3. Aðgerðaáætlun og markmið

3. Aðgerðaráætlun og markmið. Skólar á grænni grein vinna eftir skrefunum sjö, þriðja skrefið er að setja sér markmið og gera aðgerðaráætlun, landvernd.is

Skólar á grænni grein vinna eftir skrefunum sjö, þriðja skrefið er að setja sér markmið og gera aðgerðaráætlun. 

Hvað viljið þið gera? Hverju viljið þið breyta?

 Nemendur og starfsfólk taka virkan þátt.

Umhverfisnefnd gerir áætlun um aðgerðir og setur markmið sem tengjast því þema sem unnið er að. 

Gott er að setja markmið með niðurstöður mats á stöðu mála í huga (skref 2). 

Aðgerðaáætlun er kjarninn í starfi Skóla á grænni grein og aðstoðar við að halda utan um umhverfisstarfið í skólanum. 

Hvað ætlum við að gera í skólanum og hvernig?

Niðurstöður umhverfismatsins (gátlistanna) í skrefi tvö veita skólum mikilvægar upplýsingar um stöðu mála í skólanum og eru þær notaðar til að gera markmið og aðgerðaráætlun fyrir næsta tímabil. 

Skólar setja sér 5-6 markmið alls í þeim þemum sem unnið er að á hverju tímabili. Oft þarf margar aðgerðir til að ná hverju markmiði.

 Miðað er við að skólar vinni að 1-2 þemu á hverju grænfánatímabili. 

„Markmiðin þurfa að vera skýr og raunhæf. Að hverju viljið þið stefna?“

Markmiðablað – Aðgerðaáætlun

Mikilvægt er að hafa yfirsýn yfir grænfánavinnuna í skólanum. Mælt er með því að notast við markmiðablað/aðgerðaáætlun þar sem tilgreind eru markmið, aðgerðir, hver er ábyrgur, tímaramma o.s.frv.

Notkun á slíku skjali – sem er geymt á miðlægum stað, líkt og sameign eða í hvers konar skýi sem nefndin hefur aðgang að gerir grænfánastarfið gagnsærra og styður við það að dreifa ábyrgð á vinnunni. Gott er að opna skjalið á hverjum umhverfisnefndarfundi og skoða hvernig gengur.

Hafa skal í huga

  • Voru markmiðin og aðgerðaráætlun gerð út frá niðurstöðum mats á stöðu umhverfismála (skref 2)? 
  • Höfðu nemendur vægi við gerð markmiðanna?
  • Var unnið lýðræðislega innan skólans að gerð markmiðanna?
  • Eru markmiðin vel sýnileg (t.d. á veggjum skólans, á umhverfisfræðslutöflu eða heimasíðu)?
  • Hafa allir í skólanum verið fræddir um markmiðin?
  • Hefur verið unnið markvisst að markmiðunum?

 

Dæmi um markmið í þemanu vatn

Skýr markmið

Aðgerðamiðuð markmið fela í sér einhverja gjörð, þ.e. sagnorð. Hvað ætlum við að gera? Hvað eiga nemendur að gera? Hvað eiga þau að geta gert að tímabili loknu? Hvert er markmiðið?

Dæmi: Að nemendur kanni og komist að því hvaðan vatnið kemur sem notað er í skólanum. 

Aðgerðir 

Aðgerðaáætlunin felur í sér að aðgerðir að markmiðum eru skilgreindar. Hvað á að gera til að ná markmiðinu? Aðgerðir geta verið margar og mismunandi en eiga það sameiginlegt að unnið er að sama markmiði. 

Dæmi: Hafa samband við veitustöð, hvaðan kemur vatnið? Skoða vatnsból, hvaðan kemur vatnið þangað. Heimsækja lagnarými skólans. Skoða kranann og rekja pípurnar. Rannsaka: Hvert fer það sem fer í niðurfallið. Spyrja m.a. umsjónamann fasteigna eða einhvern aðila hjá vatnsveitunni. 

Ábyrgð

Ábyrgð á verkefnum þarf að vera dreifð. Verkefni geta verið á ábyrgð nemenda, starfsfólks, stjórnenda, umsjónarfólks fasteigna o.s.frv.

Dæmi: Umsjónarmaður fasteigna, kennarar, nemendur, skrifstofustjóri. 

Efni og áhöld

Hvað þarf til að þessi aðgerð heppnist? Hvaða efni/áhöld þurfum við?

Dæmi: Sími – til að hringja t.d. í veitur. Tölva – til að skrifa fyrirspurn á vatnsveituna. Aðgangur að lagnarými. 

Tímarammi

Grænfánatímabilið tekur að jafnaði tvö ár. Það er tíminn sem það tekur skóla að stíga skrefin sjö. Stundum tekur þessi vinna styttri tíma og stundum lengri. Að tímasetja markmið og aðgerðir hjálpar til að hafa yfirsýn yfir vinnuna á þessum tveimur árum. Einnig er hægt að setja aðkallandi verkefni á dagskrá strax og önnur verkefni á dagskrá síðar. 

Dæmi: Hafa samband við vatnsveitufyrirtæki að hausti 202X, Umsjónarmaður fasteigna sýnir nemendum lagnarými í nóvember 2021. o.s.frv. 

Mat

Hver er mælikvarðinn á að markmiðið hafi náðst? Gott er að meta jafnt og þétt hvort að markmiðum hafi verið náð, hvernig gangi og hvort að það þurfi að endurskoða aðgerðir/markmið. 

Dæmi: Geta nemendur sagt frá því t.d. á skólaskemmtun, eða á skapandi hátt hvaðan vatnið kemur í skólann þeirra?

 

Dæmi um markmið í þemanu
Neysla og úrgangur

Mikilvægt er að markmið skóla séu SMART, skýr, mælanleg, aðgerðamiðuð, raunhæf og tímasett, landvernd.is
Dæmi um markmið innan þemans „neysla og úrgangur“ gæti verið „að takmarka þann úrgang sem fer frá skólanum“. Aðgerðirnar gætu þá t.d. verið „að halda utan um magn úrgangs sem frá skólanum fer“, „að flokka allan úrgang“ og „að molta sjálf lífrænan úrgang“.
„Grænfánavinnan er samstarf nemenda og starfsfólks í skólanum“

Samantekt

  1. Veljið þema (Skref 1. Umhverfisnefnd velur þema, ýmist sjálf eða í samráði við samnemendur/ starfsfólk)
  2. Metið stöðuna út frá því þema (skref 2.)
  3. Byggið markmið á niðurstöðu úr umhvefismati í 2. skrefi, veljið viðfangsefni til að fást við og setjið fram markmið.
  4. Ákveðið hvaða aðferðum er hægt að beita til að ná markmiðinu.
  5. Ákveða hver eða hverjir eru ábyrgir fyrir hverju verkefni.
  6. Ákveða tímamörk fyrir hvert verkefni fyrir sig; hvort settu markmiði skuli náð á skömmum tíma eða á lengra tímabili.
  7. Ákveða þarf hvernig á að meta árangurinn af hverju verkefni. Er verkefninu lokið? Hvernig gekk? 

Ganga þarf úr skugga um að markmið séu raunhæf og tímasett. Óraunhæf markmið hafa letjandi áhrif og standa umhverfisstarfi fyrir þrifum. 

Forgangsröðum

Hafi umhverfismatið leitt í ljós að skólinn þurfi að setja sér mörg markmið er óraunhæft að sinna þeim öllum í einu. Best er að forgangsraða og þannig vinna fyrst að fáum og aðkallandi verkefnum. Minna aðkallandi verkefni eru unnin síðar.

 

Skólar á grænni grein setja sér markmið sem eru skýr, tímasett og framkvæmanleg, landvernd.is

Markmiðasetning í grænfánaskólum

Skólar á grænni grein setja sér markmið sem eru skýr, mælanleg, aðgerðamiðuð, framkvæmanleg og tímasett.
Nánar

Virkjum nemendur

- undirbúum þau fyrir áskoranir framtíðarinnar

Sendu okkur línu og við hjálpum þér að komast á græna grein