Trölladyngja, Grænadyngja og Fíflavallafjall eru móbergsfjöll sem mynda norðausturenda Núpshlíðarháls. Allmiklar gufur stíga upp úr Eldborg og nálægum hraunum og móbergi á svæðinu. Sunnan við dyngjurnar hefur lítill lækur, Sogalækur, grafið út töluverða fyllingu af hveraleir og myndað litskrúðugt gil, Sogin. Efnið hefur lækurinn borið fram í hraunin og myndað Höskuldarvelli. HS Orka hefur haft áform um að reisa orkuver til framleiðslu á heitu vatni og raforku á svæðinu með uppsett afl 100 MW. Rannsóknir þeirra hafa nú þegar valdið miklu raski á þessu viðkvæma svæði.
Krýsuvíkursvæðið
Krýsuvíkursvæðið nær yfir nokkur jarðhitasvæði sem tengjast eldstöðvakerfi sem venjulega er kennt við Krýsuvík. Áformuð virkjunarsvæði eru Sveifluháls, Austurengjar, Trölladyngja og Sandfell (Sjá kort). Jarðhita er jafnframt að finna við Syðri Stapa í Kleifarvatni, við Köldunámur og við Hverinn eina.
Jarðhitinn á Krýsuvíkursvæðinu er við jaðra gos- og sprungureinar eldstöðvakerfisins. Nærri miðju þess liggur móbergshryggurinn Núpshlíðarháls en beggja vegna hans eru hraunflákar og gossprungur frá síðustu árþúsundum. Þar sem móbergið hefur þést af jarðhitaummyndun renna lækir út á hraunin og hafa myndað þar gróðurlendi, t.d. Höskuldarvelli, Selsvelli, Vigdísarvelli og Tjarnarvelli. Utan jarðhitasvæðanna er rennandi vatn á yfirborði nánast óþekkt á Reykjanesskaga vestan Hellisheiðar. Áform um að virkja á þessum jarðhitasvæðum stefna vatni og lífríki í hættu. Rúmlega 60% landsmanna búa í nánd við óspillta náttúru Krýsuvíkursvæðisins og Reykjanesskagans. Svæðið er því kjörið til útivistar, auk þess sem náttúra skagans minnir um margt á óspillt víðerni hálendisins. Hugmyndir hafa lengi verið uppi um eldfjallaþjóðgarð á Reykjanesskaganum en þar gengur úthafshryggur á land á mótum tveggja jarðskorpufleka með sýnilegum ummerkjum eldsumbrota liðinna árþúsunda.
Rúmlega 60% landsmanna búa í nánd við óspillta náttúru Krýsuvíkursvæðisins og Reykjanesskagans. Svæðið er því kjörið til útivistar, auk þess sem náttúra skagans minnir um margt á óspillt víðerni hálendisins. Hugmyndir hafa lengi verið uppi um eldfjallaþjóðgarð á Reykjanesskaganum en þar gengur úthafshryggur á land á mótum tveggja jarðskorpufleka með sýnilegum ummerkjum eldsumbrota liðinna árþúsunda.
Umhverfi
Trölladyngja, Grænadyngja og Fíflavallafjall nefnast móbergsfjöll sem í sameiningu mynda norðausturenda Núpshlíðarháls. Hálsinn sem er nær allur úr móbergi er um 13 km langur. Hann liggur að mestu innan gos- og sprungureinar eldstöðvakerfis Krýsuvíkur. Við dyngjurnar háttar svo til að eldstöðvakerfið hliðrast um nokkra kílómetra til austurs og fylgir eftir það Undirhlíðum í átt til Heiðmerkur.
Allmiklar gufur stíga upp úr Eldborg og nálægum hraunum og móbergi á svæðinu. Einnig er nokkur jarðhiti í hrauninu suður af Höskuldarvöllum, gegnt Sogum og í Oddafelli þar beint vestur af. Þá er lítilsháttar hiti í Sogum sunnan við Grænudyngju, gufuaugu og leirugir vatnshverir.
Jarðhitasvæðið er alls um 3 km langt. Það virðist að hluta tengt gliðnunarsprungum eldstöðvakerfisins en telja verður líklegt að staðsetning jarðhitans mótist að einhverju leyti af hliðrun í Krýsuvíkurkerfinu.
Eldvirkni hefur verið töluverð á svæðinu á nútíma, síðast fyrir 1–2 þúsund árum.
Sunnan við dyngjurnar hefur lítill lækur, Sogalækur, grafið út töluverða fyllingu af hveraleir og myndað litskrúðugt gil, Sogin. Efnið hefur lækurinn borið fram í hraunin og myndað Höskuldarvelli.
Virkjunarhugmyndir
Krýsuvíkursvæðið er metið sem ein heild í mati Orkustofnunar og talið 89 km² að stærð með vinnslugetu sem nemur 445 MW rafafls til 50 ára. Þar með væri það þriðja aflmesta jarðhitasvæði landsins á eftir Hengilssvæði og Torfajökulssvæði. Þessi túlkun á stærð svæðisins hefur verið dregin í efa enda ekki í samræmi við niðurstöður borana frá því um 1970. Athuganir á svæðinu benda til að samanlögð vinnslugeta svæðanna sé um 120 MW rafafls til 50 ára. Fjórar virkjunarhugmyndir á Krýsuvíkursvæðinu hafa verið til umfjöllunar í rammaáætlun. Sandfell og Sveifluháls voru þar í 2. áfanga sett í nýtingarflokk en Trölladyngja og Austurengjar í biðflokk.
Ennfremur eru virkjunarhugmyndirnar ekki taldar sjálfbærar og útlit fyrir að orkan úr svæðunum klárist á fáeinum áratugum, en til að virkjun geti talist sjálfbær þarf svæðið að nýtast í að minnsta kosti 200-300 ár.
HS Orka hefur rannsóknarleyfi á svæðinu og hafði áform um að reisa jarðvarmavirkjun á jarðhitasvæðinu í Trölladyngju. Þrjár jarðhitaholur hafa verið boraðar á svæðinu. Fyrsta holan var boruð á vegum Orkustofnunar um 1970, norðan við Trölladyngju. Eftir síðustu aldamót hefur HS Orka látið bora tvær um 2300 m djúpar holur í svæðið, aðra í hrauninu sunnan við Höskuldarvelli og hina í mynni Soga. Niðurstaða borana er sú að mikill hiti er á svæðinu en vatnsstreymi nær aðeins niður á um 1600 m. Ekki er ljóst hvort svæðið hafi verið afskrifað sem virkjunarsvæði en rannsóknum hefur verið hætt í bili. Rannsóknir hafa leitt af sér miklar skemmdir á náttúru svæðisins.
Trölladyngjusvæðið er að stærstum hluta innan Reykjanesfólkvangs og að nokkru leyti á náttúruminjaskrá.