Austurengjar eru jarðhitasvæði á Krýsuvíkursvæðinu.
Austurengjar
Austurengjahver er hluti af háhitasvæðinu sem oftast er kennt við Krýsuvík hjá Kleifarvatni á Reykjanesi sem er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Austurengjahver og Seltún, sem er vinsælasti áfangastaðurferðamanna á Krýsuvíkursvæðinu, eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar.

Austurengjar eru jarðhitasvæði á Krýsuvíkursvæðinu.

Vinsælt útivistar- og ferðamannasvæði

Náttúra þar er að mestu ósnortin og laðar að sér bæði ferðafólk og heimamenn. Mýrlendið austan þjóðvegar suður af Kleifarvatni hefur nokkra sérstöðu hvað gróður, dýralíf og verndargildi varðar, enda eina mýrlendið á Reykjanesskaganum. HS Orka gerir ráð fyrir að nýta jarðvarma úr Austurengjum fyrir jarðvarmavirkjun til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni. Raskið sem tilheyrir fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum myndi hafa áhrif á allt svæðið, gjörbreyta svip Kleifarvatns og stofna lífríki þess í hættu.

KRÝSUVÍKURSVÆÐIÐ

Krýsuvíkursvæðið nær yfir nokkur jarðhitasvæði sem tengjast eldstöðvakerfi sem venjulega er kennt við Krýsuvík. Áformuð virkjunarsvæði eru Sveifluháls, Austurengjar, Trölladyngja og Sandfell. Jarðhita er jafnframt að finna við Syðri Stapa í Kleifarvatni, við Köldunámur og við Hverinn eina.

Jarðhitinn á Krýsuvíkursvæðinu er við jaðra gos- og sprungureinar eldstöðvakerfisins. Nærri miðju þess liggur móbergshryggurinn Núpshlíðarháls en beggja vegna hans eru hraunflákar og gossprungur frá síðustu árþúsundum. Þar sem móbergið hefur þést af jarðhitaummyndun renna lækir út á hraunin og hafa myndað þar gróðurlendi, t.d. Höskuldarvelli, Selsvelli, Vigdísarvelli og Tjarnarvelli. Utan jarðhitasvæðanna er rennandi vatn á yfirborði nánast óþekkt á Reykjanesskaga vestan Hellisheiðar. Áform um að virkja á þessum jarðhitasvæðum stefna vatni og lífríki í hættu. Rúmlega 60% landsmanna búa í nánd við óspillta náttúru Krýsuvíkursvæðisins og Reykjanesskagans. Svæðið er því kjörið til útivistar, auk þess sem náttúra skagans minnir um margt á óspillt víðerni hálendisins. Hugmyndir hafa lengi verið uppi um eldfjallaþjóðgarð á Reykjanesskaganum en þar gengur úthafshryggur á land á mótum tveggja jarðskorpufleka með sýnilegum ummerkjum eldsumbrota liðinna árþúsunda.
Rúmlega 60% landsmanna búa í nánd við óspillta náttúru Krýsuvíkursvæðisins og Reykjanesskagans. Svæðið er því kjörið til útivistar, auk þess sem náttúra skagans minnir um margt á óspillt víðerni hálendisins. Hugmyndir hafa lengi verið uppi um eldfjallaþjóðgarð á Reykjanesskaganum en þar gengur úthafshryggur á land á mótum tveggja jarðskorpufleka með sýnilegum ummerkjum eldsumbrota liðinna árþúsunda.

Umhverfi
Jarðhitasvæðið við Austurengjar er um 1,5 km austan við Grænavatn í Krýsuvík. Svæðið er fremur jafnlent með lágum grágrýtisásum og hallar norður til Kleifarvatns. Jarðhitinn fylgir að nokkru leyti sprungum með N-S stefnu frá Austurengjahver, sem er syðst á svæðinu, um 3 km norður í Kleifarvatn.
Hveravirkni jókst mikið við Austurengjar í jarðskjálftum 1924 og síðan þá hefur Austurengjahver verið mestur hvera á svæðinu, ólgandi leirugur vatnshver. Norður frá honum er fjöldi smærri leirhvera. Leir- og gufuhverir koma fram syðst í Kleifarvatni þegar vatnsborð stendur lágt.
Svæðið er að mestu ósnortið en nokkuð markað af jarðvegsrofi. Berggrunnur er að mestu grágrýti og lágar móbergshæðir frá síðari hluta ísaldar.
Jarðhitasvæðið við Austurengjar er sérstakt fyrir það að það liggur alveg utan við eldstöðvakerfi Krýsuvíkur og þar eru ekki ummerki um eldvirkni á nútíma. Jarðhitasprungurnar eru aukinheldur nokkuð í ætt við þverbrotabelti Suðurlands sem teygir sig frá Heklurótum vestur yfir Suðurland og út eftir Reykjanesskaga, allt út á Reykjanes.
Nokkuð er um að ferðamenn gangi að Austurengjahver frá Grænavatni.

Virkjanahugmyndir
Krýsuvíkursvæðið er metið sem ein heild í mati Orkustofnunar og talið 89 km² að stærð með vinnslugetu sem nemur 445 MW rafafls til 50 ára. Þar með væri það þriðja aflmesta jarðhitasvæði landsins á eftir Hengilssvæði og Torfajökulssvæði. Þessi túlkun á stærð svæðisins hefur verið dregin í efa enda ekki í samræmi við niðurstöður borana frá því um 1970. Athuganir á svæðinu benda til að samanlögð vinnslugeta svæðanna sé um 120 MW rafafls til 50 ára. Fjórar virkjunarhugmyndir á Krýsuvíkursvæðinu hafa verið til umfjöllunar í rammaáætlun. Sandfell og Sveifluháls voru þar í 2. áfanga sett í nýtingarflokk en Trölladyngja og Austurengjar í biðflokk.
Ennfremur eru virkjunarhugmyndirnar ekki taldar sjálfbærar og útlit fyrir að orkan úr svæðunum klárist á fáeinum áratugum, en til að virkjun geti talist sjálfbær þarf svæðið að nýtast í að minnsta kosti 200-300 ár.
Boraðar yrðu 10-15 holur til jarðvarmavirkjunar ef af fyrirhuguðu 100 MW raforkuveri á Austurengjum verður. Raskið sem fylgir myndi hafa áhrif á svip Kleifarvatns, t.d. með tilheyrandi línulögnum, en í dag er Kleifarvatn tært íslenskt fjallavatn, að mestu umlukið fjöllum.

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is