Hugvekja á degi íslenskrar náttúru

Dagur íslenskrar náttúru er haldin hátíðlegur þann 16. september ár hvert og tilefni þess er hér lítil hugvekja um náttúruna og náttúruvernd. Verndum, virðum og njótum náttúrunnar.

Hugvekja á degi íslenskrar náttúru

Mannkynið og aðrar lífverur eiga allt sitt undir náttúrunni og eru háðar henni um fæðu og búsvæði, vatn og loft. Því er náttúra er nauðsynleg öllu lífi. Til þess að kynnast náttúrunni er mikilvægt að upplifa hana með því að dvelja í henni, njóta hennar og umgangast hana af virðingu. Ýmsar rannsóknir hafa jafnframt sýnt að umgengni við náttúruna bæti bæði andlega og líkamlega heilsu. Það er því mikilvægt að njóta náttúru landsins, bæði í heimabyggð og á fjarlægari stöðum.

Í umræðu um náttúruvernd er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að náttúran sem slík hefur ákveðið gildi, hún er ekki eingöngu til staðar svo við mannkynið getum nýtt hana heldur hefur hún einnig tilvistarrétt í sjálfri sér. Náttúran getur ekki talað fyrir sig sjálf, það er því mikilvægt að hún eigi sér málsvara þegar kemur að nýtingu auðlinda og röskun landssvæða. Dæmi um málsvara náttúrunnar eru náttúruverndarsamtök.

En það sem skiptir mestu máli er að við Jarðarbúar umgöngumst hana af virðingu og hófsemi og tökum góðar ákvarðanir. Ákvarðanir verða vera teknar með náttúruna í huga, því að mannkynið og aðrar lífverur eiga allt sitt undir náttúrunni.

Með því að slá inn leitarorðið: náttúra í verkefnakistu Grænfánans finnur þú fjölda verkefna sem nýtast þegar njóta á náttúrunnar í gegnum leik og nám.