Stórbrotin náttúra Íslands kærir sig kollótta um hvort það eru áramót eða ekki. Við sem búum í henni og með henni notum áramótin engu að síður sem tækifæri til að horfa um öxl og rifja upp helstu vendipunkta ársins. Í umhverfismálum voru þeir nokkuð margir og hér verður farið yfir nokkra þeirra.
Gullið tækifæri sem glataðist
Án efa er stærsti vendipunktur ársins 2022 í umhverfismálum sá sem ekki varð, nefnilega endurreisn samfélagsins eftir COVID með náttúru- og loftslagsvernd að leiðarljósi. Fé var ausið úr ríkissjóði, en því var því miður ekki varið til stuðla að sjálfbærri þróun á Íslandi. Í upphafi faraldursins kölluðu Landvernd og fleiri samtök eftir því að viðspyrnuaðgerðir og styrkir ættu að miðast að því að koma samfélaginu á braut sjálfbærrar þróunar. Í faraldrinum fólst nefnilega tækifæri til að gera erfiðar en nauðsynlegar breytingar; að byggja samfélagið upp aftur þannig að það yrði í takti við það sem náttúran getur gefið okkur.
Þarna var einmitt tækifærið til þess að hverfa frá ósjálfbærri nýtingu auðlinda, til dæmis með stýringu á fjölda ferðamanna, takmörkun á innflutningi bensín- og díselbíla, kolefnisgjaldi, heftri lausagöngu búfjár, takmörkun eyðileggjandi botnvörpuveiða, hófstilltri neyslu og öflugri friðun landsvæða.
Þarna kom það – tækifærið til að leggja grunn að öflugum aðgerðum í vistkerfis- og loftslagsvernd. Tækifærið glataðist! Flestir hag- og umhverfisvísar sýna að við höfum nú aftur horfið til nokkurn vegin sama ósjálfbæra samfélagsins og var árið 2019.
Loftslagsmálin
Íslendingar eru því sem næst á sama stað nú og fyrir heimsfaraldur þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda. Rafbílum hefur fjölgað mikið á árinu og vonandi sjáum við skýr merki um minni losun frá vegasamgöngum vegna þess á allra næstu árum En stjórnvöld hafa hins vegar ekkert gert til að takmarka innflutning ökutækja sem ganga fyrir olíu og bensíni.
Metnaðarfull markmið um losun hafa verið sett fram með hástemmdum yfirlýsingum – en lítið bólar á aðgerðum til að fylgja þeim eftir. Nýjustu fréttir herma að stjórnvöld ætli sér að nota bókhaldsbrellur til þess að sleppa við hluta af skuldbindingum sínum í loftslagsmálum. Stjórnvöld hafa ekki uppfært aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þrátt fyrir að ljóst sé að brýn þörf er á því.
Bráðabirgðatölur Umhverfisstofnunar um losun fyrir árið 2021 sýndu að losun jókst miðað við árið 2020 og allt stefnir í að losun verði jafnvel meiri 2022 en árið 2021. Ísland virðist því enn stefna í ranga átt, í stað boðaðs samdráttar eykst losun gróðurhúsalofttegunda.
Kísilver í Helguvík slegið af
Í desember bárust þær frábæru fréttir að kísilver United Silicon í Helguvík yrði ekki ræst aftur. Það eru einkar jákvæðar fréttir fyrir íbúa Reykjanesbæjar, fyrir loftslagsbókhald Íslands og fyrir íslenska náttúru.
Nauðsynlegt er að grandskoða ákvarðanatökur fyrri ára um mengandi iðnaði á Íslandi. Í Helguvík eru leifar kísilvers United Silicon, fyrirhugaðs kísilvers Thorsil og fyrirhugaðs álvers. Íslenskt samfélag hefur tapað gríðarlegum fjármunum á þessum draugum og nauðsynlegt er að fara yfir hvernig það gat gerst að svo risavaxin áform komust svo langt löngu áður en nauðsynlegar forsendur lágu fyrir.
Fagleg ákvarðanataka óskast
Rammaáætlun byggir á lögum þar sem margítrekað er að flokkun landsvæða skuli byggja á faglegum rökum. Það var því sérlega sorgleg niðurstaða þegar Alþingi afgreiddi þriðja áfanga rammaáætlunar. Þar var gengið gegn vel rökstuddum tillögum verkefnisstjórnar þegar Héraðsvötn og Kjalölduveita voru færð úr verndarflokki í biðflokk án nokkurra raka. Sömuleiðis var vindorkuver Landsvirkjunar fært úr biðflokki í nýtingarflokk án rökstuðnings.
Með því að hundsa fagleg rök hefur Alþingi gengisfellt gildi rammaáætlunar. Þetta slæma mál sýnir því miður að ákvarðanataka í umhverfismálum er oft og tíðum allt annað en fagleg.
Stjórnvöld virða alþjóðasamninga að vettugi
Í byrjun árs varð ljóst að íslensk stjórnvöld virða að vettugi niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EES-samningsins, ESA varðandi leyfisveitingar til framkvæmda og starfsemi sem hefur mikil áhrif á umhverfið og eiga að undirgangast faglegt mat á umhverfisáhrifum. Á meðan ákvarðanataka í umhverfismálum hlítir ekki faglegum reglum og lágmarkskröfum alþjóðlegra samninga geta mistök eins vegna framkvæmda United Silicon auðveldlega endurtekið sig.
Fegrunaraðgerðir
Nú er talað um grænan iðnað, græna orkugarða, græna stóriðju. Áróðurinn virðist vaxa hraðar en raunverulegar umbætur til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Aðgerðir til orkusparnaðar og bættrar nýtni víkja fyrir aukinni áróðursstarfsemi – og blekkingarnar eru matreiddar af fagfólki svo samfélagið áttar sig illa á þeim.
Grænþvotturinn er viðvarandi og í raun eitt stærsta umhverfisvandamálið á heimsvísu. Ísland er þar engin undantekning. Fyrirtæki reyna að mála starfsemi sína upp sem umhverfisvæna án þess að eiga fyrir því nokkra innistæðu, oft með aðstoð auglýsingastofa, almannatengslafyrirtækja og jafnvel stórra samtaka eins og Samtaka atvinnulífsins. Umhverfisverðlaun SA sem voru veitt til Norðuráls í haust eru eitt alvarlegasta dæmið um grænþvott á árinu. Stóriðjan fullyrðir ranglega að hún nýti græna orku en upprunavottorð orkunnar eru seld úr landi af því að fyrirtækin eru ekki tilbúin til að greiða það sem þau kosta.
Orkuskiptin mega ekki byggja á náttúruspjöllum
Fyrir þremur árum setti Landvernd fram kröfur um jarðefnaeldnseytislaust Ísland. Stjórnvöld hafa tekið undir og stefnt er að fullum orkuskiptum úr jarðefnaeldsneyti 2040, sem er mjög jákvætt. Ljóst er að verkefnið er gríðarstórt og orkuskipti hafa fengið mikið pláss í umræðunni á árinu 2022.
Grænbók stjórnvalda um stöður og horfur í orkumálum kom út í mars 2022. Starfshópur sem stóð að grænbókinni hampaði þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að meira en tvöfalda raforkuframleiðslu á Íslandi fyrir 2040, eða um 24 TWh, til þess að hægt væri að ná orkuskiptum. Þær fyrirætlanir byggja á að notkun stóriðju og annars orkusækins iðnaðar aukist, sem vekur furðu þar sem stóriðjan gleypir nú þegar 80% þeirrar raforku sem framleidd er hérlendis.
Ljóst er að slík aukning raforkuframleiðslu myndi valda gríðarlegum náttúruspjöllum, óafturkræfum og með ófyrirséðum afleiðingum fyrir vistkerfin og óbyggð víðerni. Jafnframt er mjög hætt við að áhrifin á ferðaþjónustu og útivist – stærsta atvinnuveg þjóðarinnar og eitt vinsælasta áhugamál landans, verði mjög neikvæð.
Hvernig framtíð viljum við?
Landvernd setti fram sínar eigin sviðsmyndir um hvernig hægt er að standa að því að fasa út jarðefnaeldsneyti með aðgerðum þar sem náttúruvernd og loftslagsvernd haldast í hendur. Þær aðgerðir sem grípa þarf til eru til dæmis mjög aukinn orkusparnaður og orkunýtni, hringrásarhagkerfi, endurheimt vistkerfa, landgræðsla og skógrækt, sem og að stilla af fjölgun ferðamanna. Hluti aðgerðanna yrði einnig að ráðast í umbreytingu á fiskveiðiaðferðum og að leggja áherslu á endurvinnslu málma fremur en frumvinnslu. Landvernd hefur sýnt fram á að við höfum val. Við getum sinnt orkuskiptum með sóma án þess að leggja náttúru landsins í rúst.
Vindorkuver valda deilum
Mörg vilja maka krókinn á fyrirhuguðum orkuskiptum og fara þar fremst í flokki ýmsir lukkuriddarar vindorkugeirans. Á árinu komu fram áform um risastórt vindorkuver á leifunum af hálendi Austurlands, fjölda vindorkuvera á Vesturlandi sem og tugi annarra vindorkuvera um allt land. Mikil andstaða hefur komið fram við einstök áform. Gott yfirlit um áformin er að finna hér og alveg ljóst að stjórnvöld, bæði ríki og sveitafélög, verða að standa í lappirnar og taka ákvarðanir með hagsmuni almennings, náttúruvernd og raunveruleg orkuskipti að leiðarljósi. Setja verður raforku til heimila og orkuskipta innanlands í algjöran forgang og hugmyndir um orkuútflutning verða að víkja.
Gott og slæmt af COP ráðstefnum
Í lok ársins voru tvær ráðstefnur aðila tveggja samninga Sameinuðu þjóðanna haldnar, COP 27 um loftslagsmál og COP 15 um líffræðilega fjölbreytni. Mikið var fjallað um COP27 í íslenskum fjölmiðlum en niðurstaða ráðstefnunnar var ósigur fyrir öflugar aðgerðir í loftslagsmálum þrátt fyrir tímamótasamning um bætur fyrir þau ríki sem verst verða fyrir barðinu á hættulegum loftslagsbreytingum sem nú þegar eru komnar fram af fullum þunga. Mörg hafa jafnvel kallað eftir því að næsta ráðstefna aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem halda á í Sameinuðu arabísku furstadæmunum á næsta ári verði sniðgengin vegna skorts á árangri COP. Tímamótasamkomulag náðist hins vegar á COP 15 þar sem þjóðir heims utan Bandaríkjanna sem ekki er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, lofuðu að vernda 30% landssvæða og 30% hafsvæða fyrir miðja öldina.
Sterk krafa er um að viðfangsefni samninganna tveggja, það er aðgerðir í loftslagsmálum og vernd vistkerfa, haldist í hendur. Náttúrutengdar lausnir á loftslagsvandanum þurfa að vera í forgrunni, sem og aðgerðir sem leiða til minni losunar og bættrar landnýtingar á sama tíma. Mikilvægustu aðgerðirnar eru til dæmisminni framleiðsla og neysla dýraafurða, minni matarsóun, minni framleiðsla hráefna, minni flutningar og verndun skóga og annarra vistkerfa.
Framtíðin er núna
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru sá grunnur sem við höfum til að byggja á ef mannkynið ætlar sér að lifa á jörðinni um langa framtíð í sátt við náttúru og aðra sem byggja plánetuna. Markmiðin eru skýr og allflest sammála um þau. Leiðirnar að þeim og hver á að greiða kostnaðinn eru hins vegar óleyst og erfið deilumál. Aðeins með aðkomu sem flestra, faglegum vinnubrögðum og með langtímahugsjón, sjálfbærni og almannahagsmuni að leiðarljósi geta þessi markmið orðið að veruleika. Ákvarðanir sem við tökum í dag ákvarða framtíðina. Framtíðin er núna.
Greinin birtist í Stundinni í lok árs 2022.