Lögum um náttúruvernd skal fylgja, Landvernd krefst þess að náttúran fái að njóta vafans og sinna lögvörðu réttinda, landvernd.is

Umsögn um tillögu að náttúruverndaráætlun

Landvernd telur tillögu að náttúruverndaráætlun um margt góða en saknar þess þó að fleiri háhitasvæði skuli ekki hafa ratað í hana. Svæði á borð við Brennisteinsfjöll, Reykjadal og Grændal á Hengilssvæði, Kerlingarfjöll, Torfajökulssvæðið o.fl.

Nefndasvið Alþingis
B.t. umhverfisnefndar
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík 16. janúar 2009

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun

Landvernd fagnar framkominni tillögu til þingsályktunar þar sem lagt er til að unnið verði að friðlýsingu þrettán svæða á næstu fimm árum. Ástæða er til þess að fagna sérstaklega þeirri tillögu að Langisjór og nágrenni hljóti friðun og verði látinn tilheyra Vatnajökulsþjóðgarði.

Eitt af aðalmarkmiðum tillögunnar er að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni og uppfylla skuldbindingar alþjóðasamningsins um líffræðilega fjölbreytni og Bernarsamningsins um verndun villtra dýra og plantna. Þessar skuldbindingar Íslendinga á alþjóðavettvangi eru mjög mikilvægar enda er líffræðilegur fjölbreytileiki veraldarinnar almennt í hættu vegna mikillar fólksfjölgunar, ágangs mannsins og eyðileggingar náttúrulegra vistkerfa um heim allan. Íslendingar verða að standa vörð um það lífríki sem er hér á landi og er það fagnaðarefni að í þingsályktunartillögu þessari er bæði kveðið á um vernd einstakra tegunda, vistgerða og heillra vistkerfa.

Fagnaðarefni er ennfremur að til stendur að vernda m.a. plöntusvæði við Gerpi og Kaldalón. Einnig er ánægjulegt að sjá stækkun friðlandsins í Þjórsárverum á áætlun, en undirstrika verður mikilvægi náttúru Þjórsárvera sem hefur alþjóðlegt gildi. Í þessu sambandi er vert að nefna að verðmætt rústalandslag nálægt Kringilsárrana fór undir Hálslón og því fer verðmætum rústasvæðum ásamt votlendi á Íslandi fækkandi.

Fram kemur í tillögunni að áfram verði unnið að friðlýsingu svæða sem eru á fyrri náttúruverndaráætlun. Vonast samtökin til þess að friðlýsing sem flestra svæða nái fram að ganga en ef frá er talin stofnun Vatnajökulþjóðgarðs þá hafa friðlýsingar skv. náttúruverndaráætlun ekki náð fram að ganga sem neinu nemur á undanförnum árum. Þannig er einungis búið að friða eitt svæði, þ.e. Guðlaugstungur, af þeim fjórtán sem sett voru á náttúruverndaráætlun 2005-2008. Í þessu ljósi telur Landvernd mikilvægt að hraðað verði samningum við landeigendur og aðra hagsmunaaðila svo unnt verði að friðlýsa þau svæði sem nú verða fyrir mestum ágangi vegna ferðamennsku eða stafar hætta af áformum um virkjanir. Má í þessu samhengi sérstaklega benda annarsvegar á Reykjanes og Eldvörp og hinsvegar Geysi í Haukadal auk Rauðasands.

Í náttúruverndaráætlun er þegar að finna sjö svæði sem vilji er til þess að vernda vegna fuglalífs. Auk þeirra búa a.m.k. fjögur svæði á náttúruminjaskránni yfir fjölskrúðugu fuglalífi, þ.e. Skeiðarársandur, Herðubreiðarlindir, Hvannalindir og Krepputunga þótt verndartillögurnar séu til komnar af öðrum ástæðum. Öll þessi svæði hafa þegar verið skráð sem IBA svæði, (Important Bird Area) og skv. Birdlife International (2001) Important Bird Areas and potential Ramsar Sites in Europe, uppfylla þessi svæði skilyrði Ramsarsáttmálans. Á Íslandi eru aðeins þrjú Ramsarsvæði, Mývatn, Þjórsárver og Grunnifjörður. Til samanburðar má nefna að á hinum Norðurlöndunum eru tugir Ramsarsvæða. Landvernd telur æskilegt að samhliða þeirri vinnu sem lýtur að friðun svæðanna verði þau gerð að Ramsarsvæðum. Ramsarskráning er auðsóttari en friðlýsing og því æskilegur undanfari friðlýsingar. Rétt er að taka fram að friðlýsing er ekki skilyrði fyrir Ramsarskráningu en engu að síður er friðun æskilegt framhald hennar.

Einnig er rétt að benda á mikilvægi þess að komið sé upp neti friðlýstra svæða þannig að svæði tengist og að einstök svæði einangrist ekki líffræðilega, þ.e.a.s verði að einangruðum eyjum sem ekki eru í tengslum við önnur náttúruleg svæði. Lífverur verða að geta flust á milli friðlýstra svæða þannig að eðlileg þróun vistkerfa og náttúrulegra heilda viðhaldist. Í þessu sambandi þarf Náttúrufræðistofnun að fá fjárveitingar til að leggja vísindalegt mat á gildi friðlýstra svæða fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni landsins og kerfisbundna uppbyggingu nets verndarsvæða.

Fagnað er tillögum um friðlýsingu plöntutegunda sem koma nú fram enda 30 ár síðan planta var síðast friðlýst á Íslandi. Mun nákvæmari gögn liggja nú fyrir um útbreiðslu plantna en fyrir 30 árum og því orðið tímabært að friðlýsa fleiri tegundir. Einnig er lýst ánægju með það að gert skuli ráð fyrir friðlýsingu dýrategunda.

Landvernd saknar þess að fleiri háhitasvæði skuli ekki hafa ratað inn í áætlunina. Hinni einstöku jarðfræði Íslands, sem skýrist af samspili heits reits og miðhafshryggs, væri rétt að gera skil með víðtækri friðun eldvirknisvæða og háhitasvæða. Svæði á borð við Brennisteinsfjöll, Reykjadal og Grændal á Hengilssvæði, Kerlingarfjöll, Torfajökulssvæðið, Vonarskarð og Gjástykki ættu t.d. heima inni í áætlun sem þessari. Áuk Jökulsár á Fjöllum væri æskilegt að friða fleiri vatnsföll frá jökli til sjávar. Í tillögunni kemur fram að væntanlega muni koma fram nýjar tillögur um friðlýsingar þegar niðurstöður rammaáætlunar liggja fyrir og má vonast til þess að þá verði úr þessu bætt. Hafa ber í huga að rammaáætlun er fremur áætlun til nýtingar en verndunar enda er hún unnin á forræði iðnaðarráðuneytisins en ekki umhverfisráðuneytisins.

Landvernd vill að lokum minna á að fjármagn til náttúrufarsrannsókna hefur í gegnum tíðina verið af skornum skammti. Úr þessu mætti bæta með því að láta þá fjárveitingu sem undanfarin ár hefur verið ráðstafað til rammaáætlunar færast yfir á náttúruverndaráætlun á fjárlögum næsta árs, en skv. áætlun á vinnu við rammaáætlun að ljúka á þessu ári. Aukið fjármagn til náttúrufarsrannsókna, og þá ekki síst á þeim svæðum sem sett hafa verið á náttúruverndaráætlun, væri til þess fallið að efla framvindu friðana skv. áætluninni.

Með vinsemd og virðingu,

Bergur Sigurðsson,
framkvæmdastjóri Landverndar

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

Stuðningur við friðlýst svæði í Vatnsfirði

Mikill skaði myndi hljótast af virkjun á friðlýstu svæði í Vatnsfirði. Gott væri ef Orkubú Vestfjarða sem er að fullu í eigu ríkisins léti af ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.