Verndum hálendi Austurlands fyrir frekari spjöllum

Leirdalur með Leirdalsvarni og Leirdalsá falla´i Geitdalsá. Í Leirdal hugsar Arctic Hydro sér upphafslón Geitdalsárvirkjunar. Sér í Hornbrynju t.h. Verndum hálendi Austurlands fyrir frekari spjöllum, landvernd.is
Aðalfundur Landverndar 2020 ályktar um verndun hálendis Austurlands.

Ályktanir Aðalfundar Landverndar 2020

Verndum hálendi Austurlands fyrir frekari spjöllum

 

Aðalfundur Landverndar kallar eftir því að stjórnvöld komi í veg fyrir að hálendi Austurlands verði raskað frekar en orðið er með virkjunum og tengdum framkvæmdum.

Þetta á m.a. við um Hraunasvæðið þar sem Orkustofnun hefur úthlutað rannsóknaleyfum til virkjanaundirbúnings í landshluta þar sem Óbyggðanefnd hefur enn ekki ráðist í lögboðna greiningu á mörkum milli þjóðlendna og eignarlanda.

Leirdalur með Leirdalsvarni og Leirdalsá falla´i Geitdalsá. Í Leirdal hugsar Arctic Hydro sér upphafslón Geitdalsárvirkjunar. Sér í Hornbrynju t.h. Verndum hálendi Austurlands fyrir frekari spjöllum, landvernd.is
Myndir sýnir Leirdal með Leirdalsvatni og Leirdalsá falla í Geitdalsá. Í Leirdal hugsar Arctic Hydro sér upphafslón Geitdalsárrvirkjunar. Sér í Hornbrynju t.h. Ljósmynd: Hjörleifur Guttormsson.

Greinagerð

Í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar og aðliggjandi Hraunaveitna austan Snæfells voru gefin fyrirheit um að ekki ætti að virkja meira fyrir austan. Nú er hins vegar hafið nýtt virkjanaáhlaup undir formerkjum „smávirkjana“  allt að 9,9 megavöttum að afli. Margar slíkra virkjana eru stækkanlegar og hefðu því átt að vera teknar til umfjöllunar innan rammaáætlunar.  Í þessu sambandi virðist sem Orkustofnun hafi vanrækt eftirlitshlutverk sitt.

9,9 megavatta virkjanir geta vart kallast „smávirkjanir“

Nafngiftin Hraun nær yfir víðlent hálendissvæði frá Eyjabökkum við Snæfell austur yfir vatnaskil, um innanverðan Geitdal og Háups að fjallveginum yfir Öxi og niður í drög suðurfjarða (Álftafjarðar, Hamarsfjarðar, Fossárdals og Berufjarðar). Hraunum tengist til norðurs Hornbrynja (961 m) og norðan Hornbrynjuslakka er langur Hraungarður (1002 m) milli Gilsárdals og Geitdals. Með Hraunaveitu  var eftir síðustu aldamót veitt vatni af vestasta hluta Hrauna (Sauðár, Keldá) til Kárahnjúkavirkjunar. Þá var vatnsyfirborð Ódáðavatna hækkað með stíflu um 2 m á sínum tíma og miðlað til Grímsárvirkjunar. Eftir stendur samt afar víðlent afréttasvæði, jarðfræðilega sérstætt og ósnortið nema af beit og nokkrum vegslóðum. Það rís hæst í Þrándarjökli (1248 m) og Hofsjökli eystra (1180 m) og tengist Lónsöræfum á vatnaskilum. „Yfir Hraun“, fyrrum nefnd Sviðinhornahraun, lá alfaraleið úr Fljótsdal til Berufjarðar og Hamarsfjarðar, nú heillandi gönguleið. Vestan vatnaskila á Hraunum er afréttin Villingadalur fram með óskertri og fossum prýddri Sultarranaá og  Fellsá og í hana fellur Strútsá með tvíþrepa Strútsfossi sem gefur Hengifossi ekki eftir um glæsileik. Óraskaðar eru umræddar afréttir á Hraunum kjörinn efniviður í sérstakt náttúruverndarsvæði, en gætu í framtíðinni tengst miðhálendisþjóðgarði.

Myndin sýnir Bótarhnjúk sunnan Leirdals í forgrunni. Drög Hamarsdals, vötn á Hraunum, Geldingafell á miðri mynd og norðaustanverður Vatnajökull í fjarska. Ljósmynd: Hjörleifur Guttormsson

Verndum náttúruna

Það vekur furðu að stjórnvöld hafi gefið kost á samningaviðræðum um orkunýtingu og víðtækt vatnsréttindi á svæðum innan hálendis Austurlands þar sem enn hefur ekki verið gengið frá mörkum þjóðlendu og eignarlanda. Verulegur hluti þeirra svæða sem nú liggja undir á Hraunum sbr. áform um Geitdalsvirkjun og Hamarsárvirkjun eru á lendum ríkisins og í almannaeigu.  Varhugavert er, nema brýnir samfélagslegir hagsmunir kalli á, að ráðstafa nýtingu lands og vatna til einkaaðila, ekki síst áður en úrskurður um þjóðlendumörk liggur fyrir. 

Næg raforka er í landinu

Ekki verður séð að neinir slíkir hagsmunir séu í húfi eystra eða á landsmælikvarða. Næg raforka er í landinu til að mæta eðlilegri eftirspurn og fyrirséð að svo verður áfram.

Taktu afstöðu með náttúrunni, gakktu í lið með Landvernd

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd