Fokk jú, íslensk náttúra!

Framkvæmdastjóri Landverndar spyr hvernig það megi vera að Norðurál geti orðið umhverfisfyrirtæki ársins hjá Samtökum atvinnulífsins.

Umhverfisverndarfólk á Íslandi rak upp stór augu þegar umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru veitt til Norðuráls. Hvernig má vera að fyrirtæki sem notar fjórðung af allri þeirri raforku sem framleidd er í landinu, veldur 10 prósentum af allri losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi (utan landnotkunar), skilur eftir mengunarslóð í öðrum löndum og sleppir eiturefnum út í umhverfið á hverjum einasta degi til mikils ama fyrir nágranna þess í Hvalfirði allt árið um kring, geti orðið umhverfisfyrirtæki ársins?

Hvað skýrir þessa niðurstöðu sem virðist vera á skjön við öll heilbrigð umhverfis- og loftslagsviðmið sem ættu að liggja til grundvallar slíkri viðurkenningu?

Er það samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda?

Í niðurstöðu dómnefndar kemur fram að Norðurál áætlar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent fyrir 2030, miðað við árið 2015. Það er svo sem ágætt, lægra en markmið ESB um 55 prósenta samdrátt fyrir 2030 og ESB miðar við losun 2005 en ekki 2015, en er þó eitthvað. Umsvif fyrirtækisins jukust umtalsvert eftir 2005 og því má ganga út frá því að losunin hafi verið mun minni þá en í dag, sem skilar „óhagstæðum“ samanburði. En samdrátturinn á bara að vera frá þeim hluta starfseminnar sem er utan ETS kerfisins (viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda), sem er aðeins frá 0,4 prósentum af losun fyrirtækisins.

Heildarlosun 2021 var 481.595 tonn, en losunin sem á að draga úr er 1720,5 tonn árið 2021. Lesum þetta aftur. Umhverfisfyrirtæki ársins, Norðurál, hefur sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni um 0,004*40%=0,16 prósent til 2030, miðað við árið 2015.

Heildarlosun fyrirtækisins jókst milli áranna 2019 og 2021 um 3 prósent. Reyndar jókst losunin örlítið meira ef 2020 er borið saman við 2021, en til að gæta sanngirni vegna Covid-áhrifa er rétt að miða við 2019. Markmið Norðuráls er að ná fullu kolefnishlutleysi. Það virðist fjarstæðukennt markmið ef miðað er við árangur fram til þessa.

Er það kolefnisspor álsins frá Norðuráli?

Dómnefnd er tíðrætt um lágt kolefnisspor álsins frá Norðuráli. Í útreikningum á kolefnisspori er gert ráð fyrir því að raforkan sem framleidd er á Íslandi sé nýtt í framleiðslu á álinu. Auðvitað er það þannig að Norðurál er tengt raforkukerfinu hér á landi en það segir ekki alla söguna. Ísland á aðild að kerfi þar sem uppruni raforku er vottaður. Þannig að fyrirtæki sem vilja sýna viðskiptavinum sínum fram á að þau noti „græna orku“ þurfa að afla sér upprunaábyrgða. Norðurál virðist ekki hafa metnað til að kaupa upprunaábyrgðir. Það má því reikna með að á orkureikningi Norðuráls komi fram að þau séu að nýta jarðefnaeldsneyti og kjarnorku í framleiðslunni. Á móti fær eitthvað fyrirtæki í útlöndum, sem í raun og veru notar jarðefnaeldsneyti og kjarnorku í sinni framleiðslu, að nota kolefnislága orku frá Íslandi í sínu kolefnisbókhaldi. Norðurál er því að telja sér lágt kolefnisspor fram hjá þeim kerfum sem alþjóðasamfélagið hefur komið sér upp. Þetta er óheiðarlegt.

Er það verndun íslenskrar náttúru?

Norðurál notar 25 prósent þeirrar raforku sem framleidd er í landinu. Sú raforka er framleidd með eyðileggingu á íslenskri náttúru með því að raska háhitasvæðum, merkum jarðminjum, fossum, gróðri og fuglalífi, spilla útsýni og ásýnd og skera landið með raflínum. Hvorki orkufyrirtækin né kaupendur raforkunnar hafa þurft að greiða fyrir þau spjöll sem þau hafa valdið á íslenskri náttúru né þurft að bæta fyrir það með aðgerðum. Ekki er fjallað um verndun íslenskrar náttúru í sambandi við umhverfisverðlaun atvinnulífsins.

Er það samdráttur í losun eiturefna?

Á milli áranna 2019 og 2021 er lítill munur á losun eiturefna út í andrúmsloftið frá Norðuráli. Flúorlosun var hin sama 2019 og 2021, losun á brennisteinsdíoxíði dróst saman um 2 prósent og losun á öðrum eiturefnum var svipuð milli ára. Þá eru tvö álver í heiminum með sérstaka undanþágu til þess að urða kerbrot frá álvinnslu í svokölluðum flæðigryfjum, það eru fyrirtækin Norðurál og álverið í Straumsvík. Norðurál hefur nýlega sótt um leyfi til Skipulagsstofnunar til að stækka sínar flæðigryfjur.

Þá fylgja allri álvinnslu í heiminum hræðilegar aðferðir við vinnslu súráls, oft í fátækum ríkjum þar sem gríðarstór leðjulón með menguðum úrgangi liggja opin fyrir manna og dýra fótum. Leðjulónin hafa brostið með gríðarlegu heilsutjóni íbúa á nærliggjandi svæðum auk mjög dýrkeyptra afleiðinga fyrir vistkerfi og lífríki með jarðvegsmengun og þar sem eiturleðjan hefur runnið út í vötn og ár með óbætanlegum skaða.

Ekki er því um sérlega framför eða bestu aðferðafræði geirans að ræða, þegar kemur að losun eiturefna frá Norðuráli.

Hvað gengur SA til?

Hvernig geta Samtök atvinnulífsins komist að því að fyrirtæki sem eykur losun sína milli ára, hefur áform um að draga úr losun til 2030 um aðeins 0,16 prósent, á þátt í að spilla íslenskri náttúru, dregur ekki úr losun eiturefna frá starfsemi sinni og heldur áfram að vera þátttakandi í að skapa eiturefnaúrgang í stórum stíl erlendis, sé verðugt þess að fá umhverfisverðlaun? Verðlaunin til Norðuráls eru fokk jú putti til íslenskrar náttúru, bein móðgun við þau fyrirtæki sem eru af heilum hug og ábyrgð að draga raunverulega úr losun gróðurhúsalofttegunda frá sinni starfsemi og staðfesta þátttöku SA í að fegra ímynd Norðuráls. Þessar aðferðir sem SA og Norðurál beita hafa nafn og þær aðferðir eru með stærstu ógnum í umhverfismálum.

Þetta, börnin góð, er grænþvottur í hæsta gæðaflokki!

Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. október 2022.

Goðafoss í Skjálfandafljóti.

Orkuskiptahermir

Skoðaðu orkuskiptahermi Landverndar. Orkuskiptin geta farið fram án þess að eyðileggja einstaka íslenska náttúru.
Opna...

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd