Fréttatilkynning: Höfnum því að færa svæði úr verndarflokki í biðflokk

Heiðagæs situr á hreiðri með fjórum eggjum.
Heiðargæs á hreiðri. Ljósmynd: Andrés Skúlason.
Fréttatilkynning frá Landvernd um álit meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar um rammaáætlun. Náttúra Íslands bíður því enn um sinn eftir því að stjórnvöld sýni í verki vilja til að vernda hana.

Fréttatilkynning frá Landvernd um álit meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar um rammaáætlun

Stjórn Landverndar telur brýnt að faglega sé farið að þegar ákvarðanir eru teknar um verndun og nýtingu landssvæða. Rammaáætlun er gagnleg til þess ef rétt er að málum staðið og unnið á faglegum forsendum eins og lögð er rík áhersla á í lögum sem um rammaáætlun gilda.

Stjórn Landverndar fagnar því að Alþingi virðist loks hafa í hyggju að ljúka við gerð rammaáætlunar III. En fyrirliggjandi nefndarálit uppfyllir ekki væntingar um faglegar eða vel rökstuddar breytingar á niðurstöðu verkefnisstjórnar Rammaáætlunar frá 2016.

Náttúruvernd á Íslandi yrði fyrir þungu höggi, nái hugmyndir meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um afgreiðslu 3. áfanga rammaáætlunar fram að ganga.

Almennt hefur verndargildi íslenskrar náttúru aukist á undanförnum árum og auk þess sem vitund um mikilvæg og gildi víðerna hefur vaxið. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur fært nokkra kosti sem dæmdir voru hafa hátt verndargildi í biðflokk, svæði þar sem verndargildi hefur vaxið á þeim 6 árum sem liðin eru síðan verkefnisstjórn rammaáætlunar III skilaði af sér. Þetta er gert þvert á þá staðreynd að skilningur á verðmæti víðerna og sérstöðu landsins hefur aukist í efnahagslegum og samfélagslegu samhengi gegnum vöxt ferðaþjónustunnar.

Stjórn Landverndar telur að virkjanaaðilar hafa af nógu að taka í fyrirliggjandi nýtingaflokkum og því engin nauðsyn sem kalli á tilfærslur úr verndarflokkum.

Stjórn Landverndar skorar á þingmenn að standa vörð um faglega ákvarðanatöku, stunda ekki hrossakaup með verðmæta íslenska náttúru og hafna því að færa kosti úr verndarflokki í biðflokk.

Um einstaka tilfærslur í tillögu meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar

 

Þrengt að Þjórsárverum

Þjórsárver eru einstök perla á hálendi landsins og ekki má raska vatnasviði þess. Miðlunarlón við Þjórsárver setur verndun svæðisins í uppnám og er ávísun á djúpar og erfiðar deilur um þessa einstöku perlu á hálendi Íslands. Þetta gerir nefndin í trássi við það vel rökstudda áliti Umhverfisráðuneytisins að afgreiðsla verkefnastjórnar rammaáætlunar III að halda Kjalölduveitu verndarflokk var í góðu samræmi við lög og vinnureglur við gerð rammaáætlunar. Áratugalöng barátta náttúruunnaeda fyrir varanlegri sátt um vernd Þjórsárvera og farvegi Þjórsár þar sem finna má fjóra af mestu fossum landsins er að engu gerð.

Eitt verðmætasta svæðið sett í biðflokk?

Náttúruverðmæti Héraðsvatna hefur aukist ef eitthvað er síðan verkefnisstjórn ramma III skilaði niðurstöðum sínum og mikilvægi ferðaþjónustu einnig. Engin haldbær rök eða gögn styðja tilfærslu á Héraðsvötnum úr verndarflokki í biðflokk koma fram í nefndarálitinu.

Tillaga um að færa Búrfellslund úr biðflokki í nýtingu vekur áhyggjur. Að koma fyrir umfangsmiklum vindorkuverum við anddyri hálendisins skerðir umtalsvert þau verðmæti sem felast í aðliggjandi víðernum og hálendisupplifun. Nefndin hefur ekki sýnt hvaða gögn hafa komið fram sem styðja færslu á Búrfellslundi yfir í nýtingaflokk.

Af framansögðu er ljóst að fagleg vinnubrögð hafa ekki verið í fyrirrúmi hjá meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar heldur hafa önnur sjónarmið ráðið för.

Nefndin tók því miður ekki til vel rökstuddra ábendinga um að mistök hefðu verið gerð við að setja Hvalárvirkjun í nýtingarflokk við samþykkt rammaáætlunar II. Niðurstaða mats á umhverfisáhrifum dregur þetta skýrt fram, ásamt nýlegum víðernarannsóknum og skýrslu Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN) og því er ríkt tilefni fyrir Alþingi að leiðrétta þessi mistök. Sama má segja um Austurgilsvirkjun.

Náttúra Íslands bíður því enn um sinn eftir því að stjórnvöld sýni í verki vilja til að vernda hana.

Ef frekari upplýsinga er óskað, vinsamlegast hafið samband við Auði Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar í síma 8435370

Kynntu þér einstaka náttúru Íslands á Náttúrukortinu

Kynntu þér málið!

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd