Urriðafoss í Þjórsá
Urriðafoss í Þjórsá

Urriðafoss sem er vatnsmesti foss landsins er staðsettur á láglendi Þjórsár. Þjórsá er lengsta á landsins og á upptök sín í Hofsjökli. Í Þjórsá eru sjö vatnsaflsvirkjanir og að auki þrjár fyrirhugaðar ásamt stækkunum á þeim sem fyrir eru. Ef Urriðafossvirkjun yrði að veruleika myndi Urriðafoss nánast hverfa. Í Þjórsá er einn stærsti villti laxastofn í Evrópu og gæti virkjunin valdið hruni í stofninum og skaðað allt lífríki árinnar. Á svæðinu er fjölbreytt náttúrufar, bæði gróður og fuglalíf og með virkjuninni misstu fjöldi fugla hreiðurstæði sín. Tún, beitarlönd og annað gróið land þ.á.m. votlendi færu undir lón og haugsvæði. Fornleifar sem taldar eru hafa hátt minjagildi töpuðust undir vatn og mannvirki. Framkvæmdirnar hefðu mikil áhrif á landslag og sjónræn áhrif yrðu mikil, stíflur, lón, tengivirki og línur. Á þessu svæði er upptakasvæði stórra jarðskjálfta.

Urriðafossvirkjun – Þjórsá

Stór villtur laxastofn lifir í Þjórsá. Veiðimálastofnun og óháðir sérfræðingar á sviði veiðimála hafa áhyggjur af áhrifum virkjunar á vistfræði árinnar, einkum á sjógenga fiska eins og lax og silung, en Landsvirkjun áformar að reisa 140 MW virkjun við Urriðafoss. Fossinn yrði vatnslítill eftir virkjun og myndi nánast hverfa.

Lífríki

Í Þjórsá lifir stór villtur laxastofn og í ána ganga nú árlega um 7.000 laxar. Auk þess finnast þar allar tegundir ferskvatnsfiska sem lifa á Íslandi.

Ef af virkjun Urriðafoss verður er talið að fiskistofnar í ánni hrynji, þrátt fyrir boðaðar mótvægisaðgerðir.

Landsvirkjun áformar mótvægisaðgerðir, með því að reisa laxastiga við stífluna til að koma göngufiski áfram upp ána. Í umhverfismati í rammaáætlun er ekki gerð tilraun til að meta hvort hald sé í meintum mótvægisaðgerðum en erlendis frá eru dæmi um að 85-90% fiskistofna hafi dáið vegna stíflna og virkjana, strax eða seinna meir (e. delayed mortality).

Dr. Margaret J. Filardo, prófessor í líffræði og forstöðumaður Fiskvegamiðstöðvarinnar í Oregonfylki í Bandaríkjunum, sagði í fréttum RÚV 4. nóvember 2011 að Urriðafossvirkjun geti haft afar neikvæð áhrif á lífríki fiska í ánni. Í erindi sem Dr. Filardo hélt á Íslandi sama mánuð kom fram að mikil röskun á vatnafari getur orðið af stíflum og virkjunum í ám, sem skaði þar með lífríkið með afdrifaríkum afleiðingum og taldi hún líklegt að þetta myndi gerast við Urriðafoss. 

Efnahagur

Veiði í Þjórsá skapar íbúum við Þjórsá talsverðar tekjur. Samkvæmt sérfræðingum Veiðimálastofnunar veiddust árið 2010 8.990 laxar í Þjórsá og 9.217 ef stangveiði í Þjórsá og ám sem falla í hana er tekin með. Laxveiði í Þjórsá árið 2010 var 17% af veiði allra náttúrulegra laxa á Íslandi. Þar að auki veiddust 336 urriðar (sjóbirtingur) í net og 719 í stangveiði.

Með virkjunum í neðri hluta Þjórsár, þá sérstaklega Urriðafossvirkjun, er útlit fyrir að fiskistofnar hrynji, þá sérstaklega sjógengir fiskar eins og lax og silungur.

Þjórsá
Landsvirkjun áformar að auki að reisa þrjár virkjanir í Þjórsá. Upphaflega átti að selja allt rafmagn úr virkjununum til Alcan á Íslandi vegna fyrirhugaðrar stækkunar á álbræðslunni í Straumsvík. Í kosningum um stækkun álbræðslunnar 2007 höfnuðu Hafnfirðingar tillögunni og því hefur Landsvirkjun verið í viðræðum við hugsanlega kaupendur að orkunni síðan þá, þar á meðal að selja orkuna til fyrirhugaðrar álbræðslu í Helguvík sem enn hefur ekki fengist leyfi fyrir. Einnig eru áform um virkjun 8 km fyrir neðan friðland Þjórsárvera með Norðlingaölduveitu, en sú virkjunarhugmynd fellur nú í verndarflokk samkvæmt rammaáætlun. Við Tungnaá, eru áform um að reisa Búðarhálsvirkjun og fellur hún í nýtingarflokk.

Virkjunarhugmyndirnar þrjár í neðri hluta Þjórsár, þ.e. Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun, falla nú allar í biðflokk samkvæmt rammaáætlun. Í drögum að rammaáætlun féllu þessar virkjunarhugmyndir í nýtingarflokk en vorið 2012 þegar þingsályktunartillagan um rammaáætlun var samþykkt var ákveðið að færa hugmyndirnar í biðflokk og skoða þær betur áður en ákvörðun um vernd eða nýtingu yrði tekin.

Áform Landsvirkjunar um virkjanirnar í Þjórsá hafa valdið miklum deilum og ágreiningi hjá íbúum svæðisins. Fleiri virkjanir munu stefna náttúrufegurð í voða og rjúfa þá friðsæld sem ríkir við ána.

Þrír fossar í ánni koma til með að skemmast, þ.e. Búði, Hestfoss og Urriðafoss. Árniður og kliður fossanna mun þagna og náttúruupplifun sveitanna því breytast til muna. Út frá hljóðum Þjórsár, t.d. frá Búða og Minna-Núpsflúða, hafa menn frá fornu fari spáð fyrir um veðrið – og gera enn.

Rask á einstöku lífríki árinnar verður gífurlega mikið ef virkjunaráform ganga eftir. Aukin hætta verður á svifryksmengun og rofhættu þar sem árfarvegurinn kemur til með að verða þurrari sökum minna rennslis í ánni.

Ennfremur er um að ræða framkvæmdir á einu öflugasta landbúnaðarsvæði Íslands og í nánasta umhverfi manna. Þrengt verður að landbúnaðarlandi með lónum, vegum og öðrum framkvæmdum.

Virkjunarhugmyndir

Með virkjun Urriðafoss yrði reist stífla skammt ofan við gömlu brúna og ofan hennar lón sem verður um 8 km2 að stærð. Lónið verður grunnt og dæla þyrfti burt seti úr því á um það bil 5 ára fresti. Tún og beitilönd nokkurra jarða verða fyrir áhrifum af virkjuninni. Áætlað afl Urriðafossvirkjunar er um 140 MW.

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is