Hvað er grænþvottur? – 4 ráð við grænþvotti frá Landvernd

graenthvottur, grænþvottur, landvernd.is
Grænþvottur á sér stað þegar fyrirtæki, stjórnvöld eða stjórnmálaflokkar villa fyrir fólki með því að sýnast vera umhverfisvænni en þau raunverulega eru.

Hvað er grænþvottur?

Í kringum okkur eru allskyns upplýsingar um hitt og þetta sem okkur er talin trú um að sé umhverfisvænt. Nauðsynlegt er að beita gagnrýnni hugsun á þessar upplýsingar og velta sannleiksgildinu fyrir okkur.

Grænþvottur á sér stað þegar þeirri ímynd er haldið á lofti að eitthvað sé umhverfisvænna en það raunverulega er.

Dæmi um grænþvott

Óljósar staðhæfingar

Vara er markaðsett með grænum óljósum staðhæfingum sem erfitt er að sanna.

Meira tal en raunverulegar aðgerðir

Fyrirtæki eyðir meiri tíma í að fullyrða um að það sé grænt heldur en það eyðir í að innleiða viðskiptahætti sem lágmarka neikvæð umhverfisáhrif.

Óhagstæðum upplýsingum leynt

Upplýsingum um mengun er leynt fyrir almenningi til þess að afurð virðist umhverfisvænni.

Skárri en versta er ekki góð

Almenningur er sannfærður um að vara sé umhverfisvæn með því að bera hana saman við verri valkost af sömu gerð.

Mikið gert úr litlu

Aðili gerir mikið úr framlagi sínu til umhverfismála sem er þó lítilvægt,  borið saman við þann skaða sem aðili veldur og er haldið leynt.

Rangar staðhæfingar

Settar eru fram staðhæfingar um umhverfisvænleika sem eru einfaldlega rangar.

Hvernig forðast ég að falla fyrir grænþvotti fyrirtækja?

Ráð #1

Grænþvottur ráð númer eitt, rýndu í upplýsingar. Mynd af konu að lesa á umbúðir, landvernd.is

Rýndu vel í framsetninguna

Koma fram óljósar staðhæfingar? Getur vörutegundin almennt verið umhverfisvæn eða er til umhverfisvænni valkostur? Eru staðhæfingarnar á mannamáli eða eru þær torskildar?

Ráð #2

Áreiðanleg umhverfismerki, þekktu merkin svo að þú verðir ekki fyrir grænþvotti.

Þekktu merkin

Þekktu helstu áreiðanlegu umhverfisvottanirnar. Til eru fjölmargar umhverfisvottanir sem fyrirtæki geta sótt um að hafa á sínum vörum. Þá sér óháður aðili um úttekt á fyrirtækinu og því ber að standast kröfur vottunarinnar. Með því að þekkja hvað helstu umhverfisvottanirnar standa fyrir, auðveldum við okkur valið á vörum í búðunum. Nánar hér.

Ráð #3

Kynntu þér málið

Við höfum ekki alltaf tíma til þess að leggjast í rannsóknarvinnu fyrir hvern hlut sem við kaupum. Þegar við höfum tíma þá getur það þó verið vel þess virði, sérstaklega þegar um er að ræða stærri fjárfestingar eða hluti sem við kaupum reglulega. Farðu á vef  fyrirtækisins og skoðaðu hvaða heimildir það hefur fyrir staðhæfingum sínum. Kynntu þér einnig umhverfisstefnu fyrirtækisins, þótt að varan sjálf sé umhverfisvæn þarf ekki að vera að framleiðsluferlið hafi verið það. Ef að svör við spurningunum þínum er ekki að finna á vefsíðu fyrirtækisins, hringdu þá eða sendu fyrirspurn. 

Ráð #4

Hvað þarftu í raun og veru?

Áður en þú kaupir vöru/þjónustu, spurðu þig þessa þriggja spurninga:
Þarf ég raunverulega á þessu að halda? 

Er til umhverfisvænni vara/þjónusta sem þjónar sambærilegum tilgangi? 

Á ég eitthvað nú þegar, sem ég get notað í staðinn fyrir þetta?

Sýnum ábyrgð sem virkir samfélagsþegnar

Látum vita þegar við verðum vör við grænþvott. Hægt er að skila inn athugasemdum um slíkt athæfi rafrænt til Neytendastofu. 

Beita aðilar grænþvotti viljandi?

Aðilar eru ekki alltaf meðvitað að beita grænþvotti og geta slíkir viðskiptahættir komið fram vegna gáleysis eða þekkingaskorts starfsmanna. Öllum ber að varast að beita grænþvotti við markaðssetningu, því hann villlir um fyrir almenningi. Fjölmörg fyrirtæki hafa verið kærð fyrir grænþvott og auglýsingar þeirra bannaðar

Tvær leiðir til að fyrirbyggja grænþvott

Það er á ábyrgð framleiðanda að beita ekki grænþvotti. Mikilvægt er að aðili þekki vel sína afurð og skilji helstu eiginleika hennar, kosti og galla. Ert þú hugsanlega í þeirri stöðu að geta beitt grænþvotti? Hér eru tvö ráð fyrir þig.

Einskorðast grænþvottur við fyrirtæki?

Grænþvottur finnst ekki einungis hjá fyrirtækjum heldur einnig hjá stjórnvöldum, stjórnmálaflokkum og stofnununum.

Grænþvottur af slíku tagi felst í óljósum,  villandi eða röngum staðhæfingum og loforðum eða fullyrðingum sem gefa almenningi þá ímynd að umhverfismálin séu í betri horfum en raun ber vitni. 

Grænþvottur er ekki nýr af nálinni

Hugtakið grænþvottur kom fyrst fram í umræðunni í kringum 1990 en fyrirbærið er langt frá því að vera nýtt af nálinni.

Mikil vitundavakning í umhverfismálum hefur orðið til þess að aukin þrýstingur hefur skapast á fyrirtæki, stjórnvöld og stjórnmálaflokka. Almenningur vill í auknum mæli sjá umhverfisvænar áherslur. 

Sökum þessa sjáum við fleiri dæmi um grænþvott í dag en áður. Það tekur skemmri tíma að beita grænþvotti en að raunverulega breyta áherslum þannig að þær séu umhverfisvænni. 

Myndbönd um grænþvott

Stutt myndband sem útskýrir það helsta sem gott er að vita um grænþvott.

Fyrirlestur um grænþvott og helstu birtingarmyndir hans. Fyrirlesturinn er í boði Umhverfisstofnunar og árverkniátaksins Plastlaus september.

Dæmisaga um grænþvott fyrirtækis sem framleiðir vatn í plastflöskum.

Umhverfisvænasta aðferðin

Það er mikilvægt fyrir okkur öll að þekkja vel helstu einkenni grænþvottar og forðast kaup á óumhverfisvænum vörum. Það skiptir ekki síður máli að við endurhugsum innkaupin okkar. Það  sem við notum, kaupum og borðum ógnar heilbrigði lífvera á plánetunni okkar.

Eitt það umhverfisvænasta sem við getum gert sem neytendur er að kaupa minna og nota hlutina lengur.

 

Viltu kynna þér grænþvott frekar? Lestu greinina The seventh sin sem fjallar um grænþvott.  

Grænþvottur, falsfréttir og neysla eru meðal viðfangsefna í fræðsluverkefni Landvernd Ungt umhverfisfréttafólk

 

Tengt efni

falsfrettir, landvernd.is

Falsfréttir – 10 ráð frá Landvernd

Hvað eru falsfréttir og hvernig er hægt að varast þær? Mikilvægt er að tileinka sér eftirfarandi ráð í baráttunni við falsfréttir.

Nánar →
Endurhugsum framtíðina með Landvernd er stuttþáttaröð sem sýnir leiðir til að takast á við þann vanda sem við höfum skapað með lífsstíl okkar og neyslu, landvernd.is

Viltu minnka neyslu? Hvað getum við gert?

Hvernig getum við minnkað neyslu? Hvað getum við gert? Landvernd sýnir hér á skemmtilegan hátt auðveldar leiðir til að takast á við þann vanda sem við höfum skapað með lífsstíl okkar og neyslu.

Nánar →

Kynntu þér Ungt umhverfisfréttafólk hjá Landvernd!

Viltu gerast umhverfisfréttamaður? Taktu þátt í YRE verkefni Landverndar, landvernd.is

Umhverfisfréttafólk

Hafðu áhrif! Ungt umhverfisfréttafólk skapar ungmennum vettvang til þess að kynna sér umhverfismál og koma upplýsingum á framfæri á skapandi hátt. Allt um Umhverfisfréttafólk finnur …

Nánar →

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd