Umhverfisfréttafólk 2022 – Leynist sigurverkefni í þínum skóla?

myndavél og hljóðnemi í náttúruinni
Senn líður að skilum í samkeppni Umhverfisfréttafólks hjá Landvernd. Allir grænfánaskólar geta sent inn verkefni í keppnina.

Skilafrestur er 28. apríl

Allir grunnskólar (unglingastig) og framhaldsskólar í grænfánanum geta skilað inn sínum verkefnum í árlega samkeppni Umhverfisfréttafólks. Skilafresturinn árið 2022 er þann 28. apríl, verkefni verða að berast í keppnina í síðasta lagi á þeim degi. 

Hvernig verkefnum má skila? 

Skapandi verkefni um umhverfismál eiga heima í samkeppninni. Hafa nemendur í þínum skóla gert skapandi verkefnu um umhverfismál og komið þeim á framfæri í skólanum eða til almennings? 

Við tökum t.d. við myndböndum, hlaðvörpum, ljósmyndum, teiknimyndasögum, listaskúlptúrum, plakötum, greinum, tímaritum, lögum, ljóðum og listaverkum. Tekið er við öllum miðlunarafurðum í keppnina og eru engar kröfur gerðar um lengd eða stærð verkefnisins.

Hvað er í verðlaun?

Verðlaunin eru af fjölbreyttum toga. Nemendur geta unnið gjafabréf í umhverfisvænum verslunum, pening, skemmtilegar upplifanir og boðsmiða í hálendisferð með öðrum nemendum í sumar svo fátt eitt sé nefnt.

Sigurvegara býðst að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni umhverfisfréttafólks og sigrinum fylgja iðulega ýmis spennandi tækifæri! 

Hvernig eru verkefnin metin?

Sérfræðingar innan Landverndar fara yfir öll verkefni sem berast og fara 10 – 15 stigahæstu verkefnin í undanúrslit. Dómnefnd skipuð reyndu fjölmiðlafólki velur síðan fyrsta, annað og þriðja sæti. 

Hvenær er tilkynnt um sigur?

Verðlaunaafhendingin fer fram á uppskeruhátíð Umhverfisfréttafólks sem haldin verður Safnahúsinu þann 6. maí. Nemendur eiga kost á því að mæta á staðinn. Ef áhugi er fyrir því þarf kennari að senda póst sem fyrst á umhverfisfrettafolk@landvernd.is. Það verður líf og fjör á uppskeruhátíðinni; fræðsla, skemmtun og veitingar í boði. 

Viltu kynnast verkefninu betur?

Sigurvegarar framhaldsskóla 2021

Sigurvegarar grunnskóla 2021

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd