Formaður Landverndar Tryggvi Felixson skrifar
Vindmyllur verða sífellt hagkvæmari kostur og vaxandi reynsla er af notkun þeirra víða um heim, sem nýta má hér á landi til að taka yfirvegaðrar og skynsamlegar ákvarðanir. Ljóst er að bygging vindorkuvera getur orðið mjög umdeild, einkum vegna sjón- og hljóðmengunar, en einnig vegna áhrif á fuglalíf. Því er mikilvægt að vanda til undirbúnings þannig að koma megi veg fyrir óþarfa deilur og átök.
Fjórar og hálf Kárahnjúkavirkjun í bígerð
Síðastliðið vor bárust fréttir af því að tíu aðilar hefðu hug á að reisa samtals 34 vindorkuver á Íslandi. Erlendir aðilar standa að baki a.m.k. 19 af þessum tillögum. Ef svo afar ólíklega vildi til að öll þessi áform næðu fram að ganga yrði uppsett afl í vindorku á við fjórar og hálfa Kárahnjúkavirkjanir. Fátt bendir til þess að þörf verði fyrir meira afl í orkukerfi landsins á næstu árum og því mætti álykta sem svo að umræða um vindorku sé ekki tímabær. En reynslan sýnir að skjótt geta skipast veður í lofti og gott að vera vel undir það búinn.
Tvö svæði skoðuð
Vindorka hefur verið til umræðu hér á landi í nokkur ár og í skýrslu verkefnisstjórnar fyrir rammaáætlun 3, sem kom fram árið 2016, en hefur enn ekki verið afgreidd af Alþingi, voru tvö svæði fyrir vindorkuver tekin til skoðunar. Annað fór í nýtingarflokk (við Blönduvirkjun) en hitt í biðflokk (við Búrfellsvirkjun).
Landvernd hefur setti fram sjónarmið og lagt til stefnu um virkjun vindorku á Íslandi. Samtökin gáfu út fyrsta heilstæða rit á Íslandi um þennan orkugjafa í ritinu Virkjun vindorku á Íslandi: Stefnumótunar- og leiðbeiningarrit Landverndar árið 2018. Málið var einnig til umfjöllunar á síðasta aðalfundi samtakanna.
Engin þörf fyrir vindorku i bili
Landvernd telur að ekki sé þörf fyrir vindorkuvirkjanir eins og staðan er nú og þó öll áform um orkuskipti í samgöngum gangi eftir ef marka má greiningu Orkuveitu Reykjavíkur. Landvernd hvetur því stjórnendur fyrirtækja og sveitarfélaga til að rasa ekki um ráð fram. Þá hafnar Landvernd því alfarið að vindorkumannvirki verði sett niður á verðmætum náttúrusvæðum eða þar sem fuglalífi stafar af þeim hætta. Þá mega vindorkuver ekki skerða verðmætar landslagsheildir, spilla ásýnd lands og víðernum.
Almenningur komi að ákvarðanatöku
Sveitarstjórnir gegna lykilhlutverki við ákvarðanir um staðarval vindorkumannvirkja. Landvernd telur skynsamlegt að sveitarfélög marki sér langtímastefnu um vindorkuver í skipulagi, þar sem aðkoma almennings að ákvarðanatöku sé tryggð á fyrstu stigum ferlisins. Í framangreindri skýrslu Landverndar eru leiðbeiningar um 36 efnisatriði sem þarf að fjalla um þegar mat er lagt á byggingu vindorkuvera. Ef sveitarfélög fylgja þeim leiðbeiningum aukast líkur á að ásættanleg niðurstaða náist.
Forðumst kapphlaup sem endar með ósköpum
Í sumar hafa þingmaðurinn Ari Trausti Guðmundsson og lögfræðingurinn Skúli Thoroddsen rökrætt í Fréttablaðinu hvort vindorka eigi heima í rammaáætlun. Sá síðarnefndi telur svo ekki vera. Landvernd telur að best sé fyrir alla aðila að vindorkuver falli undir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 (rammaáætlun) svo útiloka megi þá staði sem teljast varhugaverðir vegna neikvæðra áhrifa. Að öðrum kosti má reikna með kapphlaupi sem bæði kostar mikið fé og getur endað með ósköpum. Það er nauðsynlegt að Alþingi taki strax af allan vafa um þetta atriði og felli vindorku formlega undir framangreind lög.
Tryggvi Felixson, formaður Landverndar
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. október 2020