Þemu Skóla á grænni grein taka á mörgum hliðum menntunar til sjálfbærni og tengjast grunnþáttum menntunar og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Fyrir hvert grænfánatímabil velja skólar sér eitt eða fleiri þemu til að vinna að. Mikilvægt er að allir nemendur skólans taki þátt í vinnu við þau þemu sem skólar velja sér hverju sinni. Þemun tengjast öll innbyrðis og er oft viðeigandi að vinna með fleiri en eitt þema. Miðað er við að skóli vinni að 1-3 þemum á tímabili.
Skrefin sjö eru vinnuferlið, en þemun eru efnistökin.
Skólinn (umhverfisnefndin) velur 1-2 þemu
Skólinn (umhverfisnefndin) metur stöðu umhverfismála út frá þemanu sem er valið og setur sér markmið sem tengjast þemanu með einhverjum hætti. Mikilvægt er að allir í skólanum séu meðvitaðir um hvaða þema sé unnið að og að allir hafi unnið eitthvað verkefni í tengslum við þemað.
Þemun sem í boði eru, eru eftirfarandi:
- Neysla og úrgangur
- Vatn
- Orka
- Átthagar og landslag
- Lífbreytileiki
- Lýðheilsa
- Loftslagsbreytingar og samgöngur
- Hnattrænt jafnrétti
- Náttúruvernd
- Vistheimt
Landvernd veitir þeim skólum grænfána sem hafa stigið skrefin sjö að grænfána og unnið markvisst með a.m.k. eitt þema.
Umhverfismat
Hvert þema á sér gátlista sem hægt er að styðjast við þegar mat á stöðu umhverfismála er framkvæmt í skólanum.
Námsefni og þemu
Finna má verkefni sem tengjast þemunum í verkefnakistu Skóla á grænni grein. Einnig á hvert þema sína töflu á pinterest grænfánans.
Öll þemu verkefnisins byggjast á menntun til sjálfbærni og þ.a.l. grunnþáttum menntunar. Þó að krafa sé gerð um að allir nemendur í skólanum vinni að verkefni tengdu þemanu þarf ekki alltaf að finna upp hjólið. Hægt er að vinna áfram verkefni í skólanum sem hefð hefur skapast fyrir en bæta við tengingu við þemað sem unnið er að. Sem dæmi má nefna útfærslu á fiskaþema sem unnið er í mörgum skólum á yngsta stigi.
Fiskar
- Vatn – Hvaða áhrif hefur hreinleiki vatns á fiska?
- Orka – Olíumengun í hafi, getur hún haft áhrif á fiska?
- Neysla og úrgangur – Plastmengun í hafi – fiskar telja stundum að plast og örplast sé matur, flækjast og verða fyrir næringarskorti af þeim völdum.
- Átthagar og landslag – Hvaða fisk er að finna í nágrenninu? Er einhver tenging við sjómennsku og höfnina? Hafið sem landslag.
- Lýðheilsa – Hollusta og fæðuöflun tengd við hafið. Af hverju er fiskur hollur?
- Loftslagsbreytingar og samgöngur – Mengun hefur áhrif á hafið. Til dæmis hlýnar hafið og þá koma nýjar tegundir hingað.
- Lífbreytileiki – Hvaða tegundir eru í sjónum í kringum Ísland núna?
- Hnattrænt jafnrétti – Fiskveiðiþjóðir víða um heim? Hvernig veiðafæri nota þær? Hvaða fisk veiða þær?
- Vistheimt – Hvernig getum við endurheimt svæði sem hafa orðið fyrir mengun?