Námskeið um endurheimt vistkerfa – Vistheimt

Námskeið um endurheimt vistkerfa - Vistheimt

Mikið var um að vera í Sagnagarði, fræðslusetri Landgræðslunnar í Gunnarsholti miðvikudaginn 20. ágúst síðastliðinn þegar 15 grunnskólakennarar frá Þjórsárskóla, Hvolsskóla og Grunnskólanum Hellu sátu námskeið um vistheimt. Námskeiðið er hluti skólaverkefnis um endurheimt vistkerfa (vistheimt) sem Landvernd vinnur að í samstarfi við Landgræðsluna og skólana þrjá. Verkefninu, sem stýrt er af Rannveigu Magnúsdóttur hjá Landvernd, er ætlað að stuðla að aukinni þekkingu á meðal grunnskólabarna á mikilvægi vistheimtar raskaðra vistkerfa, ekki bara til endurheimtar gróðurs- og jarðvegsgæða heldur einnig til viðhalds loft- og vatnsgæða sem og lífbreytileika svo eitthvað sé nefnt. Námskeiðið hófst á kynningu ólafs Arnalds og Ásu Aradóttur prófessora við Landbúnaðarháskóla Íslands, á efni bókar sinnar „Að lesa landið og lækna það„ sem kemur út í lok árs. Þetta efni mun nýtast kennurum grunnskólanna í kennslu á vistheimt. Guðmundur Ingi Guðbrandsson frá Landvernd sá um kynningu á aðferðafræði við gróðurmælingar í tilraunareitum. Allir þátttakendur fóru svo út í tilraunareiti sem börn í 5. bekk í Grunnskólanum Hellu höfðu sett út í vor undir handleiðslu Landgræðslunnar og Landverndar (samsvarandi tilraunir voru einnig settar upp hjá hinum skólunum tveimur). Tilraunareitirnir voru mældir í bak og fyrir og síðan var unnið úr gögnunum þegar aftur var komið í Sagnagarð. Almenn ánægja var með námskeiðið á meðal þátttakenda og námskeiðshaldara og við hlökkum öll til að hjálpa börnunum í skólunum þremur að mæla gróðurinn í tilraunareitunum í byrjun september. Við þökkum Landgræðslunni, staðarhöldurum og matráðskonum í Gunnarsholti fyrir höfðinglegar móttökur.