Blanda er jökulá sem samanstendur að mestu af jökulbráð úr Hofsjökli. Hún flæðir um jökulkembt en gróið heiðalandslag frá upptökum sínum í norðanverðum Hofsjökli og norðvestur í Húnafjörð. Blönduveita myndi nýta fall milli Blöndulóns og Gilsárlóns sem nú rennur um veituskurði. Landsvirkjun vinnur að hönnun þriggja virkjana í Blönduveitu sem nýta munu óvirkjað 69 m fall í veitulegu úr Blöndulóni niður í inntakslón virkjunarinnar. Við núverandi rask á svæðinu myndu bætast þrjú stöðvarhús; Kolkuvirkjun, Friðmundarvirkjun og Þramarvirkjun með tilheyrandi stíflum og veituskurðum sem færu ekki eftir farvegum eins og núverandi skurðir gera. Skipulagsstofnun metur áhrif á landslag og náttúrufar neikvæð vegna efnistöku, sjónrænna áhrifa á víðerni og skerðingu á votlendi.