Þverárdalur er gróðursæll dalur norðaustan við Hengil, milli Nesjavalla og Hrómundartinds og er svæðið afar vinsælt til útivistar.
Gufuaflsvirkjun í Þverárdal yrði mjög áberandi frá þeim gönguleiðum sem liggja sunnan og austan Hengils og mætast flestar á Ölkelduhálsi.
Borteigar, stöðvarhús og önnur mannvirki myndu algjörlega rústa upplifun hins stórbrotna landslags og síkviku og ósnortnu náttúru sem er að finna á þessum slóðum.
Affallsvatn frá virkjun þar rynni í Þverá og með Ölfusvatnsá til Ölfusvatnsvíkur í Þingvallavatni.
Líklegt má telja að hrun silungsstofns í Þorsteinsvík megi rekja til affallsvatns frá Nesjavallavirkjun.
Horfa verður til verndunar Þingvallavatns þegar hugað er að virkjunum á vatnasviði þess norðan og austan Hengils. Þá gætu einstakar laugar, böð og hverir í Reykjadal og Grændal eyðilagst og horfið af yfirborði jarðar. Orkuveita Reykjavíkur áformar að reisa 90 MW jarðvarmavirkjun í Þverárdal.