Valdefling og nemendalýðræði í umhverfismálum

Ungt fólk hefur áhrif, grænfáninn eflir lýðræði í skólum, landvernd.is
Skólar á grænni grein eru leiðandi í menntun til sjálfbærni á Íslandi. Nemendur vinna að raunverulegum verkefnum og valdefling er lykilatriði.

Við höfum vald til að breyta okkur sjálfum og hafa áhrif á aðra. Við getum fundið lausnir og gripið til aðgerða. Valdefling nemenda hefur verið eitt af meginmarkmiðum Skóla á grænni grein á undanförnum árum en verkefnið hefur verið leiðandi í innleiðingu menntunar til sjálfbærni síðan 2001.

Ungt fólk tekur málin í sínar hendur

Valdefling nemenda hefur aukist í samfélaginu og má sjá að að börn og unglingar láta til sín taka í umræðu um umhverfismál. Þetta hefur ekki síst átt sér stað í kjölfar þeirrar bylgju sem Greta Thunberg hratt af stað þegar hún hóf verkföll sín vegna aðgerðaleysis stjórnvalda í loftslagsmálum. 

Grænfánaskólar brautryðjendur í sjálfbærnimenntun á Íslandi

Í grænfánaskólum er lögð áhersla á virkni, þátttöku nemenda og lýðræði. Nemendur mynda mikilvægan hluta umhverfisnefndar á öllum skólastigum, þeir sjá um að meta stöðu umhverfismála og setja skólanum markmið til að bæta það sem þeim þykir brýnast. Þeir fylgja markmiðunum eftir með hjálp samnemenda og starfsmanna skólans og helst með þátttöku nærsamfélagsins. Auk þess fá allir nemendur skólans fræðslu um þau þemu eða markmið sem tekin eru fyrir hverju sinni. Nemendur eru þannig virkjaðir til áhrifa innan síns skóla og nærsamfélags og er lýðræðislegum aðferðum beitt til að sem flestir fái að koma að borðinu. 

Raunverulegar áskoranir og lausnaleit

Verkefnin sem nemendur kljást við eru raunverulegar áskoranir sem tengjast umhverfi og samfélagi skólans og fá þeir tækifæri til að finna lausnir sem samræmast áherslum í sjálfbærni. Nemendur þurfa að setja sig í spor annarra og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þannig geta komið upp ólík sjónarmið og öðlast nemendur reynslu í málamiðlun. 

Rödd nemenda skiptir máli

Með þessum hætti er nemendum kennt að þeir geti beitt áhrifum sínum til að stuðla að breytingum í sínu nærumhverfi. Að fást við álitamál, komast að sameiginlegri niðurstöðu auk aðgerðamiðaðrar nálgunar í kennslu er mikilvægur hluti sjálfbærnimenntunnar og fellur einnig undir kennslufræði getu til aðgerða. 

Valdefling veitir nemendum kjark og færni til að hafa áhrif

Mikilvægt er að sjálfbærni, lýðræði, mannréttindi, jafnrétti og virðing fyrir umhverfinu séu alltaf höfð að leiðarljósi í vinnu við verkefnið. Vegna þeirra áskorana sem komandi kynslóðir standa frammi fyrir er mikilvægt að tileinka sér snemma slík vinnubrögð og öðlast kjark, færni, getu og þor til að hafa áhrif.