Álver á Íslandi fara illa með orkuna sem þau kaupa

Því miður hafa íslensk stjórnvöld og raforkufyrirtæki í almannaeigu ekkert gert til þess að setja skilyrði um góða nýtingu hjá þeim erlendu risafyrirtækjum sem nota langstærstan hluta íslensku orkunnar.
Hægt er að mæta allri raforkuþörf vegna orkuskipta árið 2030 bara með því að skylda þau álver sem hér starfa til að nýta raforkuna jafnvel og norski álframleiðandinn Norsk Hydro gerir.

Án þess að virkja einn vatnsdropa eða eina vindhviðu getum við uppfyllt eftirspurnina fyrir orkuskiptum á allra næstu árum með breytingum á starfsháttum þeirrar starfsemi sem notar 64 prósent af raforkuframleiðslu þjóðarinnar – álvera. 

Álver á Íslandi nýta orkuna verr en önnur álver 

Eins og áður hefur verið rakið er fjárhagslegur ábati samfélagsins af sölu raforku til stóriðjunnar hlutfallslega lítill. Því miður hafa íslensk stjórnvöld og raforkufyrirtæki í almannaeigu ekkert gert til þess að setja skilyrði um góða nýtingu hjá þeim erlendu risafyrirtækjum sem nota langstærstan hluta íslensku orkunnar. Ef markmið okkar Íslendinga í loftslagsmálum eiga að nást þarf að gera skýlausa kröfu um orkusparnað og orkunýtingu á öllum sviðum – og þá sérstaklega til þeirra sem mest nota af orkunni.  

Álframleiðsla sem nýtir 64 prósent af allri raforku sem framleidd er á Íslandi, er gríðarlega orkufrek. Einmitt þess vegna þarf að leita allra leiða til þess að nýta orkuna sem best og sýna takmörkuðum auðlindum eins og raforku framleiddri úr jarðhita og vatnsafli á Íslandi þá lágmarksvirðingu að sóa henni ekki. Það virðast álverin á Íslandi ekki gera.    

Árið 2021 voru framleidd á Íslandi 836 þúsund tonn af áli og í framleiðsluna voru notaðar 12.454 GWst3. Það voru því notaðar 14,9 kWst til að framleiða hvert kíló af áli.  

Heimsmeðaltal raforkunotkunar við álframleiðslu er 14,1 kWst fyrir hvert kíló af áli. Nágrannar okkar í Noregi, Norsk Hydro, nota minna en það eða  13,8 kWst fyrir hvert kíló af áli. Norsk Hydro hefur svo kynnt nýja tækni í álverinu í Karmyö sem fer með orkunýtinguna í 12,3 kWst/kg af áli. Íslensk álver standa sig þannig illa í orkunýtingu í öllum samanburði: við meðalnotkunina á heimsvísu, við notkun Norsk Hydro að meðaltali og nýjustu tækni. 

Krefjum álverin um rafmagn í orkuskiptin 

Með þeirri einu aðgerð að skylda álverin til þess að nýta orkuna jafn vel og Norsk Hydro gerir að meðaltali mætti spara 919 GWst á ári, án þess að draga úr framleiðslu. Þetta samsvarar um 4,7 prósent af allri raforkuframleiðslu á Íslandi árið 2021. Og þó álverin gerðu ekki nema jafn vel og heimsmeðaltalið mætti spara 669 GWh á ári, eða 3,4 prósent af raforkframleiðslu ársins 2021.   

Samkvæmt orkuskiptaspá Orkustofnunar gæti raforkunotkun aukist vegna orkuskiptanna um 497 GWst/ári árið 2030. Þær 497 GWst sem Orkustofnun segir að þörf sé fyrir orkuskiptin miðað við árið 2030 má því sækja með því að krefja álverin á Íslandi um að gera hið minnsta jafn vel í orkunotkun og kollegar þeirra annars staðar í heiminum.  

Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt orkuskiptaspá er að mati Landverndar óásættanlega lítill en fleiri aðgerðir verða að koma til en bein orkuskipti. 

Burt með gömlu hugsanavilluna 

Íslendingar hafa vanist þeirri hugsun að þegar talið er að raforku vanti til samfélagsins, sé sjálfsagt að ganga á íslenska náttúru og spilla með nýjum virkjunarmannvirkjum. Þetta byggir meðal annars á þeirri trú að maðurinn sé herra náttúrunnar og beri að nýta hana í eigin þágu án þess að skeyta um afleiðingarnar. En þetta er hugsun fortíðar. Framtíðarvelferð mannlegs samfélags byggir á velferð náttúrunnar og því að við lærum að fara betur með þau stórkostlegu auðæfi sem við sækjum til hennar. Orkuskipti og náttúruvernd verða að haldast í hendur.  Óspillt íslensk náttúra er verðmætasti lífeyrissjóður þjóðarinnar og komandi kynslóða. 

Fjallað var um málið í Fréttablaðinu 22. mars 2023

Goðafoss í Skjálfandafljóti.

Orkuskiptahermir

Skoðaðu orkuskiptahermi Landverndar. Orkuskiptin geta farið fram án þess að eyðileggja einstaka íslenska náttúru.
Opna...

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd