Sandfell er í Krýsuvík
Sandfell

Sandfell er í Krýsuvík og er staðsett rétt austan við Meradali við Fagradalsfjall sem er nú landsþekkt svæði. Eldgos hófst í Geldingadölum þann 19.mars 2021 og hafa nú þúsundir lagt leið sína til þess að bera eldsumbrotin augum. Nýtt hraun hefur hátt verndargildi skv. lögum um náttúruvernd en einnig má búast við að umferð ferðafólks haldi áfram, jafnvel eftir að eldgosi lýkur og nýtt hraun stendur eftir. Umhverfis Sandfell er nær ósnortið jarðeldasvæði með hraunum og móbergsfjöllum. Ljóst er að svæðið hefur hátt verndargildi, sérstaklega með tilliti til þeirra eldsumbrota sem hafa átt sér stað í nágrenninu. Ef orkuver með tilkomandi aðkomuvegi, flutningslínum, borholum og gufuleiðslum, yrði reist á svæðinu myndi það gjörbreyta svæðinu til frambúðar og hafa áhrif á upplifun ferðafólks. HS Orka hyggst reisa 50 MW raforkuver á svæðinu.

 

KRÝSUVÍKURSVÆÐIÐ

Krýsuvíkursvæðið nær yfir nokkur jarðhitasvæði sem tengjast eldstöðvakerfi sem venjulega er kennt við Krýsuvík. Áformuð virkjunarsvæði eru Sveifluháls, Austurengjar, Trölladyngja og Sandfell (Sjá kort). Jarðhita er jafnframt að finna við Syðri Stapa í Kleifarvatni, við Köldunámur og við Hverinn eina.

Jarðhitinn á Krýsuvíkursvæðinu er við jaðra gos- og sprungureinar eldstöðvakerfisins. Nærri miðju þess liggur móbergshryggurinn Núpshlíðarháls en beggja vegna hans eru hraunflákar og gossprungur frá síðustu árþúsundum. Þar sem móbergið hefur þést af jarðhitaummyndun renna lækir út á hraunin og hafa myndað þar gróðurlendi, t.d. Höskuldarvelli, Selsvelli, Vigdísarvelli og Tjarnarvelli. Utan jarðhitasvæðanna er rennandi vatn á yfirborði nánast óþekkt á Reykjanesskaga vestan Hellisheiðar. Áform um að virkja á þessum jarðhitasvæðum stefna vatni og lífríki í hættu. Rúmlega 60% landsmanna búa í nánd við óspillta náttúru Krýsuvíkursvæðisins og Reykjanesskagans. Svæðið er því kjörið til útivistar, auk þess sem náttúra skagans minnir um margt á óspillt víðerni hálendisins. Hugmyndir hafa lengi verið uppi um eldfjallaþjóðgarð á Reykjanesskaganum en þar gengur úthafshryggur á land á mótum tveggja jarðskorpufleka með sýnilegum ummerkjum eldsumbrota liðinna árþúsunda.

Rúmlega 60% landsmanna búa í nánd við óspillta náttúru Krýsuvíkursvæðisins og Reykjanesskagans. Svæðið er því kjörið til útivistar, auk þess sem náttúra skagans minnir um margt á óspillt víðerni hálendisins. Hugmyndir hafa lengi verið uppi um eldfjallaþjóðgarð á Reykjanesskaganum en þar gengur úthafshryggur á land á mótum tveggja jarðskorpufleka með sýnilegum ummerkjum eldsumbrota liðinna árþúsunda.

Umhverfi Sandfells

Um 1 km vestur af sunnanverðum Núpshlíðarhálsi stíga gufur upp úr hrauni á mjög takmörkuðu svæði skammt norðan við Sandfell og suður af Hraunsels-Vatnsfelli.

Þar sem hraunflákanum vestur af Núpshlíðarhálsi sleppir taka við lág móbergs- og bólstrabergsfjöll, fremur rýr af gróðri og hrjáð af jarðvegsrofi.

Í heild er svæðið nánast ósnortið jarðeldasvæði með hraunum og móbergsfjöllum. Jarðhitinn er í vesturjaðri eldstöðvakerfis Krýsuvíkur og tengist hugsanlega sprungum með N-S stefnu en þær koma fram í gömlu hrauni beint norður af jarðhitanum, vestan undir Hraunsels-Vatnsfelli.

Í hrauninu eru nokkrar skemmdir í mosa eftir vélknúin farartæki.

Virkjanahugmyndir

Krýsuvíkursvæðið er metið sem ein heild í mati Orkustofnunar og talið 89 km² að stærð með vinnslugetu sem nemur 445 MW rafafls til 50 ára. Þar með væri það þriðja aflmesta jarðhitasvæði landsins á eftir Hengilssvæði og Torfajökulssvæði. Þessi túlkun á stærð svæðisins hefur verið dregin í efa enda ekki í samræmi við niðurstöður borana frá því um 1970. Athuganir á svæðinu benda til að samanlögð vinnslugeta svæðanna sé um 120 MW rafafls til 50 ára. Fjórar virkjunarhugmyndir á Krýsuvíkursvæðinu hafa verið til umfjöllunar í rammaáætlun. Sandfell og Sveifluháls voru þar í 2. áfanga sett í nýtingarflokk en Trölladyngja og Austurengjar í biðflokk.

Ennfremur eru virkjunarhugmyndirnar ekki taldar sjálfbærar og útlit fyrir að orkan úr svæðunum klárist á fáeinum áratugum, en til að virkjun geti talist sjálfbær þarf svæðið að nýtast í að minnsta kosti 200-300 ár.

HS Orka hefur rannsóknarleyfi á Sandfellssvæðinu og áformar að reisa þar 50 MW raforkuver. Slíkt orkuver ásamt tilheyrandi aðkomuvegum, flutningslínum, borholum og gufuleiðslum myndi hafa veruleg áhrif á svæðið.

Ein grunnrannsóknarhola hefur verið boruð á svæðinu.

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is