Yfirvegun eða óðagot í orkumálum

Nýlega kom út skýrsla um orkunýtni sem sýnir að ríkuleg tækifæri eru til bættrar orkunýtni á Íslandi, eða um allt 8% af núverandi raforkunotkun þjóðarinnar.
Meint ójafnvægi í raforkumálum þýðir að einhver hefur líklega selt stórnotendum umfram það sem hægt er að framleiða með góðu móti.

Aðgangur að orku á viðráðanlegu verði er óumdeilanlega mikilvæg forsenda fyrir góðum lífskjörum og velsæld. Deiluefnið er hversu mikla orku þarf til að viðhalda lífskjörum og velsæld og, ef meiri raforku er þörf, hvernig megi afla hennar án þess að valda skaða á íslenskri náttúru og víðernum.

Raforkuframleiðsla á Íslandi 2022 var um 20 teravattstundir (TWh), en notkunin um 19 TWh. Frá árinu 2006 hefur framleiðsla rafmagns liðlega tvöfaldast á sama tíma og íbúum landsins hefur fjölgað um þriðjung.

Á Íslandi er framleitt um tvöfalt meira rafmagn á íbúa en í Noregi, sem er í öðru sæti á lista yfir þau Evrópuríki sem framleiða mest. Á þessu sviði eru Íslendingar fremstir meðal jafningja.

Orkuöflun síðasta áratuginn

Mikið hefur verið virkjað til raforkuframleiðslu undanfarin ár. Þrjár stórar virkjanir hafi verið teknar í notkun á síðasta áratug sem aukið hafa aflgetu um tæplega 300 MW. Fjöldi smávirkjana (undir 10 MW) hefur verið byggður með uppsett afl um það bil 35 MW. Á áratug hefur því orkuvinnslugeta aukist um 2,2 TWh.

Til samanburðar nota heimilin í landinu um 1 TWh, og er þá rafhitun meðtalin. Framleiðslan hefur því á áratug aukist um sem nemur meira en tvöfaldri notkun heimilanna. Aukinni orkuþörf heimila og smærri fyrirtækja hefur verið mætt; ekki bara að fullu heldur margfalt. Allt tal um stöðnun og að ekki hafi verið virkjað hér á landi undanfarin ár er villandi málflutningur.

Um 70% raforkuframleiðslu á Íslandi eru framleidd með vatnsafli. Vegna lélegs vatnsárs blasir við að gera þarf ráðstafanir til að draga úr notkun hjá stórnotendum, í þetta sinn á suðvesturhorninu. Það er ekki nýtt. Ef til varanlegs orkuskorts hjá sjálfum methöfunum í orkuframleiðslu kemur, eru fyrir því aðrar ástæður en að framboð hafi ekki vaxið. Meint ójafnvægi felst líklega helst í því að einhver hefur selt til stórnotenda umfram það sem hægt er að framleiða með góðu móti.

Orkuspá og framboð

Nýleg spá Orkustofnunar um notkun rafmagns bendir til þess að eftirspurn eftir raforku verði á bilinu 21,4 og 22,6 TWh á árinu 2030, sem er aukning um á bilinu 13 til 19% miðað við árið 2022. Það er nokkuð umfram núverandi framleiðslugetu. Segir í spánni að til þess að mæta þessari aukningu þurfi framleiðslugetan að vaxa árlega á bilinu 18 til 36 MW.

Í farvatninu eru hugmyndir um frekari rafmagnsframleiðslu. Í orkunýtingarflokki rammaáætlunar er vísað til virkjana með samtals 1.300 MW aflgetu, þar með talin eru tvö vindorkuver Landsvirkjunar, við Blöndu og Búrfell, með meira 200 MW aflgetu. Nokkrar framkvæmdir sem eru undir viðmiðunarstærð rammaáætlunar (undir 10 MW) eru í undirbúningi. Utan rammaáætlunar er ráðgerð stækkun vatnsaflsvirkjana Landsvirkjunar við Hrauneyjar, Sigöldu og Vatnsfell og jarðvarmavirkjunar við Þeistareyki, sem þýða mun aukna aflgetu um 200 til 300 MW gangi þau eftir. Þá sækir Landsvirkjun fast að fá að reisa hina umdeildu Hvammsvirkjun með 95 MW aflgetu.

Nýlega kom út skýrsla um orkunýtni sem sýnir að ríkuleg tækifæri eru til bættrar orkunýtni á Íslandi, eða um allt 8% af núverandi raforkunotkun þjóðarinnar, eða um 1,6 TWh. Þetta er bæði gerlegt og hagkvæmt. Talið er að hægt sé að ná 24% af þessum orkusparnaði á næstu fimm árum og 53% á næsta áratug. Til að virkja þennan möguleika verður að innleiða rétta hvata. Ráðherra orkumála ætti að leggja áherslu á það. Áform um endurbætur á byggðalínu sem eru komin vel á veg munu hafa umtalsverð jákvæð áhrif á nýtingu á þeim orkuverum sem fyrir eru.

Jafnvægi

Af framangreindum tölum verður ekki annað séð en að viðunandi jafnvægi sé fram undan í raforkumálum. Horfurnar í frekari orkuöflun og bættri nýtni eru ágætar. Aldrei verður hægt að útiloka tímabundnar þrengingar vegna lélegra vatnsára. Yfirdrifnar yfirlýsingar sem fram hafa komið um að allt sé hér á vonarvöl í raforkumálum eru einmitt það, yfirdrifnar.

Miðað við flestar aðrar þjóðir mætti segja að við séum að drukkna í raforku. Að láta sér ekkert detta í hug annað en að virkja endalaust til að greiða úr meintum orkuskorti kann ekki góðri lukku að stýra. Meðal annars er nauðsynlegt að skoða þjóðhagslega hagkvæmni þess að nýta þá orku sem losnar þegar samningar við núverandi stórkaupendur renna út til nýrri og aðkallandi verkefna í orkuskiptum.

Hugsað til framtíðar

Það er vandasamt að stækka raforkukerfi í landi eins og Íslandi með stórbrotna heillandi og afar verðmæta náttúru; vandasamara en í löndum þar sem landslag og náttúrufar er annað. Forsenda fyrir farsælum lausnum er að gera sér grein fyrir að raforkukerfið mun aldrei geta annað allri eftirspurn, enda eftirspurn eftir ódýrri hreinni orku gríðarleg.

Hófsemi, nýtni, forgangsröðun og vönduð vinnubrögð eru nauðsynleg. Það er löngu kominn tími til að leggja áherslu á aðgerðir sem stuðla að góðum lífskjörum til langrar framtíðar án þess að gengið sé frekar á náttúru landsins við orkuöflun. Lýst er eftir meiri yfirvegun og minna óðagoti í umfjöllum um þessi mikilvægu mál, og meiri virðingu fyrir þeim verðmætum sem felast í óspilltri íslenskri náttúru.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. febrúar 2024. 

Goðafoss í Skjálfandafljóti.

Orkuskiptahermir

Skoðaðu orkuskiptahermi Landverndar. Orkuskiptin geta farið fram án þess að eyðileggja einstaka íslenska náttúru.
Opna...

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd