Átt þú mynd af stað á Náttúrukortinu sem þú vilt deila með öðrum? Sendu okkur línu. landvernd.is

Vatnsfjörður er einn þeirra fjarða sem ganga í Breiðafjörð að norðan. Fjörðurinn er vinsælt göngu- og útivistarsvæði og er frægur viðkomustaður ferðamanna vegna náttúrufegurðar og gróðursældar. Vatnsfjörður og umhverfi hans hefur verið friðland frá því árið 1975 vegna einstakrar náttúru og landslagsheildar sem einkennir sunnanverða Vestfirði og Breiðafjörð en einnig nær friðlandið norður á Glámuhálendið. Náttúra svæðisins einkennist af kjarri vöxnu heiðalandslagi og fjölbreyttu dýra- og fuglalífi. Í Vatnsfirði má finna einhverja gróskumestu birkiskóga á Vestfjörðum.

Á vef Umhverfisstofnunar má lesa um friðlýsingu, náttúrufar og sögu Vatnsfjarðar.

Virkjunarhugmyndir

Orkubú Vestfjarða ehf. rannsakar nú möguleikann á því að reisa 20-30 MW vatnsaflsvirkjun í firðinum sem myndi nýta afrennsli Hólmavatns og Flókavatns og yrði vatnsfall virkjað niður í Vatnsdal. Staðsetning virkjunar af slíkri stærðargráðu innan friðlands myndi hafa ótvíræð neikvæð áhrif á náttúrufar, ásýnd svæðisins og náttúruupplifun ferðafólks.

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is