020). Í þessum erindum kemur fram að Landverndar varar einnig við því að gerðar verði í flýti breytingar á lögum og reglugerðum sem auðvelda leyfisveitingar til framkvæmda á kostnað lýðræðislegrar og vandaðrar ákvarðanatöku. Samtökin minna á að unnið er að endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem eitt af markmiðunum er að auka skilvirkni, þó án þess að draga úr lýðræðislegri aðkomu almennings og samtaka á ákvarðanatöku.  Ákvarðanataka í málum sem hafa víðtæk áhrif á marga þætti til langs tíma taki eðlilega nokkurn tíma svo tryggja megi að allar hliðar málsins séu vel upplýstar og lýðræðislegum sjónarmiðum sé haldið til haga. Framangreind sjónarmið koma einnig fram í bréf samtakanna frá 23. mars sl. þar sem einnig var bent á nauðsyn þess að óháðir aðilar greini þörf á innviðauppbyggingu með hagsmuni almennings í huga.

Lýðræðisþáttaka almennings í skipulagsferlinu

Fyrirhugaðar breytingar á skipulagslögum taka allar til þátttöku almennings í lýðræðislegum ferlum.  Landvernd minnir á skyldur íslenskra stjórnvalda samkvæmt Árósasáttmálanum og EES-samningnum til þess að tryggja aðkomu, upplýsingagjöf og réttarúrræði almennings vegna ákvarðanatöku í umhverfismálum.  Íslensk stjórnvöld  brutu á þessum rétti skv. bráðabirgðaúrskurði ESA frá 14. apríl 2020. Landvernd vill vekja athygli á því hvernig beytingarnar þrjár snerta á lýðæðisþátttöku almennings:

 

  1. Stafræn gagnagátt fyrir skipulagsáætlanir
    Tillagan er góð og gæti gert þátttöku almennings í ákvarðanatöku mun auðveldari en ella. Þó þarf að huga vel að uppsetningu, kynningu og umsjón gáttarinnar og tryggja að hagsmunaaðilar hafi ekki óeðlileg áhrif á birtingu gagna inni á henni. Einnig er mikilvægt sérstakt fjármagn fylgi frá Alþingi til að gáttinn bitni ekki á öðrum verkefnum Skipulagsstofnunar. Í þessu samhengi er vert að minnast á að Skipulagsstofnun skortir enn fjármagn til að geta afgreitt skipulagsmál innan tímamarka.

     

  2. Stytting umsagnartíma vegna uppbyggingar íbúðarhúsnæðis úr 6 í 4 vikur
    Byggingartími íbúðarhúsnæðis er a.m.k. 1 ár, fyrir utan skipulagsferli, og því myndi tveggja vikna stytting á umsagnartíma hafa smávægileg áhrif á byggingarferlið og í besta falli stytta það um ~3%. Fórnarkostnaðurinn væri hins vegar tífaldur en tíminn sem almenningur hefur til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri myndi skerðast um 33%. Landverndur telur þetta vinna gegn lýðræðisþátttöku almennings í skipulagsferlinu.

     

  3. Sérstakt raflínuskipulag þvert á sveitarfélagamörk
    Í undirbúningi lagafrumvarpsins hefur ekki verið fjallað um möguleg áhrif tillagðar breytingar á lýðræðisþátttöku almennings þrátt fyrir að megintilgangurinn sé að bregðast við deilumálum sem komið hafa upp vegna verklags Landsnets í samráði við landeigendur og almenning. Jafnframt byggir tillagan á undirbúningsvinnu á vegum Stjórnarráðsins þar sem ekki var boðið upp á þátttöku umhverfisverndarsamtaka. Landvernd telur því að undirbúningur þessa lagafrumvarps sé ekki til þess fallinn að skapa traust á aðgerðunum, einkum í ljósi þess að það snýst bókstaflega um nýja útfærslu á samráði við almenning og aðra hagaðila. Landvernd óskar því eftir frekara samráði áður en lagafrumvarp er lagt fyrir Alþingi.

Frekari herkostnaður vegna stóriðju

Hugmyndin um stjórnsýslunefndir sem taka fyrir framkvæmdir vegna raflínulagna sem ná yfir sveitafélagamörk spratt úr afleiðingum fárveðursins í desember 2019 þegar mörg heimili á Norðvesturlandi urðu rafmagnslaus dögum saman.  Í ljós kom að í einhverjum tilvikum höfðu afgreiðslutímar sveitafélaga á framkvæmdaleyfum fyrir nauðsynlega uppbyggingu dreifikerfis til almennra notanda verið óeðlilega langir.  Stjórnsýslunefndir sem gera framkvæmdaraðila kleift að sækja bara um eitt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdir sem ná yfir sveitafélagamörk eiga að koma í veg fyrir þessar óeðlilega löngu afgreiðslutíma.  Í frumvarpsdrögunum eiga stjórnsýslunefndirnar hins vegar að hafa umboð til þess að fjalla um alla uppbyggingu raforkukerfisins en ekki eingöngu það sem gagnast almennum notendum.

Bætum raforkuflutning til almennings – Látum stóriðjuna ekki stjórna

Það er, hér er um að ræða að auðvelda flutning raforku frá stórum virkjunum til stórnotenda.  Í kjölfar fárveðursins hefur Landsnet hafið undirbúning að endurbótum á brýnustu verkefnunum sem varða tryggari afhendingu til almennra notenda. Landvernd telur hættu á því, ef ekki verða settir varnaglar, að stjórnsýslunefndirnar verði fyrst og fremst nýttar til þess að koma rafmagni frá stórum virkjunum til stórnotenda, til dæmis með því að tengja risalínu frá Fljótsdal um Blönduvirkjun í Hvalfjörð.

 Landvernd benti á í umsögnum um Kerfisáætlun Landsnets 2020-2029 að miklar líkur eru á að töluverður hluti raforku sem seldur er á Íslandi dragist saman á næstu árum frekar en að hann aukist. Sömu viðhorfa koma fram í viðtali við Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirhugaður samdráttur Rio Tinto, lokun kísilvera og samdráttur hjá gagnaverum ræður þar mestu. Því er óráðlegt að ráðast í meiriháttar uppbyggingu í þágu stóriðjunnar á meðan þessir þættir eru óljósir en að sama skapi nauðsynlegt að fara í framkvæmdir sem tryggja almenningi og litlum fyrirtækjum stöðugan aðgang að raforku.  Þetta styður enn frekar við það að engin þörf er á því að stjórnsýslunefndin fjalli um raforkuflutninga í þágu stóriðjunnar; þeir flutningar þurfa ekki flýtimeðferð. Íslenskri náttúru hefur þegar verið fórnað í of miklu mæli fyrir stóriðju og frekari herkostnaður í hennar þágu er óásættanlegur. Gera verður skýran greinar mun á því hvað framkvæmdir eru vegna almennrar orkunotkunar og hvað er vegna sérstakra þarf orkufrekrar stóriðju. Fórnarkostnaður vegna stóriðju þarf að vera upp á borðinu en ekki falin sem umbætur fyrir almenna raforkunotkun.

Landvernd leggur því til að breytingar verði gerðar á 2. gr. frumvarpsins þannig að sýna verði fram á umtalsverða hagsmuni almennra notenda af framkvæmdinni:

 

Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, sem verður 4. mgr., sem orðast svo: Raflínunefnd, sbr. 9. gr. a., annast gerð raflínuskipulags fyrir framkvæmdir í flutningskerfi raforku byggja á staðfestri kerfisáætlun og staðfest er að skili miklum ávinningi fyrir almenna notendur. Hún fjallar um leyfisumsóknir vegna framkvæmda sem byggja á skipulaginu, veitir framkvæmdaleyfi vegna þeirra og hefur eftirlit með framkvæmd raflínuskipulagsins og þeim framkvæmdum sem nefndin veitir leyfi fyrir.

og að frumvarpsdrögunum verði breytt á öðrum stöðum til samræmis.

Umhverfismat

Mikilvægt er að stjórnvöld segi skýrt til um að  niðurstöður umhverfismats eigi að virða og að umhverfismat sé hluti af veitingu framkvæmdaleyfis.  Stjórn Landverndar leggur því til að 1. málsgrein í lið d í 8 gr. orðist svo:

Þegar frestur til athugasemda er liðinn skal raflínunefnd fjalla um tillöguna á nýjan leik og taka afstöðu til þess á grundvelli niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum hvort leyfi skuli veitt fyrir framkvæmdinni og ef leyfi verður veitt, hvaða valkostur skuli valinn og að hvaða skilyrðum uppfylltum. Í þeirri umfjöllun skal taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Ákveði nefndin að breyta tillögunni í grundvallaratriðum skal hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik skv. 4. mgr. 11. gr. c og 31. gr.

Þetta er í samræmi við EES tilskipun um umhverfismat.

Svæðisskipulag

Stjórn Landverndar telur ekki rétt að  raflínuskipulag sé rétthærra svæðaskipulagi og leggur til að síðustu málsgrein d. liðar 8. gr og  b.lið 9. greinar verði breytt eins og hér segir:

síðasta málsgrein d. liðar 8. gr.

Stefna raflínuskipulags er bindandi við gerð aðalskipulags, deiliskipulags og útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa.

  1. liður 9. gr.

Á eftir 2. málsl. 7. mgr. koma tveir nýjir málsliðir svohljóðandi: Raflínuskipulag er rétthærra en aðalskipulag og deiliskipulag fyrir þá framkvæmd sem það tekur til. Þegar raflínuskipulag hefur verið samþykkt skal hver sveitarstjórn sjá til þess að framkvæmdin sé tekin upp í aðalskipulag sveitarfélagsins við næstu endurskoðun þess, þó eigi síðar en fjórum árum frá samþykkt raflínuskipulagsins í samræmi við ákvæði þess.

og að frumvarpsdrögunum verði breytt á öðrum stöðum til samræmis.

Lokaorð

Stjórn Landverndar telur að svo veigamiklar breytingar á skipulagslögum sem hugmyndir um raflínunefnd er þarfnist mun betri, dýpri og lengri undirbúnings.  Landvernd hvetur því ráðuneytið til þess að fresta því að fara áfram með frumvarpið og boðar frekari athugasemdir við það.  

Að lokum hvetur Landvernd til þess að lögin kveði á um að óhlutdrægni og lýðræðisleg vinnubrögð séu ávallt höfð í heiðri í starfi stjórnsýslunefndar og að aðkoma almennings og kæruréttur séu tryggð á öllum stigum í samræmi við ákvæði Árósasáttmálans.

 

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Landverndar

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri

 

Óboðlegt sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Landvernd skilaði umsögn um rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis Kaldvíkur hf. í Seyðisfirði með allt að 10.000 tonna hámarkslífmassa af laxi. Umhverfisáhrif af opnu sjókvíaeldi eru mikil, ...
Lesa meira

Umsögn Landverndar um fimm virkjanakosti rammáætlunar

Það er áhyggjuefni að fjórir af fimm virkjanakostum hafi verið settir í nýtingarflokk, sérstaklega í ljósi þess að varúðarnálgun var ekki beitt sem skyldi.
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Óboðlegt sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Landvernd skilaði umsögn um rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis Kaldvíkur hf. í Seyðisfirði með allt að 10.000 tonna hámarkslífmassa af laxi. Umhverfisáhrif af opnu sjókvíaeldi eru mikil, ...
Lesa meira

Umsögn Landverndar um fimm virkjanakosti rammáætlunar

Það er áhyggjuefni að fjórir af fimm virkjanakostum hafi verið settir í nýtingarflokk, sérstaklega í ljósi þess að varúðarnálgun var ekki beitt sem skyldi.
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.