Göngufólk á Sveifluhálsi
Göngufólk á Sveifluhálsi

Sveifluháls er um 15 km langur móbergshryggur vestan við Kleifarvatn. Um er að ræða vinsælt og vel sótt ferðamannasvæði, þekkt sem jarðhitasvæðið í Krýsuvík. HS orka áformar að reisa jarðvarmavirkjun á svæðinu með uppsett afl 100 MW. Það myndi fela í sér mikið rask, vinnsluholur, vegagerð, gufuleiðslur og línutengingar sem myndu breyta ásýnd svæðisins svo um munar.

Krýsuvíkursvæðið

Krýsuvíkursvæðið nær yfir nokkur jarðhitasvæði sem tengjast eldstöðvakerfi sem venjulega er kennt við Krýsuvík. Áformuð virkjunarsvæði eru Sveifluháls, Austurengjar, Trölladyngja og Sandfell (Sjá kort). Jarðhita er jafnframt að finna við Syðri Stapa í Kleifarvatni, við Köldunámur og við Hverinn eina.

Jarðhitinn á Krýsuvíkursvæðinu er við jaðra gos- og sprungureinar eldstöðvakerfisins. Nærri miðju þess liggur móbergshryggurinn Núpshlíðarháls en beggja vegna hans eru hraunflákar og gossprungur frá síðustu árþúsundum. Þar sem móbergið hefur þést af jarðhitaummyndun renna lækir út á hraunin og hafa myndað þar gróðurlendi, t.d. Höskuldarvelli, Selsvelli, Vigdísarvelli og Tjarnarvelli. Utan jarðhitasvæðanna er rennandi vatn á yfirborði nánast óþekkt á Reykjanesskaga vestan Hellisheiðar. Áform um að virkja á þessum jarðhitasvæðum stefna vatni og lífríki í hættu. Rúmlega 60% landsmanna búa í nánd við óspillta náttúru Krýsuvíkursvæðisins og Reykjanesskagans. Svæðið er því kjörið til útivistar, auk þess sem náttúra skagans minnir um margt á óspillt víðerni hálendisins. Hugmyndir hafa lengi verið uppi um eldfjallaþjóðgarð á Reykjanesskaganum en þar gengur úthafshryggur á land á mótum tveggja jarðskorpufleka með sýnilegum ummerkjum eldsumbrota liðinna árþúsunda.

Rúmlega 60% landsmanna búa í nánd við óspillta náttúru Krýsuvíkursvæðisins og Reykjanesskagans. Svæðið er því kjörið til útivistar, auk þess sem náttúra skagans minnir um margt á óspillt víðerni hálendisins. Hugmyndir hafa lengi verið uppi um eldfjallaþjóðgarð á Reykjanesskaganum en þar gengur úthafshryggur á land á mótum tveggja jarðskorpufleka með sýnilegum ummerkjum eldsumbrota liðinna árþúsunda.

Umhverfi

Jarðhitasvæðið í Sveifluhálsi er í daglegu tali þekkt sem jarðhitasvæðið í Krýsuvík. Háhitasvæðið liggur rétt austan við gos- og sprungurein sem jafnan er kennd við Krýsuvík.

Sveifluháls er tiltölulega lítt raskað svæði og þrátt fyrir töluverðar boranir um og eftir miðja síðustu öld mætti auðveldlega koma svæðinu í því sem næst náttúrulegt horf.

Sjálft jarðhitasvæðið er um 2-3 km langt og allt að 2 km breitt. Meginvirknin er í hálsinum austanverðum. Hitinn virðist að einhverju leyti tengdur sprungum með NA-SV stefnu líkt og gosreinin. Sveifluháls (ásamt Undirhlíðum) er allt að 20 km langur og 2 km breiður, samsettur móbergshryggur, sem rís víðast 150–200 m yfir umhverfið. Móbergið er víðast lítt eða ekki gróið nema á jarðhitasvæðinu þar sem ummyndun hefur þétt móbergið.

Jarðhitinn einkennist af gufuhverum, leirhverum og leirugum vatnshverum og getur virkni þeirra verið afar breytileg frá einum tíma til annars. Svæðið er einkar litskrúðugt vegna ummyndunar í móberginu og töluvert er þar um brennisteinsútfellingar, hverasölt og gifs.

Svæðið er sérstakt fyrir allmarga sprengigíga en þekktastir þeirra eru Grænavatn, Gestsstaðavatn og Arnarvatn. Á hverasvæðinu eru minniháttar ummerki um eldvirkni á nútíma, m.a. í Grænavatni.

Virkjunarhugmyndir

Krýsuvíkursvæðið er metið sem ein heild í mati Orkustofnunar og talið 89 km² að stærð með vinnslugetu sem nemur 445 MW rafafls til 50 ára. Þar með væri það þriðja aflmesta jarðhitasvæði landsins á eftir Hengilssvæði og Torfajökulssvæði. Þessi túlkun á stærð svæðisins hefur verið dregin í efa enda ekki í samræmi við niðurstöður borana frá því um 1970. Athuganir á svæðinu benda til að samanlögð vinnslugeta svæðanna sé um 120 MW rafafls til 50 ára. Fjórar virkjunarhugmyndir á Krýsuvíkursvæðinu hafa verið til umfjöllunar í rammaáætlun. Sandfell og Sveifluháls voru þar í 2. áfanga sett í nýtingarflokk en Trölladyngja og Austurengjar í biðflokk.

Ennfremur eru virkjunarhugmyndirnar ekki taldar sjálfbærar og útlit fyrir að orkan úr svæðunum klárist á fáeinum áratugum, en til að virkjun geti talist sjálfbær þarf svæðið að nýtast í að minnsta kosti 200-300 ár.

Hugmyndir HS Orku eru um 50-100 MW orkuver á svæðinu, skammt norðan Grænavatns.

Áformuð virkjun myndi þurfa 10–20 vinnsluholur með tilheyrandi raski, vegagerð og gufuleiðslum og ófyrirsjáanlegum áhrifum á virkni jarðhitasvæðisins.

Borsvæðum yrði raðað austan undir hálsinum og jafnvel á hveralínuna frá Baðstofu að Seltúni.

Óhjákvæmilega þyrfti að tengja raforkuna inn á landskerfið. Til þess þyrfti að lágmarki eina háspennulínu (eða jarðstreng) að spennuvirki í Hamranesstöð við Straumsvík. Slík lína myndi eyðileggja einstaka ásýnd Sveifluháls meðfram Kleifarvatni eða ásýnd Móhálsadals vestan við hálsinn.

Svæðið er innan Reykjanesfólkvangs.

 

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is