Grípa þarf til aðgerða tafarlaust. Loftslagsbreytingar ógna lífi manna á jörðinni og þurfum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hægja á þeim, landvernd.is

Umgjörð loftslagsmála á Íslandi veik

Stjórn Landverndar styður þær breytingar sem gera á á loftslagslögum með frumvarpi umhverfisráðherra með vissum undantekningum. Þá telur Landvernd að nauðsynlegt sé að efla stjórnsýslu loftslagsmála á Íslandi, skýra hlutverk loftslagsráð og tryggja hlutleysi þess gagnvart hagsmunaaðilum og ríkisstjórn.

Umsögn Landverndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um frumvarp til laga um loftslagsmál (skuldbindingar og losunarheimildir), 718. mál. send Nefndarsviði Alþingis þann 24. maí 2020. 

Nefndasvið Alþingis óskaði eftir umsögn Landverndar við ofnagreint mál með tölvupósti þann 6. maí sl. Stjórn Landverndar hefur kynnt sér frumvarpið og gerir athugasemdir sem hér fylgja. Landvernd áréttar einnig umsagnir sínar um fyrri breytingar á loftslagslögum dags. 6. feb 2020 og 14. feb 2019 sem finna má hér að neðan. Stjórn Landverndar þakkar veittan frest til þess að skila umsögninni.

Verkefnisstjórn aðgerðaráætlunar og loftslagsráð

Stjórn Landverndar telur mjög aðkallandi að breyta bæði skipan verkefnisstjórnar aðgerðaráætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og umgjörð og skipan loftslagsráðs. Landvernd vísar í umsögn sína frá 6. febrúar 2020 þar sem segir um loftslagsráð:

„Landvernd vill einnig nota tækifærið og benda á að samsetning loftslagsráðs hér á landi er önnur en hjá sumum grannþjóðum okkar. Til dæmis má vísa á loftslagsráð Danmerkur: https://klimaraadet.dk/. Þar er lögð áhersla á að ráðið sé óháð ráð sérfræðinga en ekki ráð tengt hagsmunaaðilum. Þetta er gert svo ráðið geti lagt óháð mat á aðgerðir en sé ekki bundið við múla sértækra hagsmuna. Í núgildandi lögum á Íslandi er gert ráð fyrir að hagsmunaaðilar eigi aðild að ráðinu og það kann að hindra möguleika ráðsins að mynda sér óháða skoðun á aðgerðaáætlunum framtíðarinnar og leggja fram eigin hugmyndir um aðgerðir.“
Þá verður að tryggja sjálfstæði loftslagsráð frá ríkisstjórn og ráðuneytum til þess að rýni þess á áætlanir ríkisstjórnarinnar sé sjálfstætt og trúverðugt.

Í umsögn Landverndar um breytingar á loftslagslögum frá 14. febrúar 2020 segir um verkefnisstjórn aðgerðaráætlunarinnar:

„2. Skipan verkefnisstjórnar í 1. gr.: Ekki eru neinar kröfur um hæfni þeirra sem sitja skulu í verkefnisstjórn tilteknar og hún er eingöngu pólitískt skipuð. Rétt væri að helmingur verkefnisstjórnar væri fagfólk á sviði loftslagsmála. Stjórn Landverndar leggur því til að 3. mgr. 1 gr. verði breytt í svohljóðandi mgr.
“Ráðherra skipar verkefnisstjórn sem mótar tillögur að aðgerðum og hefur umsjón með að þeim sé hrundið í framkvæmd. Ráðherra skipar formann verkefnisstjórnar án tilnefningar. Eftirfarandi aðilar tilnefna einn fulltrúa hver: Forsætis- og fjármálaráðherra tilnefna einn fulltrúa hvor, Háskóli Íslands (eða samráðsvettvangur háskólanna) tilnefnir einn, Umhverfisstofnun einn og náttúruverndarsamtök tilnefna einn fulltrúa. Tilnefningaraðilar bera kostnað hver af sínum fulltrúa í nefndinni.”

Stjórn Landverndar áréttar hér með þessar ábendingar. Breytingar á loftslagsráði og verkefnisstjórn mætti fella inn í 3. gr. frumvarpsins eða gera um þau sérstakar greinar sem vísa þá til 5 gr. laga 70/2012.

Samdráttur bundinn í lög

Fyrirhugaðar breytingar sem lýst er í 5. gr. frumvarpsins um skuldbindingar í loftslagsmálum eru skref í rétta átt. Nauðsynlegt er að binda í lög markmið um samdrátt í losun eins og til dæmis hefur verið gert í Danmörku. Þó telur stjórn Landverndar að ganga verði mun lengra og ekki eigi að binda sig við 2030.

Stjórn Landverndar leggur til að 5. gr. verði breytt með eftirfarandi hætti:

Ríkisstjórnin/umhverfis og auðlindaráðherra skal ekki sjaldnar en á fimm ára fresti, og fyrst árið 2020*, leggja fyrir Alþingi tillögu að lögum um mælanlegum markmiðum og losun og bindingu gróðurhúslofttegunda af mannavöldum sem miðast annarsvegar við 10 ára tímabil og hins vegar til lengri tíma. Tillagan má ekki ganga skemur hvað varðar samdrátt í losun gróðurhúslofttegunda af mannavöldum og aðgerða til að binda gróðurhúsaloftegundir en mælt er fyrir í þjóðréttarlegum skuldbindingum er tengjast sameiginlegum markmiðum Evrópusambandsins, Íslands og Noregs og bókunum við Rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.
Og svo viðbótarákvæði til að tryggja eftirlit Alþings með því að lögbundnum markmiðum sé fylgt eftir með aðgerðum:
Ríkisstjórnin/umhverfis og auðlindaráðherra skal árlega leggja fyrir Alþingi tillögu að áætlun um aðgerðir sem miðast að því að ná markmiðum um mælanlega losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Áætlunin skal innihalda eftirfarandi þætti:

  • Þróun og stöðu losunar miðað við lögfest markmið og alþjóðlegar skuldbindingar
  • Áætlaðar loftslagsaðgerðir til lengri og skemmri tíma og áætluð áhrif þeirra á losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda.
  • Upplýsingar um mat Loftslagsráðs á áhrifum loftslagsaðgerða.
  • Stöðu rannsókna og þróunar á sviði loftslagsmála.
  • Stöðu loftslagsmála í alþjóðlegu samhengi og horfur hvað varðar breytingar á veðurfari af völdum loftslagsbreytinga.

Kolefnishlutleysi

Skilgreining á því hvaða þættir verða metnir þegar rætt er um kolefnishlutleysi árið 2040 er aðkallandi. Stjórn Landverndar telur að þar sé átt við alla losun frá starfsemi og landi á Íslandi og innifalið sé því losun frá framræstu votlendi og stóriðju. 5 gr. b frumvarpsins þarf að skýra nánar í þessu tilliti því verulega verður að auka við endurheimt votlendis til þess að losun frá landi sé kolefnishlutlaus. Enn er mikið um nýframræslu og mjög lítið af votlendi er endurheimt.

Losunarheimildir og umhverfismat

Skýrt verður að kveða á um bein losun gróðurhúsalofttegunda frá framkvæmdum og starfsemi verði hluti af umhverfismati framkvæmdanna. Þá verður sú úthlutun losunarheimilda sem Umhverfisstofnun úthlutar skv. 6. gr. frumvarpsins að vera með þaki sem lækkar með hverju ári. Þannig verði stofnuninni ekki heimilt að gefa út leyfi fyrir meira en ákveðinni heildarlosun á ári hverju og að úthlutunin dragist saman um ekki minna en 10% árlega.

Þá telur stjórn Landverndar á viðmið um 25 þúsund tonna árlega losun sem hægt er að undanskilja losunarkerfi ESB sé of hátt. Íslenska hagkerfið er lítið og 25 þúsund tonna losun er hlutfallslega mikil losun á Íslandi miðað við stærri lönd með margfalda heildarlosun á við Ísland sem EES innleiðingin á einnig við. Landvernd leggur til að markið verið sett við 10 þúsund tonn. Þá telur stjórnin að skilgreina verið „starfsstöð“ á mjög ákveðin hátt þannig að rekstaraðilar geti ekki sjálfir hlutað niður starfssemi sína í „starfsstöðvar“ og þannig komist hjá því að taka þátt í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Einnig er mjög áríðandi að ef umhverfisstofnun gefur heimild til undanþágu frá þátttöku í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, að losun frá starfseminni falli þá undir losun á ábyrgð Íslands. Annars er hætta á að losun frá þessari starfsemi félli ekki undir neitt kerfi með það að markmiði að draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda.

Lokaorð

Stjórn Landverndar telur margar af þeim breytingum sem getið er um í frumvarpinu vera jákvæðar. Þó telur stjórn Landverndar að styrkja verði umgjörð loftslagsmála til muna, bæði stjórnsýslu og lög. Þá áréttar stjórinn ábendingar Landverndar um loftslagslög í fyrri umsögnum sínum sem má finna í viðhengi.

Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Landverndar

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri

* Ríkisstjórnin hefur þegar lýst því yfir að hún vilji draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030 mv. 2005 og að kolefnishlutleysi verið náð árið 2040 . Til þess að sýna þennan vilja í verki telur stjórn Landverndar nauðsynlegt að setja þessi markmið inn í lög um loftslagsmál með skýrum hætti. Þannig verði bæði tekið fram í 5. gr. frumvarpsins að kolefnishlutleysi skuli náði fyrir 2040 og að samdrátturinn verði 40% árið 2030 mv. 2005

Tengt efni

Nýlegar umsagnir

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

Stuðningur við friðlýst svæði í Vatnsfirði

Mikill skaði myndi hljótast af virkjun á friðlýstu svæði í Vatnsfirði. Gott væri ef Orkubú Vestfjarða sem er að fullu í eigu ríkisins léti af ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.