Náttúruvernd, friðlýsingar og hálendisþjóðgarður

Verndum miðhálendið, Verndum Hagavatn og víðerni við Langjökul, landvernd.is
Aðalfundur Landverndar 2020 ályktar um náttúruvernd, friðlýsingar og hálendisþjóðgarð.

Ályktanir Aðalfundar Landverndar 2020

Friðlýsingar

Aðalfundur Landverndar fagna þeim krafti sem stjórnvöld hafa nýlega sett í friðlýsingar og að það átak er nú farið að bera verulega árangur. Fundurinn hvetur til að áfram verði haldið í samræmi við þær tillögur sem þegar liggja fyrir. Friðlýsingar eru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að náttúruverðmætum sé spillt og stýra nýtingu þeirra þannig að þau haldi gildi sínu.

Friðlýst svæði á Íslandi skiptast í þjóðgarða, friðlönd, náttúruvætti og fólkvanga. Friðlýst svæði á Íslandi eru 118 talsins, og spanna rúmlega fjórðung landsins. Einnig hafa dropasteinar og þörungategundin kúluskítur (vatnaskúfur) verið friðuð ásamt 31 tegund plantna auk friðunar á villtum fuglum og spendýrum. Friðlýsingar eru eitt öflugast tækið til að koma í veg fyrir frekari spjöll á náttúruverðmætum og til að stýra nýtingu þeirra þannig að þau haldi gildi sínu.
Í júlí 2018 kynnti umhverfis- og auðlindaráðherra áform um átak í friðlýsingum. Um slíkt átak var kveðið á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Sérstaklega var vísað til að friðlýsa svæði í verndarflokki rammaáætlunar og svæði á eldri náttúruverndaráætlunum, að stofna þjóðgarð á miðhálendinu og að beita friðlýsingum sem stjórntæki á viðkvæmum svæðum sem eru undir álagi ferðamanna. Þetta var mjög tímabær áhersla þar sem um langt ára bil hefur friðlýsingum lítið verið sinnt og hafði myndast langur „biðlisti“ yfir svæði sem taka ber til friðlýsingar.
Þetta átak er nú farið að bera árangur. Frá því að átakið var kynnt hafa eftirtalin svæði verið friðlýst:

  • Akurey á Kollafirði
  •  Stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs (Herðubreið, Herðubreiðarlindir og þjóðlendan vesturaf)
  • Stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs (hluti af Ásbyrgi)
  • Jökulsá á Fjöllum (gegn orkuvinnslu)
  • Svæði í Þjórsárdal
  • Gjástykki (gegn orkuvinnslu)

Fjölmörg fleiri svæði eru í vinnslu og nánar upplýsingar um það er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar 

Ályktanir Aðalfundar Landverndar 2020

Hálendisþjóðgarður

Aðalfundur Landverndar styður heilshugar stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.  Það yrði mikið framfaraskref fyrir íslenska þjóð og verndun íslenskrar náttúru. Frumvörp umhverfisráðherra bera þess merki að of mikið hafi verið gefið eftir af áherslum náttúruverndar í því ferli sem staðið hefur undanfarin ár. Landvernd telur óásættanlegt að frumvörp umhverfisráðherra opni á að nýjar virkjanir verði reistar innan þjóðgarðs fái þær samþykki Alþingis samkvæmt Rammaáætlun. Einnig er nauðsynlegt að bæta faglegan grunn við ákvarðanatöku á hefðbundnar nytjar innan þjóðgarðsmarkanna og tryggt sé að nýting standist fagleg viðmið um sjálfbæra nýtingu.

Undanfarin misseri hefur stofnun hálendisþjóðgarðs verið undirbúin með víðtæku samráði og umræðu. Eðlilega eru skoðanir skiptar og að mörgu að hyggja. En stór skref hafa verið stigin í undirbúningi og forsendur fyrir víðtækri sátt eru fyrir hendi. Vinna þarf vel úr þeim athugasemdum og ábendingum sem fram hafa komið og leggja málið formlega fyrir Alþingi. Sú vinna má ekki leið til þess að þjóðgarðshugtakið verði gengisfellt, verði notað til grænþvottar.
Markmið þjóðgarðs eiga alltaf fyrst og fremst að vera verndun landslags, víðerna, náttúru- og menningarminja og endurheimt raskaðra vistkerfa. En einnig nýting þessa verðmæta náttúruarfs með sjálfbærum hætti. „Sjálfbærni“ ber að hafa að leiðarljósi við hefðbundna nýtingu, eins og veiðar og sauðfjárbeit, innan þjóðarðs á miðhálendinu.
Varfærni þarf að gæta við vegabætur og við gerð mannvirkja fyrir ferðmenn innan þjóðgarðs á hálendinu svo þær spilli ekki landslagsheildum og sannri hálendisupplifun.
Ekki er skynsamlegt að heimila stórframkvæmdir eins og orkuvinnslu innan þjóðgarðs á hálendi Íslands, enda yrði það ekki í samræmi við alþjóðleg viðmið (skilgreiningu IUCN) á þjóðgörðum og samþykkta ályktun Alþjóða náttúruverndarsamtakanna (IUCN) .
Við skipan í stjórn hálendisþjóðgarðs beri að hafa fagþekkingu stjórnarmanna að leiðarljósi. Þá þarf að gæta jafnræðis meðal landsmanna við skipan í stjórn svo hálendisþjóðgarður standi undir nafni sem sameiginlegur garður þjóðarinnar.

Ályktanir Aðalfundar Landverndar 2020

Drangajökulsvíðerni

Aðalfundur Landverndar hvetur umhverfis- og auðlindaráðherra, að ljúka tafarlaust umfjöllun um tillögu Náttúrufræðistofnunar að friðlýsa Drangajökul og víðerni umhverfis hann og leggi nýja náttúruverndaráætlun fyrir Alþingi við fyrsta tækifæri. Í framhaldi af því verði svæðið skráð í flokki 1b á Heimslista verndarsvæða Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin, IUCN. 

Landvernd óskaði eftir því að Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin, IUCN, gerðu úttekt á verndargildi víðerna Drangajökulssvæðisins. Úttektin var framkvæmd af Dr. Andrej Sovinc, IUCN WCPA Regional Vice-Chair Europe. Um er að ræða sama svæði og Náttúrufræðistofnun hefur lagt til að verði friðlýst.
Niðurstaða matsins er sú að víðerni Drangajökulssvæðisins er ekki bara mikilvægt á landsvísu, eins og Náttúrufræðistofnun Íslands hefur bent á, heldur einnig mikilvægt frá evrópsku og alþjóðlegu sjónarhorni. Í skýrslunni eru færð rök fyrir því að svæðið uppfylli skilyrði sem sett eru fyrir því að það verða skráð samkvæmt verndarflokkum IUCN í flokki 1b. Skýrslan staðfestir það sem Landvernd og fleiri aðilar hafa bent á, að Drangajökulssvæðið eru eitt af fáum óröskuðum og heildstæðum svæðum í Evrópu sem uppfylla öll skilyrði sem víðerni og er mikilvægt á heimsmælikvarða.
Í skýrslunni er einnig farið yfir áform um Hvalárvirkjun og hvaða áhrif þau kynnu að hafa á svæðið. Í skýrslunni segir að það myndi valda verulegum breytingum á vatnafari, hafa áhrif á landslag, náttúrulegan breytileika og náttúrulega ferla. Einnig að þau áform væru í andstöðu við viðmið IUCN fyrir úthlutun verndarsvæða í flokknum Ib (víðerni) eða II (þjóðgarður). Í þessu sambandi má einnig benda á nýlega rannsókn Wildland Research Institute við Háskólann í Leeds sem bendir til þess að áformuð virkjun myndi spilla 45 til 48 % af áður óröskuðu svæði. Niðurstaða Skipulagsstofnunar við mat á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar var á sama veg.
Málið var einnig á dagskrá aðalfundar Landverndar 2019

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd