Hvalá, Rjúkandi og Eyvindarfjarðará eru hluti víðáttumikillar landslagsheildar sunnan Drangajökuls sem falla í Ófeigsfjörð og Eyvindarfjörð.
Hvalá

Hvalá, Rjúkandi og Eyvindarfjarðará eru vatnsmiklar ár sem falla í Ófeigsfjörð og Eyvindarfjörð og vatnasvið þeirra nær yfir stóran hluta Ófeigsfjarðarheiðar. Vatnasvið þeirra liggur sunnan við Drangajökul og er svæðið í heild sinni ósnortin landslagsheild sem einkennist af merkilegu vatnafari með ótal vötnum, fossum og ám, jökulmótuðu landslagi og fjölbreyttu lífríki. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lagt til að svæðið verði friðlýst en einnig hefur skapast umræða um að stofna þjóðgarð í tengslum við Drangajökulsvíðernin vegna mikilvægi þeirra er kemur að varðveislu víðerna á heimsvísu. Virkjun ánna þriggja myndi hafa skaðleg áhrif á stöðuvötn, fossa og víðerni sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum og fæli í sér 5 stíflur og 4 lón ásamt öðru óafturkræfu raski. Afl virkjunar er áætlað 55 MW. Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði er umdeild enda felast í henni miklar fórnir. Skipulagsstofnun telur áhrif virkjunarinnar á ásýnd, landslag, víðerni, ferðamennsku og lífríki verulega neikvæð.

Drangajökulssvæðið

Drangajökulssvæðið býr yfir tilkomumiklu landslagi sem mótað er af jöklum ísaldar og mjög virkum landmótunarferlum. Þar eru fossar og firðir, litfögur setlög og hraunlög. Náttúrufegurð á Drangajökulssvæðinu er almennt talin mikil og svæðið býr yfir óvenjugreinilegum og mörgum jökulgörðum sem bera vitnisburð um merkilega jöklunarsögu svæðisins. Í rammaáætlun eru tvær virkjunarhugmyndir á þessu svæði: Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði og Austurgilsvirkjun við Djúp. Náttúrufræðistofnun Íslands og fleiri hafa sagt að helsta ógn sem stafar að svæðinu eru þessar virkjunarhugmyndir og virkjun vatnsfalla þeim tengdum. Stofnunin hefur enda lagt til að svæðið verði friðlýst.

Umhverfi

Drangajökulssvæðið býr yfir tilkomumiklu landslagi, einstökum víðernum og ósnortinni náttúru. Þar er fjöldi stöðuvatna, fossa og jarðminja sem ekki má raska nema brýna nauðsyn beri til og ein stærstu víðerni Evrópu ásamt því að vera stærstu víðerni Vestfjarðakjálkans sem standa skal vörð um. Svæðið hefur verið vinsælt útivistarsvæði meðal íslenskra ferðamanna, en erlendum ferðamönnum um svæðið hefur fjölgað undanfarið. 

Talsverðar fornminjar eru á svæðinu, þær tengjast helst sjósókn og búskap, svo sem naust, lending, beitarhús, réttir og fjárhús. Einnig hafa fjölmargir merkilegir steingervingar/holur eftir trjáboli fundist á svæðinu.  

Álit Skipulagsstofnunar á áhrifum virkjanaframkvæmda á svæðinu er afdráttarlaust. Þau eru neikvæð á fossa, stöðuvötn, jarðminjar og víðerni sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Þá vantar upplýsingar um áhrif á lífríki vatna og fuglalíf.

Lífríki

Drangajökulssvæðið býr yfir fjölbreyttu lífríki og eru helstu einkennisdýrin þar landselur, útselur, refur og æðarfugl ásamt fjölmörgum öðrum varpfuglum og laxfiskum eins og bleikju.

Virkjunarhugmyndir

Hvalárvirkjun er fyrirhuguð á óbyggðum víðernum á Ströndum en uppi eru hugmyndir um að virkja rennsli Hvalár, Rjúkanda og Eyvindafjarðarár á Ófeigsfjarðarheiði.

Virkjanaframkvæmdir felast í 5 stíflum, 4 lónum, skurðum, göngum, stöðvarhúsi, veglagningu, efnistöku og flutningi á jarðvegi.

Ef af Hvalárvirkjun verður er ljóst að um er að ræða óafturkræf spjöll á einstöku landsvæði. Virkjun ánna þriggja, Eyvindarfjarðarár, Rjúkanda og Hvalár, myndi hafa verulega neikvæð áhrif á stöðuvötn, fossa og víðerni sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Svæðið er metið mjög verðmætt óraskað en umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar eru talin verulega neikvæð. Ávinningur af friðlýsingu er ótvíræður til langs tíma.

Hvalárvirkjun fékk falleinkun í mati á umhverfisáhrifum í áliti Skipulagsstofnunar. Landvernd hefur sett saman stutt myndband þar sem hægt er að skoða hvað felst í fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum.

 

Landvernd og fleiri náttúruverndarsamtök hafa unnið að því að láta friðlýsa áhrifasvæði Hvalárvirkjunar. Að neðan má finna ítarefni um ástæður fyrir friðlýsingu svæðisins.

Landvernd: Verndun víðerna Drangajökulssvæðisins mikilvæg skv. Alþjóðlegu náttúruverndasamtökunum

Álit Skipulagsstofnunar

Tillaga NÍ um friðlýsingu

Skýrsla Environice

Skýrsla um áhrif friðlýsinga á framleiðslu og atvinnu í næsta umhverfi

Þingmálaskrá 149. Löggjafaþings

Skýringarmyndband Landverndar um Hvalárvirkjun

Umsögn Landverndar um Hvalárvirkjun

Ályktun Landverndar frá 1998 um verndun menningarumhverfis landslags.

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is