Sjálfbærnimenntun og aðalnámskrá

krakkar að leiðast úti í náttúrunni, landvernd.is
Sjálfbærni er einn af grunnþáttum menntunar á Íslandi. Í aðalnámskrá er kveðið á um að menntun til sjálfnærni skuli samfléttuð í allt nám.

Sjálfbærnimenntun snýst um að skapa ábyrga samfélagsþegna, sem saman vinna að því markmiði að finna leiðir og aðgerðir til að allir jarðarbúar geta lifað góðu lífi án þess að það bitni meira á móður jörð en það hefur nú þegar gert.

Virkni nemenda, gagnrýnin hugsun, langtímahugsun, framtíðarsýn, samvinna og þekking á málefnunum skipta þar miklu máli. 

Grunnþættir menntunar

Menntastefna Íslands er reist sex grunnþáttum sem eiga að fléttast inn í allar námsgreinar og vera sýnilegir í skólastarfinu öllu. Grunnþættirnir eru lýðræði og mannréttindum, heilbrigði og velferð, jafnrétti, læsi og sköpun auk sjálfbærni.

 

Grunnþættir menntunar eru órjúfanlegir þættir í allri umræðu um sjálfbærni. Sjálfbærnimenntun er annað og meira en það að kenna börnum grunnatriði á við að flokka sorp og spara rafmagn, án þess að hér sé dregið úr mikilvægi þess. 

Fram kemur í almennum hluta aðalnámskrár að þó grunnþættirnir séu settir fram sem aðskildir þættir tengjast þeir innbyrðis og eru háðir hver öðrum. Þetta endurspeglast ekki síst í grunnþættinum sjálfbærni, en ómögulegt er að vinna að sjálfbærni án þess að taka tillit til allra hinna grunnþáttanna. 

Sjálfbærni snýst um samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar. Sjálfbærni felur í sér virðingu fyrir umhverfinu, ábyrgð, heilbrigði, lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti, ekki bara í nútíma heldur og gagnvart komandi kynslóðum. Þannig er óhugsandi að unnt sé að stuðla að mannréttindum án þess að jafnframt sé leitað eftir sjálfbærni og jafnvægi í þróun samfélagsins. Sjálfbærni er einnig háð því að hugað sé að jafnrétti þjóðfélagshópa.

Sjálfbært samfélag krefst jafnréttis og lýðræðis

Grunnþættirnir lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og velferð auk jafnrétti eru allir samfléttaðir sjálfbærni. Sköpun er jafnframt mikilvægur hluti sjálfbærni en nauðsynlegt er að þroska skapandi og frjóa huga til að takast á við þær áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir. Læsi er einnig órjúfanlegur hluti af sjálfbærni ekki síst læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru. Allt er þetta mikilvægur hluti sjálfbærnimenntunar.

Valdefling með getu til aðgerða

Lykilhugtak í sjálfbærnimenntun er geta til aðgerða. Mikilvægt er að nemendur þjálfist í lýðræðislegum vinnubrögðum og taki virkan þátt í skólaþróun og breytingum í samfélaginu. 

Nemendur hafa áhrif á skólastarfið

Geta til aðgerða er jafnframt samofin og samtengd grunnþættinum sjálfbærni og sjálfbærnimenntun og er í aðalnámskrá komið inn á órjúfanlegan hluta getu til aðgerða í menntun til sjálfnærni. 

Lýðræðisleg vinnubrögð og þátttaka nemenda er eitt af leiðarljósum Skóla á grænni grein. 

Í sjálfbærnimenntun felst að skapa samábyrgt samfélag þar sem sérhver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart hnattrænum áhrifum og jafnræði allra jarðarbúa; náttúru og umhverfi; lýðræði, mannréttindum og réttlæti; jafnrétti og fjölmenningu; velferð og heilbrigði; og efnahagsþróun og framtíðarsýn.
Í sjálfbærnimenntun felst einnig að börn og ungmenni takist í námi sínu á við margvísleg álitamál og ágreiningsefni. Kennsla og starfshættir innan skólans skulu fléttast saman við það viðhorf að markmið menntunar sé geta til aðgerða. Í því felst þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og því að stuðlað sé að áhuga og vilja til þess að börnin og ungmennin taki þátt í samfélaginu.

Grunnþættir menntunar innleiddir með grænfánanum

Þátttaka í verkefninu Skólar á grænni grein styður með augljósum hætti við aðalnámskrá og ætti að auðvelda innleiðingu hennar í allt skólastarf. Mikilvægt er að taka tillit til allra grunnþátta aðalnámskrár í vinnu við verkefnið enda allir grunnþættirnir órjúfanlegir þættir sjálfbærnimenntunar og þar með Skóla á grænni grein.

Lesefni

Sigrún Helgadóttir, upphafskona Grænfánans á Íslandi og fyrsta verkefnastýra Skóla á grænni grein er höfundur Sjálfbærni – Ritröð um grunnþætti menntunar. 

Sigrún sat lengi vel í stýrihóp Skóla á grænni grein og hefur því haft mikil áhrif á menntun til sjálfbærni á Íslandi. 

Meira um menntun til sjálfbærni

Helstu viðfangsefni Landverndar