Allir þeir skógar sem vaxið hafa upp á Íslandi frá lokum síðustu ísaldar hafa því verið birkiskógar því birki er eina skógmyndandi tegundin í íslensku flórunni. Hér finnast þó fleiri tré og runnar eins og gulvíðir, blæösp og reynir en þær tegundir er algengt að finna innan um birkið.

Ísland er frábrugðið nágrannalöndum sínum. Fjarlægð landsins frá meginlöndum hefur gert það að verkum að tiltölulega fáar tegundir plantna og dýra hafa borist hingað. Meðal þeirra plantna sem fundu sér leið yfir hafið til Íslands er birki. Allir þeir skógar sem vaxið hafa upp á Íslandi frá lokum síðustu ísaldar hafa því verið birkiskógar því birki er eina skógmyndandi tegundin í íslensku flórunni. Hér finnast þó fleiri tré og runnar eins og gulvíðir, blæösp og reynir en þær tegundir er algengt að finna innan um birkið.

Sorry, we couldn't find any posts. Please try a different search.

Birkið á Íslandi einkennist af nokkuð sérkennilegu vaxtarlagi. Þótt það geti vaxið þráðbeint upp í loftið getur það allt eins vaxið meðfram jörðinni og verður gjarnan hlykkjótt eða bugðótt. Algengt er að sjá birkitré sem virðast aldrei almennilega hafa ákveðið sig í hvaða átt þau ættu að vaxa næst. Þau tré köllum við í daglegu tali kræklubirki. Ekki eru allir á sama máli um hvers vegna birkið hér á landi hefur þetta furðulega vaxtarlag. Tré eyða mikilli orku í að verða hávaxin og bein svo þau geti með sem bestum hætti keppt við nágranna sína um ljós. Það virðist því vera nokkuð öfugsnúin þróun fyrir trjátegund sem hefur eytt milljónum ára í að þróa með sér beint og hátt vaxtarlag að fara nú að vaxa í hlykkjum og kræklum. Sumir halda því fram að ástæðan fyrir vaxtarlaginu sé erfðablöndun við hinn náskylda fjalldrapa. Aðrir vilja meina að það sé veðráttunnar sök hvernig komið er fyrir birkinu.

Hver svo sem ástæðan fyrir tilurð íslenska kræklubirkisins kann að vera er nokkuð ljóst að vaxtarformið er aðlögun birkisins að íslenskum aðstæðum. Á Íslandi hefur birkið nefnilega þurft að standast eldgos og öskufall, náttúruvár sem ekki er sjálfsagt að tré geti staðið af sér. Birkiskógur vex nú upp undir Heklurótum í þeim tilgangi að binda ösku sem kann að berast þaðan í næsta eldgosi. Þessu hlutverki geta lægri gróðursamfélög á Íslandi ekki sinnt þar sem öskufallið kæfir þau.

Sérstaða birkisins á Íslandi er hvorki bundin við útlit né erfðafræði. 

Birkiskógar eru fjölbreytt vistkerfi þar sem fjöldi lífvera lifir í samlífi hver við aðra. Þetta samlífi hefur fengið að þróast óáreitt í mörg þúsund ár við staðbundnar aðstæður og margar samlífistegundir geta jafnvel ekki lifað án birkisins. Í samlífi við birki vaxa meira en hundrað tegundir sveppa, langflestar lítið eða ekkert rannsakaðar. Botngróðursplöntur í birkiskógum eru áberandi á válista íslenskra plantna og meirihluti þeirra fléttutegunda sem flokkaðar eru sem tegundir í bráðri útrýmingarhættu (e. Critically endangered) á Íslandi eru bundnar við stofna og greinar birkis.

Nú er aðeins brot eftir af þeim náttúrulegu birkiskógum sem prýddu Ísland áður fyrr. Með því að vernda og endurheimta birkiskóga er ekki aðeins verið að vernda einstaka íslenska birkið, heldur allar þær tegundir sem hafa þróast og lifað í samlífi við birkið. Verndun og endurheimt birkiskóga er brýn aðgerð til að vernda skógana sem vistkerfi og bjarga tegundum í útrýmingarhættu.

Teigsskógur er einstakt svæði þar sem náttúrulegur birkiskógur mætir fjöru, landvernd.is
Teigsskógur er einstakt svæði þar sem náttúrulegur birkiskógur mætir fjöru.

Tengt efni