Flogið yfir Ísland. Draga þarf úr losun kolefnis á Íslandi.

Umsögn: Grænni utanríkisstefnu þarf að fylgja græn skref utanríkisþjónustunnar

Share on facebook
Share on twitter
Share on email
Mikilvægt er að Ísland myndi og fylgi grænni utanríkisstefnu en hún má ekki taka fé, athygli og mannafla frá því að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda heima fyrir. Best væri ef utanríkisráðuneytið og utanríkisþjónustan fylgdu grænum skrefum í ríkisrekstri áður en græn utanríkisstefna er mótuð til þess að auka skilning á umhverfismálum og vilja innan utanríkisþjónustunnar til þess að fylgja henni.

Umsögn Landverndar um  tillögu til þingsályktunar um græna utanríkisstefnu, mál no. 33, 151. löggjafarþing 
 

Stjórn Landverndar sendi umsögn við þessa tillögu þegar hún var lögð fram á 150. löggjafaþingi (mál 568). Landvernd vill ítreka þakkir til flutningsmanna fyrir ofangreinda tillögu og stuðning sinn við hana.  Brýning Landverndar um að raunverulegra aðgerða sé þörf til þess að draga hratt úr losun frá Íslandi á enn frekara erindi í dag en í febrúar. Gæta verður að því að fyrirliggjandi þingsályktunartillaga dragi ekki athygli, mannafla og fé frá því brýna verkefni.  

Greining Capacent1 á alvarlegum brotalömum í stjórnsýslu loftslagsmála skýrir að einhverju leyti hvers vegna Íslendingum gengur mjög hægt að draga úr losun. Landvernd telur nauðsynlegt að taka á þessum vanda í heild og nauðsynlegt að gera það samfara eða áður en græn utanríkisstefna fer í mótun   

Landvernd þakkar góðan vilja flutningsmanna til þess að koma til móts við ábendingar samtakanna um nauðsyn þess að Utanríkisráðuneytið sýni lágmarksviðleitni í umhverfismálum með viðbót við síðustu setningunni í lið 3.  Samtökin telja þó að viðbótin þarfnist lagfæringar við og sé í núverandi formi ófullnægjandi. Á meðan Utanríkisráðuneytið sem var skráð í verkefnið Græn skref í ríkisrekstri árið 2016, hefur ekki tekið eitt einasta „grænt skref“, eru litlar líkur á því að íslenska ríkið láti til sín taka á alþjóðavettvangi í umhverfismálum á sannfærandi hátt.  Landvernd ítrekar því það sem fram kom í fyrri umsögn samtakanna, að til þess að sú sýn um framsækna græna utanríkisstefnu sem birtist í tillögunni geti orðið að veruleika, verður utanríkisráðuneytið sjálft og sendiráð þess að hafa og sýna í verki að þau búi yfir grunnskilning á umhverfismálum.  Hann er sýndur í verk með því að takast á hendur lágmarksskuldbindingar stjórnarráðsins um Græn skref í ríkisrekstri.  Landvernd ítrekar því fyrri umsögn sína um að bæta við í liði 2 og 3 ákvæðum um grænt bókhald, græn skref í ríkisrekstri og ákveðin markmið um árlegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.   

Ef grænni utanríkisstefnu fylgir ekki sannfærandi framför í umhverfismálum (eins og samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda) heima fyrir er hætt við því að hún verði grænþvottur á bágri stöðu Íslands. 

Í  tillögunni ætti einnig að koma fram að Ísland leiti mjög náins samstarfs við ríki sem hafa sömu afstöðu eins og Norðurlöndin með það að markmiði að tryggja gæði, trúverðuleika og gagnsæi aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  

Virðingarfyllst, 

f.h. stjórnar Landverndar 

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri 

 

1 Capacent (2020) Stjórnsýsla loftslagsmála. Unnið fyrir Loftslagsráð 

Share on facebook
Share on twitter
Share on email
Scroll to Top