Hvalárósar við Ófeigsfjörð. Óspillt náttúra Hvalár og Drangajökulsvíðernis er í hættu, höfnum stóriðju og verndum náttúruna, landvernd.is

Stjórn Landverndar kallar á nýtt umhverfismat fyrir Hvalárvirkjun

Stjórn Landverndar telur að fyrirhugaðar breytingar á framkvæmdinni Hvalárvirkjun þarfnist nýs umhverfismats.

Umsögn Landverndar við skipulags- og matslýsingu vegna tillögu að aðalskipulagsbreytingu Árneshrepps.

SÆKJA UMSÖGN

Stjórn Landverndar þakkar fyrir beiðni um

umsögn við ofangreinda lýsingu sem barst í tölvupósti þann 29. janúar sl. 

Almennar athugasemdir

Höfn í óspilltri náttúru

Landvernd telur að breytingar á framkvæmdinni Hvalárvirkjun sem greint er frá í skipulags- og matslýsingunni, séu svo stórtækar að gera verði umhverfismat framkvæmda vegna þeirra. Hér er um að ræða alveg nýtt landtökusvæði/höfn í óspilltri náttúru, mikla stækkun starfsmannabúða, nýtt mannvirki („gestastofu“) viðbótarvegi og fjölda nýrra náma.  Þá verður fyrirhuguðum lónum breytt og stíflugarðar hækka (þó það sé ekki tekið fram í skýrslunni).

Náttúrufræðistofnun Íslands leggur til að svæðið verði friðlýst

Þá telur Landvernd stóran ágalla vera á skipulags- og matslýsingunni að þar sem breytingarnar eru lítt útfærðar, ekki skýrðar nema almennt á kortum og ekki er vísað í tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) um að friðlýsa skuli svæðið[1].  Í viðhengi er ný skýrsla frá Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum (IUCN) sem tekur undir það mat NÍ. 

Stjórn Landverndar telur að skýrsluhöfundar teygi sig allt of langt í réttlætingu á framkvæmdinni þegar hún er tengd við aðrar áætlanir og stefnur.  Í raun er í
mörgum tilfellum lítið sem ekkert samræmi þar á milli, og í sumum tilfellum
ganga áformin þvert á markaða stefnu. Nauðsynlegt er því að fara vel yfir þann
samanburð með aðilum sem bera ábyrgð viðkomandi áætlun og stefnu eins og vikið
er að síðar.

Sértækar
athugasemdir

Um matsskyldu

Á bls. 5 og 6 er fjallað um umhverfismat Hvalárvirkjunar sem var virkjuninni mjög óhagfellt þar sem enginn þeirra þátta sem metnir voru, voru taldir hafa jákvæð áhrif en þrír af þeim þáttum sem voru metnir taldir hafa verulega neikvæð áhrif (sjá samantekt Landverndar í töflu 1).  Ekki er gerð grein fyrir þessu í matslýsingunni.

Tafla1.
Álit skipulagsstofnunar á Hvalárvirkjun[2]

Því er haldið fram á bls. 6 að frekari rannsóknir á vatnalífi og fulgalífi hafi verið
framkvæmdar og að þær hafi verið í samræmi við frummatsskýrslu. Ekki er vísað í
neinar heimildir eða niðurstöðunum lýst.  Sama varðar steingervinga á framkvæmdasvæðinu sem sérfræðingar Vesturverks könnuðu enn frekar eftir úttekt Náttúrufræðistofnunar. Sýna verður niðurstöður þessara rannsókna og vísa í heimildir.

Í þessum kafla (Um matsskyldu) er fjallað um ný gögn sem hafa komið fram eftir að álit Skipulagsstofnunar var gefið út en ekki er getið um tillögu NÍ um að friðlýsa
skuli áhrifasvæði Hvalárvirkjunar.  Það er mjög alvarlegur ágalli á skipulags- og matslýsingunni. Þá er rík ástæða til að vísa einnig til meðfylgjandi skýrslu IUCN þar sem segir að virkjun myndi valda verulegum breytingum á vatnafari, hafa neikvæð áhrif á landslag, náttúrulegan breytileika og náttúrulega ferla.

Eignarhald

Neðst á bls. 6 er getið um eignarhald en ekki er minnst á landamerkjadeilur sem nú standa um vatnasvið það sem Hvalárvirkjun tekur til.

Þessar deilur gætu ráðið úrslitum um útfærslu, áhrif og afdrif virkjunarinnar og því eðlilegt að geta þeirra.

Náttúruminjar og víðerni

Í kaflanum Náttúruminjar og víðerni á bls. 7 er ekki minnst á tillögu NÍ um að friðlýsa skuli áhrifasvæði Hvalárvirkjunar þegar fjallað er um friðlýst svæði.  Fjalla verður um tillöguna um svæðið á náttúruminjaskrá. Þá er orðalag í þessum kafla  Ekki er vitað um jarðminjar sem njóta verndar samkvæmt 61. grein laga um
náttúruvernd ef fossar og vötn eru undanskilin” 
mjög sérstakt í ljósi afar neikvæðs álits Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Það álit er síðan styrkt af tillögum NÍ um friðlýsingu og nýlegri skýrslu IUCN sem fylgir í viðhengi. Þá hefur hefur alveg láðst að nefna heitar uppsprettur sem tilgreindar eru í 61 gr. um sérstaka vernd og einnig 60 gr. um steindir og steingervinga í náttúruverndarlögunum.

Tengslvið aðrar áætlanir

Á blaðsíðu 8-10 er fjallað um tengsl við aðrar áætlanir. 
Stjórn Landverndar telur að í þessum kafla teygi skipulags- og matslýsingin sig óskiljanlega langt til þess að réttlæta Hvalárvirkjun í ljósi annarra áætlana.  Hér verður stuttlega minnst á hvernig skipulags- og matslýsingin fer út af sporinu en þessi listi er ekki tæmandi:

 • Svæðisskipulag: Alls óvíst er hvort Hvalárvirkjun eykur raforkuöryggi á Vestfjörðum.  Til eru aðrar leiðir til þess að auka raforkuöryggi á Vestfjörðum sem ekki fela í sér þá hræðiðlegu eyðileggingu náttúruverðmæta sem felst í Hvalárvirkjun, sjá til dæmis skýrslu Metsco um raforkuöryggi á Vestfjörðum í viðhengi.
 • Sóknaráætlun Vestfjarða: Í skipulags- og matslýsingu segir: “Þar er m.a. lögð áhersla á að fjölga fyrirtækjum, störfum og vel menntuðu starfsfólki. Einnig að auka umhverfisvitund íbúa, sveitarfélaga og fyrirtækja og bæta aðgengi að sjálfbærum lausnum.” Stjórn Landverndar sér ekki hvernig þessi klausa tengist Hvalárvirkjun.  Störfum mun ekki fjölga þar sem virkjunin verður ómönnuð og raforkan er ekki beintengd við neina starfssemi og eyðilegging náttúrunnar eykur ekki skilning á umhverfi og sjálbærni, heldur lamar tengsl samfélaga við land sitt og náttúru og dregur úr getu þeirra til þess að sjá sig sjálf í tengslum við umhverfi sitt.
 • Þingsályktun um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi: Stjórn Landverndar fagnar því að sveitastjórn vitni í þessa þingsályktun sem á rætur sínar að rekja til ályktunar aðalfundar Landverndar árið 1998[3] og skýrslu sem Landvernd vann um hugsanlegar aðgerðir til að treysta byggð þar.
  Virkjun er ekki tilgreind sem leið til þess. Í því samhengi er rétt að benda á
  skýrslu sem Environice tók saman að beiðni samtakanna Ófeig um áhrif
  hugsanlegrar friðlýsingar Drangajökulsvíðerna á umhverfi og samfélag í
  Árneshreppi og þar í kring. Meginniðurstaða skýrslunnar er að friðlýsing
  Drangajökulsvíðerna sé líkleg til að hafa veruleg jákvæð áhrif á umhverfi og
  samfélag í Árneshreppi. Ávinningurinn fyrir samfélagið er miklu meiri með friðlýstu svæði en virkjun[4].
 • Náttúruverndaráætlun og náttúruminjaskrá: Hér verður að geta um áðurnefnda tillögu NÍ.
 • Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum
  2018-2030: Hvalárvirkjun tengist ekki þessari áætlun þar sem hún dregur ekki úr losun gróðurhúsalofttegunda eða bindur þær. 
  Þvert á móti mun bygging virkjunarinnar leiða til losunar gróðurhúsalofttegunda.  Ekki er þörf á nýjum virkjunum fyrir rafvæðingu bílaflotans enda mun hann eingöngu þurfa 3% af því rafmagni sem nú er framleitt.
 • Velferð til framtíðar. Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi – stefnumörkun til 2020: Hvalárvirkjun er í andstöðu við þessa áætlun og gott að það komi fram í tillögu að breyttu aðalskipulagi.

Skipulag

Í töflu 3.1 er farið yfir þær breytingar sem gerðar verða á skipulagi.  Stjórn Landverndar telur almennt að gæta þurfi að því að skýra vel á kortum og í texta hvernig útfæra á breytingarnar.  Í núverandi skipulags- og matslýsingu er ljóst að framkvæmdin Hvalárvirkjun er það mikið breytt að gera þarf nýtt umhverfismat framkvæmda vegna breytinganna.  Þetta er stuttlega rökstutt hér á eftir, í samræmi við töflu 3.1 á bls. 10-16 í skipulags- og matslýsingunni.

 1. Hvalárvirkjun: Skýra þarf ítarlega með kortum og texta breytingar sem felast í “Auk þess verður ítarlegri lýsing á virkjunartilhöguninni, miðlunarlónum, stíflum, vatnsvegum þ.e. skurðum og vatnsvegum, aðkomugöngum og strengjagöngum.”
 2. Uppistöðulón: Til þess að stækka Vatnalautalón hljóta stíflugarðar að hækka sem verður að koma fram í lýsingunni. Þessum breytingum þarf að lýsa vel með kortum og lýsingu á útfærslu. Lífaldur virkjunarinnar: gera þarf grein fyrir áætluðum lífaldri Hvalárvirkjunar miðað við mögulega hörfun Drangajökuls vegna loftslagsbreytinga á komandi árum og breytingar á vatnasviði samfara því.
 3. Stíflur og jarðgöng
 4. Iðnaðarsvæði – stöðvarhús: Hér er óskiljanlegt að framkvæmdaraðili skuli ekki hafa gert sér grein fyrir því við gerð frummatskýrslu hversu marga menn þyrfti til þess að byggja virkjunina.  Þessi breyting að stækka starfsmannabúðirnar meira en fjórfalt og bæta við nýjum búðum uppi á hálendinu kallar á nýtt umhverfismat.  Taka þarf til sérstakrar skoðunar
  fráveitumál frá starfsmannabúðum og tenging búðanna við rafmagn eða rafstöð.  Gera þarf vel grein fyrir brotum á náttúruverndarlögum sem í þessu felast.
 5. Verslunar- og þjónustusvæði: Hér er um stóra framkvæmd að ræða sem
  þarf sérstakt umhverfismat framkvæmdar.  Neikvæð áhrif gestastofunnar í sjálfu sér á ferðamennsku gætu orðið mjög mikil þar sem hún eyðileggur víðernisupplifun (sem virkjunin, ef af henni verður, hefur þá
  þegar spillt.) Ef reisa á gestastofu fyrir svæðið væri skynsamlegt að reisa
  hana nær því svæði þar sem er föst búseta.
 6. Vegir um virkjunarsvæði: Hér verður að koma skýrt fram um hvaða vegi er að ræða, hvar þeir liggja og lengd þeirra.  Þetta er ein þeirra breytinga sem kallar á umhverfismat.
 7. Hafnarsvæði: Á þessari framkvæmd þarf að fara fram umhverfismat. Auk þess sem gera má ráð fyrir því að nýr vegur verður lagður frá hafnarsvæðinu inn á virkjanasvæðið þó ekki sé minnst á það í skýrslunni.  Hér er um að ræða eyðileggingu á óraskaðri náttúru og mikið lýti á einstakri fegurð Hvaláróss en höfnin mun sjást þaðan.  Þá hlýtur framkvæmdaraðila að
  hafa verið ljóst frá upphafi að Ófeigsfjarðarvegur yrði ekki lagfærður til þess
  að flytja stærstu vinnuvélar og íhluti virkjunarinnar alla leið og að þörf yrði á höfn til þessa.  Hér er því enn einu sinni um að ræða uppskiptingu skipulags sem Landvernd hefur ítrekað kvartað yfir í málsmeðferð Hvalárvirkjunar og brýnt að fram fari umhverfismat á hafnarsvæðinu.
 8. Efnistaka og haugsvæði: Landvernd hefur ítrekað bent á að námurnar sem voru hluti af fyrra umhverfismati nægja engan veginn í þær miklu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á óbyggðum víðernum Ófeigsfjarðarheiðar. 
  Nú loks viðurkenna hreppurinn og framkvæmdaraðili það.  Hér verða þeir enn einu sinni uppvísir að uppskiptingu skipulags.  Engar upplýsingar koma fram í tillögum að aðalskipulagsbreytingum um staðsetningu eða
  áætlað efnismagn námanna. Þessar nýju námur þarf að umhverfismeta sem hluta af nýju umhverfismati Hvalárvirkjunar. 
 9. Hvalárlína: Vegna hámarkslengdar jarðstrengja á hverri leið getur línan um
  Ófeigsfjarðarheiði ekki legið í jörð ef gera á sæstreng til Ísafjarðar.  Annað útilokar þess vegna hitt.  Hér vísast einnig í fyrri umsagnir Landverndar um línulagnir eins og til dæmis umsögn um deiliskipulagsbreytingu
  Árneshrepps,  dags 28. desember 2018 og í umsagnir um kerfisáætlun Landsnets 2019 (sjá viðhengi).
 10. Göngu- og reiðleiðir:  Hér þarf að gera skýra grein fyrir þeirri
  gönguleið sem raskast vegna stækkunar Vatnanautalóns.  Þá er erfitt að sjá þörf fyrir útsýnispall við Drynjanda þar sem fossinn mun eingöngu hafa um 5% af meðalrennsli eftir virkjun.  Útsýnispallur við nánast þurran
  foss er eingöngu vitnisburður um græðgi og skammsýni manna.
 11. Ófeigsfjarðarvegur: Mikil andstaða landeigenda við vegagerð kom í ljós síðasta sumar.  Um náttúru- og menningaminjar er að ræða á leiðinni sem raskast við vegagerð.
 12. Hverfisvernd: Skýrt hefur komið fram að svæðið allt þarfnast verndar.  Sveitarfélagið er því hvatt til að hlusta á ráðleggingar innlendra og erlendra sérfræðinga og stöðva eyðilegginguna á ómetanlegum náttúruverðmætum innan marka sveitarfélagsins.
  Hverfisvernd utan um einstaka minjar við hlið ákvörðunar um risavaxna
  eyðileggingu náttúruverðmæta er ekki svæðinu til framdráttar.

Deiliskipulag

Í kaflanum er fjallað um ýmsa þætti sem eðlilegt hefði verið að taka inn í síðust deiliskipulagsbreytingar sem máttu vera framkvæmdaraðila ljósar á þeim tíma.  Hér er enn og aftur um að ræða uppskiptingu skipulags þannig að heildarumfang eyðileggingar verður ekki ljóst fyrr en um seinan. 

Áhrifaþættir

Hér eru óþarflega hlutdrægar lýsingar á áhrifaþáttum undir dálknum skýringar í töflu 4.2. Gæta þarf hlutleysis í vali og viðhorfi til áhrifaþátta. Dæmi um þetta eru
skýringar undir liðnum hagrænir og félagslegir þættir en ekki hefur verið sýnt fram á að Hvalárvirkjun styrki innviði eða bæti samgöngur í hreppnum fyrir utan mögulegar lagfæringar á Ófeigsfjarðarvegi.  Annað dæmi eru skýringar við liðinn náttúru og menningarminjar sem eru ófullnægjandi og of þöngt skilgreindar.

Stefnukostir

Meta þarf áhrif af friðlýsingu svæðisins eins og lagt er til í tillögum NÍ bæði sem kostum á bls. 19 og 20 í aðal og deiliskipulagi og þarf að bæta við. Hér mætti nýta
skýrsu Environice sem áður er vísað til. Ekki er skýrt hvað átt er við með „…
og/eða verndaráherslur…“
en virkjun er í andstöðu við vernd. 

Lokaorð

Það verður að teljast ólíklegt að framkvæmdaraðili hafi ekki gert sér grein fyrir því að allar þessar breytingar sem nú eru lagðar til og eru ekki hluti af gildandi umhverfismati Hvalárvirkjunar, þyrftu að koma til. 
Landvernd hefur til dæmis ítrekað bent á að á svæðinu er skortur á lausum jarðlögum og að gera þarf betur grein fyrir efnistökunámum vegna virkjanaframkvæmda sem Árneshreppur hefur ekki tekið til greina eins og til
dæmis í umsögn Landverndar um deiliskipulagsbreytingu dags. 28. des 2018. Umhverfisáhrif virkjunarinnar eru nú þegar að áliti Skipulagsstofnunar verulega neikvæð og með þeim viðbótum sem nú er lýst verða þau enn neikvæðari.  Nauðsynlegt er að fara í fullt umhverfismat á þeim framkvæmdum sem bæst hafa við frá því að álit Skipulagsstofnunar var gefið út. Þær framkvæmdir eru: Nýir vegir,
nýjar námur, ný höfn, nýjar starfsmannabúðir, stærri starfsmannabúðir og
gestastofa. 

Landvernd hvetur sveitastjórn Árneshrepp til þess að taka tillit til allra þeirra gagna og rannsókna sem hefur verið aflað eftir að virkjunin var sett í nýtingarflokk Rammaáætlunar, sem eins og samtökin hafa bent á, byggir á mistökum. Einnig verður að taka mark á mjög neikvæðu álit Skiplagsstofnunar, tillögu NÍ um friðlýsingu svæðisins, skýrslu Environice um ávinning af þjóðgarði, skýrslu IUCN um verðmæti svæðisins óraskaðs á alþjóðlegan og íslenskan mælikvarða og niðurstöður um skerðingu víðerna vegna virkjunarinnar frá háskólanum í Leeds. Með því væri sveitastjórnin að tryggja íbúum svæðisins lifibrauð af því sem er sérstætt og einstakt við svæðið, að nýta sérstöðu svæðisins frekar en að eyðileggja hana.  

Stjórn Landverndar hefur enn trú á því að sveitastjórnin muni bera gæfu til þess að snúa af braut eyðileggingar og á braut uppbyggingar samfélags með framtíðarsjónarmið í huga.   

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Landverndar
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri

Viðhengt:

Skýrsla Metsco um raforkuöryggi á
Vestfjörðum

Skýrsla IUCN um Drangajökulssvæðið

Umsögn Landverndar um
deiliskipulagsbreytingu Árneshrepps dags. 28. des 2018


[1] https://www.ni.is/greinar/vf-drangajokull

[2] http://www.skipulag.is/media/attachments/Umhverfismat/1214/201603003.pdf

[3] https://landvernd.is/alyktun-um-tilraunaverkefni-um-verndun-menningarumhverfis-landslags/

[4] https://www.environice.is/wp-content/uploads/2019/01/Drangaj%C3%B6kulsv%C3%AD%C3%B0erni-sk%C3%BDrsla-fyrir-%C3%93FEIGU-jan-2019.pdf

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

Stuðningur við friðlýst svæði í Vatnsfirði

Mikill skaði myndi hljótast af virkjun á friðlýstu svæði í Vatnsfirði. Gott væri ef Orkubú Vestfjarða sem er að fullu í eigu ríkisins léti af ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.