- UM LANDVERND
Kynntu þér Landvernd
- VIÐFANGSEFNI
- GRÆN PÓLITÍK
- STYÐJA
Stuðningur
Verslun Landverndar
- VERKEFNI LANDVERNDAR
Innkaupakarfa
No products in the cart.
100% Örugg verslun!
Í Alviðru var langt árabil rekinn náttúruskóli og fræðslusetur. Á tímabili sóttu árlega á milli tvö og þrjú þúsund grunnskólanemar setrið heim til fræðslu og útivistar. Eftir hlé á starfseminni undanfarin ár er verið að endurreisa fræðslustarfið.
Reynslan sýnir að útvera og náttúrumennt eru góðir samherjar. Í fræðslusetrinu er góð aðstaða í bæjarhúsinu og stórt athafnasvæði í hlöðunni. Þá veitir dagsdvöl í Alviðru aðgang að fjölbreyttri náttúru til að skoða og njóta. Hlíðar Ingólfsfjalls eru góður vettvangur fræðslu um jarðfræði. Sogið er kjörið til að fjalla um lífið í vatninu og þá fugla sem njóta þar lífsviðurværis. Öndverðarnes II er náttúrulegur birkiskógur, þar liggur gönguleið að staðnum þar sem lindáin Sogið og jökuláin Hvítá mætast. Blómaskrúð í Alviðru er mikið og gróður fjölbreyttur, kjörinn bæði til að njóta hans og til að greina plönturnar. Tæki og handbækur eru á staðnum til að styðja kennsluna. Auðvelt er að velja úr verkefnum sem passa mismunandi aldursskeiðum.
Margt er að sjá í Alviðru og nágrenni. Þegar gengið er í hlíðar Ingólfsfjalls og þar skoðað sæbarið grjót varpar það ljósi á þá staðreynd að sjór stóð mun hærra í lok ísaldar en nú. Úr hlíðum Ingólfsfjalls er gott útsýni og sést m.a. yfir stórárnar þrjár, Sogið, Hvítá og Ölfusá, og ef gott skyggni er má sjá til Heklu, Tindfjalla og Eyjafjallajökuls. Á leiðinni má sjá menningarminjar sem vert er að staldra við og skoða.
Magnús Jóhannesson bóndi í Alviðru gaf Landvernd og Árnessýslu jarðirnar Alviðru í Ölfusi og Öndverðarnes II í Grímsnesi árið 1973 og árið 1981 var gerð skipulagsskrá yfir eignirnar. Alviðra var gerð að sjálfseignarstofnun undir nafninu Alviðra, landgræðslu- og náttúruverndarstofnun, enda eru þar tækifæri til margs konar fræðslu og náttúruskoðunar. Þar er húsnæði fyrir allt að 30 manns.
Elstu heimildir um búsetu í Alviðru eru frá því um siðaskipti þegar jörðin sem áður var eign kirkjunnar varð konungseign.
Samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarsambandi Suðurlands er jörðin Alviðra 651 hektari að stærð. Nokkur hluti jarðarinnar er ógróið land á Ingólfsfjalli.
Stjórn Landverndar hefur ákveðið að kljúfa fræðsluverkefni sín frá öðrum verkefnum og stofna Fræðslumiðstöð umhverfis og náttúru. Markmið hennar er að efla þekkingu og skilning á náttúru og umhverfi í þeim tilgangi að stuðla að sjálfbærri þróun. Innan hennar yrðu Grænfánaverkefnið, Alviðra, Vistvernd í verki og Bláfáninn. Vonandi verður það til að efla verkefnin og styrkja þau fjárhagslega.
Opinn veiðidagur verður í Alviðru laugardaginn 11. ágúst. Vel hefur veiðst í Soginu undanfarnar vikur og því enn meira gaman að koma og taka þátt. 13 laxar veiddust einn daginn og yfir 80 laxar eru komnir á land í sumar.
Árið 2007 var gott ár í Alviðru. Aðsókn var mjög góð, fjölmargir skólar komu með nemendur sína til Alviðru til þessa njóta þess sem staðurinn hefur upp á að bjóða. Alviðra vill þakka kennurum, öðrum starfsmönnum og nemendum sem hingað komu farsælt samstarf og ánægjuleg kynni.
Leikskólar heimsækja Alviðru í auknum mæli og þá einkum „útskriftarhópar“ leikskólanna. Í Alviðru er í boði tvenns konar dagskrá fyrir leikskóla.
Kennaranámskeið var haldið í Alviðru 10. október s.l. Yfirskrift námskeiðsins var „Nám og kennsla um lífríkið í fersku vatni“ Leiðbeinandi á námskeiðinu var Stefán Bergmann höfundur bókarinnar „Lífríkið í fersku vatni“ Fullbókað var á námskeiðið en þátttakendur voru 16. Unnið var bæði úti og inni, farið var í þætti eins og hvar er best að taka sýni og hvað er að finna í vatninu.
Laugardaginnn 21. júní verður opinn veiðidagur í Alviðru frá kl. 11-18. Á opnum veiðidegi gefst þeim sem ekki stunda stagveiði alla jafna kost á að kynnast þessari skemmtilegu iðju. Þetta er fimmta árið í röð sem Alviðra og Stangveiðifélag Reykjavíkur hafa samvinnu um opinn veiðidag í Alviðru.
Skrifstofa Landverndar
Guðrúnartúni 8,
105, Reykjavík, IS.
Opin á virkum dögum kl. 10:00-14:00.
Kt. 640971-0459
Sjáðu á KORTI
Netfang: landvernd@landvernd.is
Sími: 552 5242
Messenger: m.me/landvernd
Hafa samband