Núpsá er bergvatns- og jökulá sem rennur frá hálendi sunnanverðs Vatnajökuls um fossa og gljúfur og hinn fagra kjarrivaxna Núpsstaðarskóg. Svæðið býr yfir magnaðri náttúrufegurð á heimsmælikvarða og einkennist af jöklum, birkiskógum, fossum, gljúfrum, grónu heiðalandi, móbergsklettum og hinum mikilfenglegu Súlutindum og Lómagnúpi.
Virkjunarhugmyndir
Fyrirhuguð virkjun myndi nýta vatnsfall í sunnanverðu vatnasviði Núpsár ásamt afrennsli á fjallendi norðan Lómagnúps og mynda þrjú stór lón með tilheyrandi vegaframkvæmdum, línustæðum, stíflum, skurðum og aðrennslisgöngum. Staðsetning virkjunar í jaðri Vatnajökulsþjóðgarðs myndi hafa ótvíræð neikvæð áhrif á víðerni svæðisins og óbyggðaupplifun ferðafólks.