Vistheimt með birki. Söfnum birkifræjum og endurheimtum íslensku birkiskógana

Birkisöfnunarbox má nálgast víða. Söfnun birkifræja er hafin. landvernd.is
Landsátak er hafið í söfnun og dreifingu birkifræs. Endurheimt birkiskóga mikilvæg fyrir loftslagið og lífbreytileika á Íslandi.

Landsátak í söfnun birkifræs hófst á áttræðisafmæli Ómars Ragnarssonar, á Degi íslenskrar náttúru þann 16. september 2020. Verkefninu var formlega ýtt úr vör á Bessastöðum þar sem Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra tíndu fræ af birki við Bessastaði í öskju sem framleidd var í tilefni af átakinu. Landvernd tekur þátt í verkefninu af krafti og stjórn Landverndar lagði átakinu lið með því að safna fræi í Vigdísarrjóðri og á Öndverðarnesi.

Birkifræjasöfnun í Alviðru, umhverfisfræðslusetri Landverndar, landvernd.is
Söfnun á birkifræjum í Alviðru

Tökum öll þátt og söfnum fræjum

Við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að fara og tína birkifræ á meðan veður leyfir og reklarnir með fræjunum eru enn á trjánum. Hægt er að fá söfnunarbox á starfsstöðvum Skógræktarinnar, Landgræðslunnar, Terra og í Bónus verslunum. Söfnunartunnur eru komnar í Bónus verslanir. Sjá allar upplýsingar um átakið á https://birkiskogur.is/

Náttúrulegur birkiskógur hefur tekið sér bólfestu á Skeiðarársandi, landvernd.is
Náttúrulegur birkiskógur hefur tekið sér bólfestu á Skeiðarársandi

 

Landgræðsla er loftslagsaðgerð

Átakið er liður í því að breiða á ný út birkiskóglendið sem þakti stóran hluta landsins við landnám. Birkiskógar binda kolefni, bæði í viðnum sjálfum og í jarðveginum. Því er endurreisn þeirra mikilvægur líður í því að ná árangri í loftslagsmálum. Þetta er sögulegt verkefni á vegum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og setur nýjan og fallegan tón í náttúruvernd á Íslandi. Einnig mun verkefnið auka vitund og áhuga fólks á íslenskri náttúru og mikilvægi náttúruverndar í víðu samhengi. Verkefnið er þar að auki afar viðeigandi í ljósi þess að Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað áratuginn 2021-2030 endurheimt vistkerfa, einnig kallað vistheimt.

Hvað er vistheimt?

Á Íslandi eru mörg og oft stór svæði sem áður voru gróðri vaxin orðin að auðnum. Þessi vistkerfi eru í mjög slæmu ástandi vegna ósjálfbærrar landnýtingar okkar Íslendinga í gegnum tíðina. Fyrstu einkenni hnignunar gróðurlendis geta verið að víðitegundir og lyng hverfa eða verða mun óalgengari. Alvarleg jarðvegseyðing og myndun auðna eða örfoka lands getur verið lokastig hnignunar.

Á sama hátt og bein eru lengi að gróa getur það tekið langan tíma fyrir skemmd eða röskuð vistkerfi að ná bata. Þótt komin sé gróðurþekja á svæði sem áður var gróðurlaust er ekki sjálfgefið að vistkerfið hafi náð fullum bata. Því má líkja við manneskju sem losnar við gifs eftir fótbrot – þá er fóturinn enn veikburða þó beinið sé að mestu gróið. Þegar mikið rask hefur orðið á vistkerfum getur tekið þau áratugi eða jafnvel aldir að ná bata.

Ferlið við að bæta skemmt vistkerfi svo það verði heilbrigt á ný er kallað vistheimt eða endurheimt vistkerfis. Í vistheimt er beitt aðgerðum til að skila vistkerfunum til fyrra ástands. Endurheimt vistkerfi eru þó ekki nákvæmar eftirlíkingar af upphaflegu vistkerfi, enda eru þau síbreytileg í eðli sínu vegna breytilegra umhverfisaðstæðna.

Hjálpum náttúrunni að hjálpa sér sjálf

Með vistheimt hjálpum við vistkerfi að ná bata og koma náttúrulegum ferlum aftur af stað, t.d. hringrásum vatns og næringarefna. Þegar þessar hringrásir eru komnar aftur í gang heldur vistkerfið sjálft áfram að græða sig, alveg eins og brotni fóturinn sem fer að gróa rétt eftir að hann er kominn í gifs. Tími og þolinmæði eru mikilvægt við þessa vinnu – en árangurinn er sannarlega þess virði.

Söfnun og dreifing birkifræja er aðgerð sem getur skipt sköpum í endurheimt birkiskóga á Íslandi.

Vistheimt með skólum

Landvernd stýrir verkefninu Vistheimt með skólum sem er fræðsluverkefni í Grænfánaskólum um vistheimt og mikilvægi hennar fyrir gróður og jarðveg, lífbreytileika (líffræðilega fjölbreytni) og baráttuna við loftslagshamfarir. Í verkefninu er unnið að því að auka þekkingu ungmenna og kennara á vistheimt sem aðgerð til að sporna gegn stórum alþjóðlegum umhverfisvandamálum. Lögð er áhersla á að nemendur læri að lesa landið og skilji orsakir og afleiðingar hnattrænna flókinna umhverfisvandamála um leið og þeir taka þátt í að leysa þau. Með aðgerðum sínum fá nemendur verkfæri í hendurnar til að leysa raunveruleg vandamál, sem er sérlega mikilvægt nú þegar loftslagskvíði þjakar mörg ungmenni.

Vistheimt bætir landgæði, gróður, jarðveg og eykur líffræðilegra fjölbreytni og er mikilvæg aðgerð til þess að endurheimta illa farin vistkerfi. Vistheimt með skólum er verkefni Landverndar, landvernd.is
Vistheimtarrannsókn við rætur Heklu

Landvernd hefur gefið út handbókina Að lesa og lækna landið og námsefnið Vistheimt á gróðursnauðu landi fyrir miðstig grunnskóla. Í undirbúningi er námsefni í náttúrufræði og vistheimt fyrir unglingastig grunnskóla og framhaldsskóla sem Landvernd mun gefa út á næstunni í samstarfi við Menntamálastofnun. Eitt verkefnið í þessu nýja námsefni verður um endurheimt birkiskóga.