Menntun til sjálfbærni - sjálfbærnimenntun Hvað er það?
Stefnan sem unnið er eftir í Skólum á grænni grein kallast sjálfbærnimenntun eða menntun til sjálfbærni. Markmið stefnunnar er að skapa samábyrgt samfélag þar sem allar ákvarðanir og gjörðir taka mið af umhverfi, efnahag og félagslegri sanngirni. Mikilvægt er að þroska hvern einstakling sem virkan borgara, meðvitaðan um gildi sín, viðhorf og tilfinningar gagnvart ofantöldum hlutum bæði heima fyrir og hnattrænt. Þetta á við alla menningarhópa í nútíð og framtíð. Þetta kann að hljóma flókið en í rauninni má ná fram þessum markmiðum ef hver og einn breytir hugsunarhætti sínum bara örlítið.
Hvað er sjálfbærni?
Skoðum aðeins hugtakið sjálfbærni, hvað er það eiginlega? Það má útskýra sjálfbærni á marga mismunandi vegu en ein skýringin gæti verið sú að sjálfbærni sé það að allir Jarðarbúar, óháð því hvar og hvenær þeir eru fæddir, lifa eins góðu lífi og hægt er án þess að ganga of nærri auðlindum Jarðar, öðru fólki og lífverum.
Skoðum þetta aðeins nánar. Öll höfum við ákveðnar grunnþarfir sem við þurfum að uppfylla til að lifa mannsæmandi lífi. Þetta eru hlutir á borð við mat, húsaskjól, föt, heilsu, menntun og þannig mætti áfram telja. Þó þetta sé á allra vitorði er langt því frá að allir Jarðarbúar búi við þessi sjálfsögðu mannréttindi og er bilið á milli þeirra sem mest hafa og þeirra sem minna hafa afar breitt. Það má því segja að sjálfbærni snúist um það að jafna muninn á milli þeirra sem hafa það best og þeirra sem hafa það verst án þess að það bitni á auðlindum jarðar, öðru fólki eða lífverum. Þannig þyrftu þeir sem neyta mest og búa við bestu lífskjörin, í ljósi ofantalinna atriða, að sætta sig við aðeins minna en þeir neyta í dag og sýna meiri ábyrgð í neyslu sinni – en hafa samt áfram nóg og vel það. Þetta þýðir ekki að lífskjör þeirra muni versna, enda er ekkert sem segir að ofgnótt sé endilega það besta. Að sama skapi þarf að gera þeim sem búa við verstu lífskjörin það kleyft að uppfylla allar grunnþarfirnar á góðan og mannsæmandi hátt. Markmiðið er því að skapa jafnvægi á milli allra Jarðarbúa þannig að allir geti lifað góðu, mannsæmandi lífi innan þess ramma sem auðlindir Jarðar setja okkur.
Sjálfbærni snýst um samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar. Sjálfbærni felur í sér virðingu fyrir umhverfinu, ábyrgð, heilbrigði, lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti, ekki bara í nútíma heldur og gagnvart komandi kynslóðum. Þannig er óhugsandi að unnt sé að stuðla að mannréttindum án þess að jafnframt sé leitað eftir sjálfbærni og jafnvægi í þróun samfélagsins. Sjálfbærni er einnig háð því að hugað sé að jafnrétti þjóðfélagshópa.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011 bls. 15-16
Þátttaka í verkefninu Skólar á grænni grein styður því með augljósum hætti við aðalnámskrá og ætti að auðvelda innleiðingu hennar í allt skólastarf. Mikilvægt er að taka tillit til allra grunnþátta aðalnámskrár í vinnu við verkefnið enda allir grunnþættirnir órjúfanlegir þættir sjálfbærnimenntunar og þar með Skóla á grænni grein.